Búa til kvikmynd í Google Photos

1200x630bb

Það getur verið gaman að miðla myndum úr verkefni, viðburðum eða deila minningum með stuttri kvikmynd. Það eru til nokkrar leiðir til þess og ein þeirra er að nota Google Photos. Í appinu á símanum eða Ipadinum er það gert á mjög einfaldan hátt. Og það besta er að það er mjög fljótlegt og skemmtilegt. Eins og í öðrum verkfærum Google þá getur kvikmyndagerðin verið samvinnuverkefni eins margra og velja að vinna saman.

  1. Opnaðu Google Photos appið og skráðu þig inn á reikninginn sem afritar myndirnar úr tækjunum þínum.
  2. Smelltu á Hjálpari sem er í stikunni neðst á skjánum. Það er líka hægt að nota flýtileiðina og smella á punktana þrjá sem eru efst vinstra megin á skjánum og velja þar Búa til nýtt – kvikmynd.
  3. Í Hjálpari veldu „Búa til nýtt“ og veldu síðan Kvikmynd, sem er grænn hnappur efst á skjánum.
  4. Þá birtast á skjánum margs konar sniðmát að kvikmyndum. Sú fremsta er merkt með plús og það er hún sem valin er þegar á að búa til kvikmynd úr myndunum sem þú átt inni á Google Photos svæðinu þínu. Í hinum valmyndunum styttir appið þér leið í ákveðunum þemum.
  5. Þegar búið er að smella á plúsinn sýnir appið þér allar myndirnar á svæðinu þínu. Það eina sem þú þarft að gera er að velja þér myndir og myndbönd í kvikmyndina þína með því að merkja við þær í litla hringinn sem er efst í vinstra horninu á hverri mynd.
  6. Þegar þú hefur valið allar myndirnar og myndböndin sem þú ætlar að hafa í kvikmyndinni þinni þá smellir þú á Búa til í hægra horninu á skjánum.Photo Google Photos 2
  7. Þá býr appið til kvikmyndina fyrir þig og opnar svo fyrir þig glugga þar sem þú getur unnið í kvikmyndinni þinni með því að klippa til myndbönd, stytta eða lengja tímann sem þau eða myndirnar eru í kvikmyndinni. Það er gerir þú með því að færa til litlu hvítu stikuna sem er við hverja mynd.
  8. Með því að smella á punktana þrjá sem eru við hverja mynd getur þú bætt við myndum eða myndböndum, tvöfaldað myndina sem er fyrir aftan punktana eða fjarlægt hana úr kvikmyndinni þinni.
  9. Þegar þú smellir á punktana þrjá við myndband bætast við tveir möguleikar. Annar er val um að sýna allt myndbandið í kvikmyndinni eða bara valinn hluta og hinn er að taka hljóðið sem fylgir myndbandinu út af því eða að leyfa því að vera áfram inni í kvikmyndinni.
  10. Með því að þrýsta fingrinum á myndina eða gráa svæðið í kringum myndina getur þú fært hana til í kvikmyndinni þinni.
  11. Fyrir neðan kvikmyndina þína er nóta.  Með því að smella á hana velur þú tónlistana sem þú vilt að verði leikin undir í kvikmyndinni þinni. Þú getur valið að setja tónlist úr eigin safni, tónlist sem appið býður uppá og einnig að hafa enga tónlist. Í appinnu er tónlistin flokkuð eftir þemunum, dramatískt, raftónlist, íhugult, rokkað og hresst. Undir hverju þema eru nokkrir lagabútar sem hægt er að velja um.
  12. Þegar þú hefur lokið við kvikmyndina smellir þú á vista sem er ofarlega í vinstra horninu á skjánum þínum. Þá vistast kvikmyndin þín á Google Photos svæðinu þínu. Þegar þú smellir á vista birtist mynd með stiku neðst á skjánum þar sem þér býðst
    1. að deila kvikmyndinni þinni,
    2. að vinna meira í henni,
    3.  að setja inn upplýsingar um hana
    4. að henda henni.

Þá er ekkert annað eftir en að horfa á kvikmyndina sína og dreifa henni til annarra svo þeir geti líka fengið að njóta hennar.

Gangi þér vel.

ps. Það er ekkert mál að fara aftur inn í kvikmyndina þína í gegnum Google Photos appið þitt eftir að þú hefur vistað hana og vinna meira í henni ef þér líkar ekki útkoman.

 

1 thought on “Búa til kvikmynd í Google Photos

  1. Bakvísun: Útivera, framfarir og gleði | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.