Reglulega rifjast upp fyrir mér myndlíking sem dr. Sigrún Júlísdóttir sagði mér af fyrir löngu. Myndlíkingin varðaði breytingastjórnun. Hún sagði að ef fólk vildi breyta einhverju þá mætti velta fyrir sér hvort væri betra að kasta mörgum smáum steinum í lygna tjörn eða að kasta einum stórum steini til að fá fram breytingu. Þeir smáu eru fleiri og gárur þeirra snertast og eru lengur á leiðinni að landi. Út frá þeim stóra gusast og slettist hratt í allar áttir. Þó að litlu steinarnir séu margir og smáir þá snertast gárur þeirra og þótt gárurnar þeirra fari hægt yfir þá ná þær líka landi eins og þær sem eru stærri og fara hraðar. Munurinn er að þær stærri hafa ekki hitt aðrar gárur á leiðinni að landi og þess vegna ekki orðið fyrir áhrifum annarra.

Báðar aðferðirnar hafa hreyft við lygnunni hvor á sinn hátt og það má svo velta fyrir sér hvor þeirra muni geta skilað vænlegum árangri þegar til lengri tíma er litið.
Eftir að hafa tekið þátt í #Utís2019 um helgina fannst mér myndlíking Sigrúnar eiga vel við Utís-viðburðina sem ég hef tekið þátt í. Þar safnar Ingvi Hrannar Ómarsson frumkvöðull saman mörgum steinum sem hann kallar, landsliðið í menntun. Þeir sem þangað koma eru tilbúnir til að deila þekkingu sinni og reynslu hver með öðrum og einnig eftir viðburðinn. Þannig tekst Utís á hverju ári að gára mennta-tjörnina á Íslandi svo enn fleiri fái að njóta þess sem þar fer fram.
Þó að lygnan og stillan séu oftast bæði þægilegar og fallegar þá gagnast hvorug þeirra til breytinga. Af fyrirlestrunum og vinnustofum á #Utís2019 og fleiri viðburðum sem fjalla um menntun til framtíðar er ljóst að mennta-tjörnin á Íslandi og víðar þurfa að gárast til að þær geti veitt nemendum menntun sem dugar þeim sjálfum og samfélagi þeirra til framtíðar. Og til þess þarf sannarlega marga steina. Þess vegna finnst mér gott að Utís skuli á hverju ári stækka. Hver smásteinn sem Ingvi Hrannar velur til þátttöku er þyngdar sinnar virði í gulli þegar kemur að því breyta kennsluháttum þannig að þeir nýtist við skólastarf sem á að gagnast til að breyta nútíðinni og nemendum og samfélaginu til hagsbóta til framtíðar.