Fyrirlestrar Utís2019 – lærdómur og áform

Eftir hvern utís-viðburð hef ég tekið saman lærdóminn minn og áform um hvað ég ætla að gera við þann lærdóm. Í gegnum tíðina hef ég fundið út að eigin starfsþróun verði ekki að veruleika fyrr en nýi lærdómurinn er þróaður í daglegu starfi og þá helst með öðrum.

Sameiginlegir fyrirlestrar voru fleiri á Utís2019 en á þeim Utís-viðburðum sem ég hef áður tekið þátt í. Það er í sjálfu sér í lagi þar sem mér sýnist þeim ætlað að ydda boðskap viðburðarins; að kennsluhættir sem taka mið af samfélagi 20. (eða jafnvel 19.) aldarinnar duga ekki lengur ef búa á nemendur skólanna undir „líf og störf í lýðræðisþjóðfélagi í sífelldri þróun“. Aðalsmerki Utís hefur fram til þessa verið að fólk kemur saman til að deila hvert með öðru, prófa ný verkfæri og aðferðir og fikta sig áfram. Það hefur fram til þessa verið mér dýrmætur tími. Þess vegna velti ég fyrir mér hvort þeir sem á annað borð sækja um á Utís og komast að, þurfi á því að halda að heyra boðskapinn oftar en einu sinni. Allir fyrirlestrarinir sem ég hlustaði á voru vel settir fram; áheyrilegir og þeim fylgdu fallegar glærur. Og mér finnst oftast bæði skemmtilegt og fróðlegt að heyra boðskapinn settan í annað samhengi en ég hef áður heyrt eða lesið. En ég er ekki tilbúin til þess að það gerist mikið oftar en þrisvar sinnum á kostnað tímans sem ég gæti öðru leyti nýtt með kollegum í verklegar æfingar og aðrar pælingar. Þess vegna fundust mér þessir þrír fyrirlestrar alveg mátulega langir, áheyrilegir og fallega fram settir.

School people – Jeffrey Heil

Jeffrey Heil sótti fyrirsögn fyrirlestrarins, School People, í samtal sem hann átti við mömmu sína þegar hann spurði hana af hverju hún tæki það ekki meira nærri sér að frændi þeirra hætti í framhalsskóla: Oh, Jeffrey, you know, in our family we are not school people.

Í erindi sínu velti hann fyrir sér hverjir séu eiginlega „school people“. Eru það þeir sem komast í gegnum námið sem þar hefur verið í boði og nefndi hann hið hefðbundna bóknám og staðreyndalærdóm. Eða einhverjir aðrir? Hann spurði einnig að því hvort það ætti ekki að vera þannig að öllum gæfist tími og tækifæri til að læra í skólanum? Því til áréttingar spann hann erindi sitt í kringum staðhæfinguna að allir geti lært og hafi áhuga á því að læra. Hann nefndi að það væri ekki víst að einhæfir kennsluhættir sem miða við bókalærdóm og ritgerðarskrif henti öllum nemendum. Máli sínu til áréttingar sýndi hann dæmi um börn og ungmenni sem elska að læra með því að nýta sér t.d. myndbönd á YouTube til að æfa ákveðna færni eða hæfni. Þau sögðu að í skólanum væri ekki hægt að læra á þennan hátt; það væri ekki hægt að stoppa, spóla til baka, skoða betur og æfa aftur og aftur. Í skólanum væru miðlarnir aðrir og beðið um annars konar frammistöðu.

Jeffrey brýndi fyrir ráðstefnugestum að skoða vel hvaða viðhorf stýrðu vali þeirra á kennsluháttum. Hann spurði, af hverju ertu kennari og hvaða skilaboð eru á „hurðinni að þinni skólastofu“? Are you a conductor or are you a gatekeeper?

Í lokin á erindi sínu ræddi Jeffrey um notkun gagna í skólastarfi. Hann lagði áherslu á að hann væri í sjálfu sér ekki á móti gögnum til að meta árangur skólastarfs en lagði áherslu á að áður farið væri að safna gögnum þyrfti að ákveða til hvers ætti að nota þau af því að gögnin fá ekki tilgang fyrr en þau fá andilit (nemenda) og innihald; þ.e. fyrir hverja er verið að safna gögnum og hvernig á að nota þau til framfara?

Og lokaorð Jeffrey Heil voru:

Champions of Change – Micah Shippee

Micah Shippee ræddi í sínu erindi um breytingar; breytingar á samfélaginu og hvaða breytingar skiptu máli svo skólastarf gæti talist efla menntun til framtíðar. Hann byrjaði á því að virkja áheyrendur með því að spyrja þá hversu nýungagjarnir þeir teldu sig vera. Það gerði hann með því að sýna þeim myndir af verkfærum og fyrirbærum og merkja hjá sér á skalanum 1-5 hversu vel þeim líkaði það sem hann sýndi. Niðurstaðan var að það er ekki nóg að vera nýjungagjarn það þarf líka að vera hægt að nýta nýjungarnar á þágu menntunar og að fá aðra með sér í lið til að nýta allar nýjungarnar. Micah sýndi svo myndband sem Mark Van Vugt sýndi á ESHA ráðstefnunni árið 2012 um mikilvægi þess að rækta og hlúa að fyrstu fylgjendum nýrra hugmynda. Þeim sem þora að stíga út úr hópnum/vananum og með þátttöku sinni hvetja frumkvöðla til dáða. Því næst sýndi hann kúrfu Everett Rogers um hópaskiptingu við innleiðingu á nýrri tækni. Rogers byggði kúrfuna sína á 600 samantektum af næstum 600 rannsóknum á útbreiðslu nýjunga á margvíslegum sviðumi. Shippee lagði þannig út frá henni að ef tekst að hlúa að fyrstu fylgjendum nýrra hugmynda þannig að þeir geti haft áhrif á meirihlutann sem er fyrri til er björninn að hluta til unninn því að þá fjölgar þeim hratt sem nýta ný verkfæri og/eða hugmyndir (Sjá athugasemd og útskýringar frá Tryggva Thyer sem fylgir þessari færslu).

Micah áréttaði síðan að stór og alþjóðleg fyrirtæki leggi ekkert sérstaklega áherslu á að ráða til sín fólk með langa skólagöngu að baki heldur sé einnig leitað að öðrum eiginleikum eins og frumkvæði, sköpun, samvinnu- og samskiptahæfni og hæfni til að tileinka sér nýja hluti. Hann setti fram áhugaverða mynd sem sýnir hvaða þættir námsumhverfisins hafi áhrif á námsárangur: þekking, færni, umhverfi og áhugahvöt. Micah vildi meina að þegar þessir þættir eru ekki í jafnvægi í námsumhverfi nemenda er ekki öruggt að þeim fari fram eða að þeir læri það sem gæti nýst þeim.

Í lokakafla erindisins sýndi Micah brot úr myndböndum sem sýna hvernig vélmenni vinna störf sem fyrir nokkrum árum voru unnin af fólki; taka saman pantanir (Amazon), aka bílum og sporvögnum og alls kyns flokkunarstörf. Niðurstaða erindis hans var að skólastarf þurfi í auknu mæli að leggja áherslu á að taka mið af því að nemendur eiga eftir að sinna æ fleiri störfum sem reyna á það sem tölvur og vélar geta ekki enn gert; gagnrýna hugsun, sköpun, nýjungagirni og samskiptafærni, jafnvel við fólk sem við aldrei hittum eða sjáum! Af því þannig er veröldin nú þegar orðin.

The Imminent Shift – Heather Lister

Heather Lister hóf erindi sitt á því að velta fyrir sér hvernig samfélagið skilgreindi árangur og hvaða skilaboð „markaðurinn“ sendi neytendum um hvað þyrfti að kaupa og gera til að ná árangri. Í þeirri umfjöllun dró hún sérstaklega fram hvernig bóka- og smáforritaútgefendur beina markaðssetningu sinni að foreldrum. Hún nefndi Baby University og Lifelong Kindergarten þar sem markaðssetning menntunar byrjar snemma og otað er að foreldrum að börn þeirra „missi af lestinni“ ef ekki er byrjað nógu snemma að æfa þau í að „ná árangri“.

Heather velti síðan upp spurninginnu hvort það gæti verið að „uppfinningum“ fari fækkandi í framtíðinn; hvort að öld hinna byltingarkenndu uppfinninga gæti verið liðin?. Í því sambandi spurði hún áheyrendur svo að því hvora uppfinninguna þau myndu alls ekki vilja vera án, pípulagna eða snjallsíma? Og að velta síðan fyrir sér hvor uppfinningin hefði verið meiri bylting á þeim tíma sem hún var fundin upp.

Heather ræddi síðan mikilvægi sköpunar í menntun nútímans en varaði jafnframt við því hvernig skólinn og samfélagið nálguðust „kennslu í sköpun“. Hún sagði að um leið og sköpun væri orðin lykilorð í námi og menntun væri markaðurinn fljótur að taka við sér en skapandi skólastarf væri ekki hægt að kaupa né setja upp í gátlista sem merkt er við þegar öllum atriðum á listanum væri lokið. Það væri öllu fremur hvernig kennarar skipuleggja námið og einstök verkefni sem gerir skólastarf skapandi og krefjandi fyrir nemendur þannig að þeir nái framförum/árangri. Hún benti á að skapandi og óhefðbundið skólastarf væri flókið og jafnvel erfitt en áréttaði að stundum væri það rétta og það erfiða það sama og það rétta. Og við áheyrendur utís2019 væri bara hægt að segja: So keep going!

Áform

Eftir að hafa skoðað glósurnar frá fyrirlestrunum get ég ekki annað en áformað að halda áfram að styðja við skólastarf sem leggur áherslu á menntun til framtíðar og að vera gagnrýnin á markaðssetningu þess sem „telst“ styðja við þá menntun.

2 thoughts on “Fyrirlestrar Utís2019 – lærdómur og áform

 1. Annaðhvort hefur Shippee ekki fyllilega skilið kenningu Rogers eða að hann hefur ekki náð að útskýra hana mjög vel.

  Tvö grunn atriði: 1. kenningin er ekki um innleiðingu nýjunga heldur um útbreiðslu þeirra (fín lína þarna á milli en mikilvæg lína). 2. hún er ekki byggð sérstaklega á rannsóknum Rogers á innleiðingu tækni í landbúnaði, sem var þó hans sérgrein. Hann byggði hana á samantektum af næstum 600 rannsóknum á útbreiðslu nýjunga á margvíslegum sviðum.

  Varðandi það að hlúa vel að tilteknum fylgjendum hugmynda -og gefið í skyn þá að það eru þeir sem taka snemma upp nýjungar sem ætti að hlúa að- þá er það ekki alveg í samræmi við kenningu Rogers. Rogers segir meira segja nokkuð skýrt hverjir það eru sem þarf að hlúa sérstaklega að og þeir eru ekki meðal þessara 5 hópa sem hann skilgreinir í tengslum við útbreiðsluferlið (og eru listaðir undir kúrvunni). Heldur eru það hinir s.k. gatekeepers og opinion leaders, sem hafa allt aðra eiginleika en þeir sem eru í upptökukategóríunum.

  Það sem þarf að hafa í huga hvað þetta varðar er að upptökuferlið og útbreiðsluferlið er tvennt ólíkt í kenningu Rogers. Upptaka er einstaklingsbundin aðgerð en útbreiðsla er hópaðgerð. Gatekeepers og opinion leaders hafa áhrif á hópana meira en einstaklingana. Þess vegna skipta þeir svo miklu máli fyrir útbreiðslu.

  Og að lokum – Kenning Rogers miðar alltaf við 100% útbreiðslu. Critical Mass getur tryggt að 100% útbreiðsla náist en það þarf ekki að þýða að hún náist strax eða einu sinni neitt sérlega fljótt. Það getur liðið töluverður tími milli critical mass og 100% útbreiðslu. T.d. náðist sennilega critical mass í útbreiðslu internetsins hér á landi fyrir löngu – en upptakan er samt ekki 100% ennþá. Af þessum sökum er kenning Rogers ekki sérlega heppileg kenning til að styðjast við þegar verið er að innleiða nýjungar. Við viljum innleiða nýjungar tiltölulega fljótt en útbreiðsla, sem er aðal viðfangsefni Rogers, funkerar allt öðruvísi.

  • Sæll Tryggvi og takk fyrir ábendinguna og útskýringuna. Gott að fá hvoru tveggja.
   Ég laga það sem kemur fram um á hverju hann byggir kenningu sína. Var svo viss um að hann hefði rétt fyrir sér en ég gleymt eða misskilið Rogers. Því ég hef áður kynnt mér kenningu Rogers og fannst ég geta samþykkt hvernig Shippee lagði út frá henni. Því eins og þú segir er hárfín lína á milli útbreiðslu og innleiðingu og eftir því sem ég skyldi Shippee þá er hægt að líta fram hjá þeirri línu í því samhengi sem hann talaði. Sambr. hvernig hann ræddi um fyrstu fylgjendur; að þeir sem mæta á utís eru einstaklingarnir sem verða fyrir áhrifunum og væntanlega fá liðsmenn sem þeir geta hlúð að til að útbreiðslan gangi sem best fyrir sig. Sem hópur eu utís-hópurinn og þeirra liðsmenn hluti af útbreiðslunni.

   Shippee fór ekki djúpt í gatekeepers eða opinion leaders í tengslum við Rogers. Þess vegna er gott að fá innlegg þitt. Hafðu þakkir fyrir það.
   Ingileif

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.