Stælar og fiff í kynningum

bekkjarfundir

Mynd úr myndasafni mínu um bekkjarfundi. Tekin fyrir utan Húsabakkaskóla.

Á dögunum var ég með upprifjun á lykilatriðum bekkjarfunda fyrir kennarahóp sem ég hafði áður hitt með sama efni fyrir nokkrum árum. Í fórum mínum á ég glærusafn um bekkjarfundi sem rekur sig 12 ár aftur í tímann og ýkjulaust hef ég farið að minnsta kosti 100 sinnum í gegnum þessar glærur með mismunandi hópum. Þegar ég tók þessar glærur fram til að undirbúa mig fyrir upprifjunina með síðasta hóp notaði ég tækifærið til að poppa gamla power point safnið aðeins upp og notaði það sem ég hafði lært í haust af Zachary Walker, Anitu Chen og Jennie Magiera.

  1. Ég byrjaði á því að færa glærurnar yfir í Google Slides af því þar hef ég ákveðið að hafa gögnin mín þó ég kunni minna á stælana og fiffin í Slides en Power Point. Það fór ekki allt í klessu eins og áður því nú sér gervigreindin í Slides um að aðlaga stærðina á glærunum á milli verkfæra. Það sparaði mér tíma því ég þurfti þá ekki að föndra við að aðlaga textann og uppsetninguna að Slides. Það hafði ég nefnilega þurft að gera áður.
  2. Svo tók ég Zachary Walker mér til fyrirmyndar:
    • Ég setti reglulega inn hreyfingu svo kennararnir sætu ekki kyrrir allan tímann. Ég litakóðaði glærurnar þannig að hópurinn vissi að þegar glæran var með bleikum bakgrunni þá mátti eiga von á þeirra þátttöku með hreyfingu og samtali.
    • Ég hafði í huga að góð kennslustund er þar sem nemendur vinna meira en kennarinn.
    • Í hreyfingunni var líka æfing með upprifjun á því sem ég hafði verið að fara yfir. Við rifjuðum sama atriðið upp oftar en einu sinni með mismunandi aðferðum.
    • Ég setti tímavaka með tónlist í glærurnar til að halda okkur við efnið.
    • Ég setti samtöl tveggja eða fleiri inn í kynninguna og í einu þeirra gátu þáttakandur skilað niðurstöðum inn á rafrænt spjallborð. Niðurstöðurnar var svo hægt að nota til að ræða eða tengja við það sem á eftir kom. Reynsla þeirra sem voru í salnum var þannig tekin með í efni dagsins.
    • Í lok kynningarinnar setti ég verkefni þar sem þátttakendur áttu að nota símana sína eða Ipada til að taka sjálfa sig upp og segja frá því sem þeir lærðu og hvað þeir ætluðu að gera við það með nemendum (Takeaway). Ég notaði Flip Grid til að safna myndböndunum saman.
  3. Síðan notaði ég stæla og fiff í glærunum sem Anita Chen hafði kennt okkur á vinnubúðum um Google í Þelamerkurskóla um daginn:
    • Ég lét mynd ná yfir alla glæruna svo boðskapurinn kæmist til skila og vekti til umhugsunar.
    • Ég sullaði ekki með margar leturgerðir eða bakgrunna í kynningunni en uppsetningarnar voru mismunandi eftir því hvort á glærunum voru fyrirmæli eða boðskapur.
    • Ég náði að hafa svartan bakgrunn með hvítum stöfum með ákveðnum skilaboðum og svo birtist mynd sem undirstrikaði skilaboðin næst þegar ég smellti á músina. Mér og kennrunum sem voru á kynningunni fannst það svo töff að við horfðum þrisvar sinnum á þetta!
    • Ég setti upp einfalt skjal á Docs sem allir þátttakendur höfðu aðgang að og gátu sett inn spurningar um bekkjarfundi og fengið svör við þeim; frá einhverjum úr hópi þátttakenda, frá mér eða með umræðum allra sem voru í stofunni. Bara þetta eina einfalda fiff gefur geldri glærukynningu mikið líf því hún gefur þátttakendum sem annars rétta ekki upp hönd, tækifæri til að spyrja og jafnframt gefur þetta fiff möguleika á að efni sem brennur á þátttakendum verði tekið til umræðu og gefur fleirum en fyrirlesara tækifæri til að svara spurningum um efnið.
    • Ég notaði viðbótina við Chrome vafrann sem Anita sýndi okkur til að dreifa vefslóðum og QR kóðum til þátttakenda.
  4. Á meðan ég tók glærusafnið í gegn hafði ég í huga boðskap Jennie Magiera frá fyrirlestri hennar á námstefnu SÍ um daginn: það hafa allir frá einhverju að segja. Það var auðvelt að setja það í samhengi við áherslur Zachary um hreyfingu, fjölbreytni, upprifjun og samtal. Það kemur nefnilega enginn galtómur á kynningar eins og þessar, allra síst kennarar sem hafa setið sams konar kynningar áður!
  5. Á menntabúðum #Eymennt hafði ég einu sinni lært á Adobe Sparks. Ég tók nokkrar af gömlu glærunum þar sem nemendur sögðu sjálfir frá eigin reynslu af bekkjarfundum og bjó til myndband úr þeim. Í lok kynningar er meira hressandi að horfa á myndband með tónlist og texta en á hreyfingarlausan texta á glæru. Næst bæti ég myndum af bekkjarfundum inn í myndbandið.
  6. Ég nýtti mér að á tölvunni og í símanum er ég með verkfæri sem leyfir mér að nota símann sem fjarstýringu á glærusýninguna. Helgi Hrafn frumburður minn og tæknilegur ráðgjafi hjálpaði mér að finna það á sínum tíma. Fjarstýringin gefur mér möguleika á að hreyfa mig um rýmið og ræða við þátttakendur í stofunni.
  7. Í lok kynningarinnar söfnuðumst við saman í hring og gerðum eina „bekkjarfundaæfingu“. Hún safnaði hugsunum okkar saman og var dæmi um æfingu sem kennarar gátu farið með inn í kennslustofuna á næsta bekkjarfund.

Þó það hafi tekið mig meiri tíma en ég áformaði að laga gamla glærukynningu var það vel þess virði. Ég sá að mér tókst að virkja þátttakendur meira en áður og af þeim sem gerðu myndbönd í lokin sá ég að mér hafði tekist að koma innihaldinu til skila þannig að alla vega þeir geta nýtt sér það með nemendum.

Niðurstaðan er, að gamlar og löngu geldar glærusýningar er vel hægt að poppa upp með örlítið af stælum og nokkrum nýjum fiffum. Það er bara að byrja á því.

 

1 thought on “Stælar og fiff í kynningum

  1. Bakvísun: Það sem ekki var sagt | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.