Það sem ekki var sagt

img_2017

Úr fyrirlestri á Google Summit í janúar 2017

Í gær sagði ég frá því hvernig ég hressti uppá gamla og gelda glærukynningu með nokkrum stælum og fiffum sem ég hef lært í haust en í þeirri frásögn er bara talið upp hvað var gert við kynninguna en minna sagt frá því hvernig allt saman gekk eða hvað gekk ekki sem skyldi.

Á heildina litið gekk kynningin vel og var það auðvitað vegna þess að flestir þátttakendur tóku breytingunum vel en það skal viðurkennast að ég var ekki fullkomlega örugg þegar ég byrjaði kynninguna. Í upphafi hennar var það nokkuð hjákátlegt að benda fólkinu á að þau gætu náð í glærurnar á netið með því að slá inn slóð í vafrann sinn eða skanna QR kóða þegar fæstir mættu með tölvur eða Ipada á kynninguna. Hugmyndin var að þannig gætu þátttakendur glósað og nýtt sér strax það sem þar var. Skólastjórinn sem var á staðnum hljóp til og sótti Ipada nemenda og dreifði til þeirra sem vildu nýta sér þennan möguleika. Flestir voru líka með snjallsíma sem þeir nýttu að einhverju leyti.

Þegar kom að því að nýta rafræna spjallborðið í hópaumræðunum var það þannig að aðeins einn úr hverjum hópi skráði sig inn á svæðið og skráði fyrir hina eða hópinn. Ég hafði séð fyrir mér að allir skráðu sig inn og fylgdust með. Það kom að vísu ekki að sök því spjallinu var varpað upp á vegg og nýttist þannig til umræðna.

Þrátt fyrir að ég væri með gamalt efni sem ég vissi nákvæmlega hvað tæki langan tíma að miðla þá fór það svo að þegar öll virkni þátttakenda var komin inn í kynninguna var þetta of mikið efni fyrir þann tíma sem venjulega tók mig að messa boðskapinn ein. Eintalið tekur auðvitað styttri tíma en samtalið! Ég hefði getað verið með hópinn í klukkustund í viðbót. Það var merkilegt að uppgötva það eftir að hafa staðist tímamörk með þetta efni í árafjöld. Efni kynningarinnar í nýja búningnum þarf því augljóslega að kjarna betur ef hún verður aftur notuð með sama sniði.

Mér telst til að samtals hafi þátttakendur verið um 25. Af þeim voru sex sem tóku þátt í síðustu æfingunni; það er að taka sjálfa sig upp og segja frá því hvað þeir lærðu og hvað þeir ætluðu að gera við það. Sennilega hefur þar áhrif að það verkefni var bæði ögrandi og tæknilega flókið. Það þarf meiri tíma en gafst í þetta skiptið og ekki endilega í blálokin á kynningunni þegar flestir eru komnir með hugann við annað.

Næst þarf ég sem sagt að skoða vel hvernig innihaldið er kjarnað betur og segja þátttakendum frá því fyrirfram að reiknað sé með því að þeir noti tölvur sínar eða snjalltæki í kynningunni.

Þetta var nefnilega bara byrjunin.

 

 

 

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.