Ekki bara bé-in 4

Á haustin er hefð fyrir því að kalla foreldra til funda í skólunum og kynna fyrir þeim vetrarstarfið. Fundirnir hafa gjarnan verið á kvöldin og krydduð með fræðsluerindum sem varða uppeldi og menntun. Mæting hefur verið misjöfn á þessa fundi; foreldrar yngstu barnanna hafa oftast verið áhugasamastir og svo hefur fækkað í foreldrahópnum eftir því sem nemendur verða eldri. Flestir skólar hafa reynt að setja kynningarnar í nýja búninga sem höfða til foreldra og fundið nýjar tímasetningar sem henta uppteknum barnafjölskyldum.

Ég hef áður skrifað um það hvernig grunnskólalög og aðalnámskrá fjalla um skyldur skólans í að hafa frumkvæði til að virkja hlutdeild og og þátttöku foreldra í námi barna sinna.

Á kennarafundi í Þelamerkurskóla um daginn var námsefniskynning haustsins til umræðu. Þá benti einn kennarinn á að honum fyndist skemmtilegast að vera boðaður í skólann þegar hann gæti hitt börnin sín í skólanum og séð þau að störfum. Annar bætti við að það væri kannski tímabært að bjóða foreldrum í skólann og fá nemendur til að kynna fyrir þeim hvernig tölvur og tækni væru nýtt í námi barnanna: Þetta er löngu hætt að vera bara bé-in fjögur; barn, bók, blýantur og borð. En þannig þekkja flestir foreldrar skólastarf af eigin reynslu.

Úr varð var að bjóða til opinna kennslustunda í kringum hádegið og bjóða foreldrum í súpu og námskynningu en í skólanum er hefð fyrir námskynningum sem heita súpa og samtal. Í opnu kennslustundunum ætluðu kennarar að fá nemendur til að vera með kynningar á nýju námsumhverfi þeirra sem tekur mið af því að nýta rafræna kennsluhætti.

Í gær voru svo opnu kennslustundirnar. Dagskráin byrjaði á því að skólastjóri kynnti hugmyndir og framkvæmd skólans í notkun rafrænna kennsluhátta, síðan höfðu foreldrar tækifæri til að spjalla saman yfir súpu og brauði og svo tóku nemendur við. Um allan skóla voru litlir hópar nemenda með tæki, spil, bækur og dót sem þeir notuðu til að sýna og segja foreldrum frá starfi sínu.

Með þessu fyrirkomulagi tókst ekki bara að búa til aðstæður þar sem foreldrar sáu börnin sín við leik og störf heldur voru nemendur virkjaðir til þátttöku og gátu sýnt færni sína og þekkingu á tækjum og námsefni. Það er alltaf góð tilfinning þegar hægt er að slá margar flugur í einu höggi.

Í anda dagsins var gerð myndræn framsetning á deginum í forritinu Clips og það birt foreldrum á heimasíðu skólans, Facebooksíðu hans og sent heim til foreldra í tölvupósti með þökkum fyrir komuna.

1 thought on “Ekki bara bé-in 4

  1. Bakvísun: Sagt frá og miðlað með Clips | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.