Appelsínu marmelaði

 

Þegar við bjuggum í Noregi lærðum við að þar tilheyra appelsínur páskunum. Þar þykir tilhlýðilegt í miðri skíðaferð að tylla sér á stein eða trjábol til að snæða appelsínu og drekka Sóló-appelsín. Í búðunum voru auglýstar páska-appelsínur á sérstöku tilboðsverði. Mér dettur þetta alltaf í hug þegar páskarnir fara að nálgast en seint mun ég venjast því að borða appelsínu í miðri skíðaferð. Nú fyrir þessa páska sauð ég marmelaði sem ég hef ekki gert lengi. Það varð afbragðsgott og þess vegna deili ég uppskriftinni með ykkur:

6 appelsínur. Afhýðið þrjár appelsínur og leggið börkinn af þeim í bleyti yfir nótt. 

Hálfur pakki þurrkaðar apríkósur. Leggið í bleyti yfir nótt (í aðra skál en appelsínubörkurinn).

Daginn eftir eru hinar þrjár appelsínurnar afhýddar. Þær og hinar þrjár eru skornar í mátulega báta fyrir hakkavélina. Vatninu er hellt af berkinum og hann skolaður. Apríkósurnar, allar appelsínurnar og börkurinn sem var í bleyti eru svo hökkuð í hakkavél. Maukið er viktað og út í það er settur hrásykur sem er helmingurinn af þyngd mauksins (í upphaflegu uppskriftinni var sama magn af hvítum sykri og þyngdin á maukinu). Hrært er í maukinu og sykrinum þar til sykurinn er uppleystur, það er sett í pott og soðið við vægan hita í 20 mínútur. Slökkt undir og látið kólna yfir nótt. Morguninn eftir er maukið hitað að suðu, sett á hreinar krukkur, lokað strax og sett í kæli.

Útgáfuna hérna fyrir ofan mætti kalla slow food þar sem marmelaðigerðin tekur þrjá daga. Á síðasta laugardag prófaði ég að gera þetta á einum degi og mætti kalla það fast food útgáfuna. Þá lagði ég börkinn og apríkósurnar í bleyti að morgni, hakkaði og sauð um miðjan dag (eftir skíðaferð) og sauð upp á því aftur rétt fyrir háttinn. Þá átti ég splunkunýtt marmelaði í ísskápnum strax morguninn eftir.

Verði ykkur að góðu og gleðilega páska.

Orkunasl

Í erli dagsins er auðvelt að falla í þá grifju að stinga upp í sig því sem er hendi næst og það er ekki gefið að það sé manni hollt og nærandi til lengdar. Hæfilegt magn af orkunasli getur því verið lausnin. Áðan bjó ég mér til blöndu sem mér finnst lofa góðu. Hún er söltuð, sæt og með kanilbragði til viðbótar. Ég hafði keypt hráefnið í þessa blöndu þegar heilsuvörur voru á afslætti í Nettó um daginn og allt er það sagt og merkt sem lífrænt ræktað. Þeir sem vilja annað geta auðvitað notað það.

500 g möndlur með hýði settar á bökunarplötu sem hefur verið klædd bökunarpappír og sett inn í 190 gráðu heitan ofn í 10-15 mínútur eða þar til þær eru orðna heitar. Þá eru þær teknar út úr ofninum og 3-4 msk af tamarísósu hellt yfir þær. Hrært í þeim á meðan sósan þornar á möndlunum. Ef það gerist hægt má bregða möndlunum aftur inn í ofninn til að þurrka þær.
3 lúkur af kókosspæni eru settar á heita pönnu og 2 tsk af kanil er stáð yfir. Velt um á pönnunni þar til það hefur tekið fallegan lit.
100 g trönuber (má nota rúsínur í staðinn)

Þegar kókosflögurnar og möndlurnar hafa kólnað er öllu blandað saman og sett í ílát sem hægt er að loka vel. Og muna svo að taka með sér til að grípa í á milli mála. Það sakar heldur ekki narta í dagskammtinn af 70% súkkulaðinu með möndlunum sem orðnar eru saltar af tamarísósunni.

IMG_1375-0.JPG

Kanilsýróp

Flöskur sem áður geymdu hvítvín, pakkaband frá fyrri jólum, bakaríspoki og konfektkassi til að merkja og skreyta flöskuna.

Síðan fyrir nokkrum árum er kanilsýróp orðinn sjálfsagður hluti af aðventunni hér á Mörkinni. Flestir þekkja að allan ársins hring er hægt að fá sér alls kyns sýróp á kaffihúsum til að láta setja kaffidrykkina í sparibúning en fæstum, þar á meðal mér, dettur í hug að auðveldlega er hægt að búa sér til sýróp til að setja te og kaffi í hátíðarbúning. Hérna er uppskrift að kanilsýrópinu:

1 lítri vatn
300-350 g hrásykur
3-4 kanilstangir

Látið suðuna koma upp og sjóðið í 15-20 mínútur. Ef þið viljið hafa sýrópið þykkt verður að sjóða það lengur. Setjið á hreinar flöskur, lokið þeim og njótið svo í góðum bolla af tei eða kaffi.

Gaman er að merkja flöskurnar fallega og þá er þetta orðin falleg og skemmtileg gjöf. IMG_1202.JPG