Það eru til mörg verkfæri fyrir snjalltæki til að skrá og miðla sögum og frásögnum. Eitt af þeim er smáforritið Clips. Í vikunni var ég á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar. Sá viðburður er í sjálfu sér merkilegur í hvert sinn og vel þess virði að hann sé skráður og sögunni sé miðlað sem best og víðast. Ein leið til þess er að safna myndum og stuttum myndböndum og skeyta saman í smáforritinu Clips. Clips gefur nefnilega möguleika á að setja inn á endanlega myndbandið m.a. texta, tákn, að vinna með myndirnar og myndböndin og setja á myndirnar filtera. Það er líka hægt að setja tónlist við myndbandið bæði úr eigin safni og safni um það bil 70 titla sem fylgja forritinu. Clips er til fyrir Iphone og Ipada.

Clips er til fyrir Iphone og Ipad
Á síðustu lokahátíð Upplestrarkeppninnar hafði ég gleymt að taka myndavél skólans með mér á hátíðina svo ég þurfti að nota símann minn til að taka myndirnar. Þegar ég ætlaði að fara að dæla þeim úr símanum inn á heimasíðu og þaðan á Facebooksíðu skólans og skrá við hverja mynd nafn og skóla upplesaranna datt mér í hug að það væri kannski skemmtilegra að skoða nokk svo einhæft myndefni í litlu myndbandi þannig að ég setti myndirnar sem ég tók saman í Clips og til að lífga upp á myndbandið bætti ég við myndum með texta sem ég bjó til í smáforritinu Canva og setti í lokin inn tónlist úr tónlistarsafni forritsins.
Mér finnst einn af kostunum við Clips vera, að það er auðvelt að vinna með það bæði eftir viðburði og líka að safna inn á myndbandið beint inn á forritið á meðan á viðburðinum stendur. Þannig verður sagan sem myndbandið segir til nánast í „beinni útsendingu“ eða í hita leiksins (þó að því sé miðlað eftir á). En áður en myndbandinu er miðlað er hægt að setja inn í það fleiri myndir (t.d. frá öðrumm), tákn eða annað sem auðgar söguna sem myndbandið á að segja. Forritið gefur möguleika á að miðla myndbandinu beint úr forritinu án þess að það þurfi að vista það á tækinu og miðla því þaðan. Mér finnst þægilegast að miðla myndböndunum frá Youtube rás skólans eða minni eigin.
Á meðan ég var að setja saman myndirnar frá Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar fékk ég áminningu í tölvupósti um að kona sem ég fylgist með má blogginu hennar hefði verið að birta pistil um það hvernig hún notar Clips. Í pistli hennar eru mörg hagnýt ráð um notkun appsins sem ég mæli með að rennt sé yfir hann áður en hafist er handa. Með því er hægt að varast ýmsa örðugleika í byrjun.
Ég hef notað Clips m.a. til að segja sögu úr hversdagslífinu. Dæmi um það er þegar Árni Heiðar ömmustrákur bakaði piparkökur fyrir síðustu jól. Það er í sjálfu sér ekki í frásögur færandi nema þegar myndirnar sem af þvi eru teknar eru settar saman á skemmtilegan hátt.
Oftast hef ég notað Clips í tengslum við vinnuna, bæði þegar ég hef verið á námskeiðum t.d. UTÍS2017, í vinnu með félögum mínum í Skólastjórafélagi Íslands og í skólanum (dæmi frá foreldrakynningu, dæmi úr skólalífinu) núna síðast eftir lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar.
Ég get sem sagt mælt með Clips og ég veit að ég á eftir að nota meira og næst er að æfa mig betur í því að safna myndum og myndbrotum beint inn á forritið af því mest hef ég notað það til að setja saman myndbönd með myndum úr myndasafninu á símanum.
Leiðbeiningar frá Imore.com um notkun Clips.
Myndbönd á Youtube um notkun Clips.