Ömmuskóli í sumarfríinu

Ég er svo heppin að hafa aðstæður til að geta boðið barnabörnum í heimsókn í sumarleyfum þeirra. Karen Sif er nú í heimsókn og við höfum uppgötvað að okkur finnst gaman að fara saman í skólaleiki. Hún er viljug að taka þátt í tilraunum ömmu sinnar og finnst flest það sem við höfum prófað undanfarna daga vera spennandi.

FullSizeRender (2)

Í gær bjuggum við til lestrarspil sem varð til eftir að ég hafði skoðað myndir og færslur á Facebooksíðu sem heitir Fjölbreyttar kennsluaðferðir fyrir fjöruga krakka. Það er Hlín sem starfar við sérkennslu á yngsta stigi í Norðlingaskóla sem heldur úti síðunni og deilir þar með okkur hugmyndum sínum úr starfinu. Það er ekki lofað of mikið þegar kennarar opna kennslustofur sínar til að leyfa öðrum að sjá og nýta hugmyndir þeirra, svo ekki sé talað um allar hugmyndirnar sem kvikna hjá þeim sem skoða síðurnar þeirra. Þannig eflist lærdómssamfélag kennara. Það er aldrei of mikið af því.

Stafir í boxum

IMG_3085

Skyrboxin endurnýtt í lestrarspili

Spilið sem við Karen Sif bjuggum til og kviknaði einmitt út frá síðu og vinnu Hlínar er þannig að Karen Sif dregur spjald með orði á og les það upp. Fyrir framan hana eru spjöld með myndum af því sem stendur á spjaldinu. Sum orðanna eru bara á myndaspjaldi en önnur eru á spjaldi sem hafa verið fest við box (skyrbox) og í boxinu eru stafir úr Skröbblu heimilisins. Stöfunum raðar Karen Sif upp, myndar orðið og les það svo fyrir mig. Myndirnar eru ekki allar á boxum af því að í endurvinnslutunnunni áttum við ekki margar skyrdollur. Það gerði lítið til vegna þess að það setti spennu í leikinn; dró hún orð þar sem myndin var á boxi eða ekki?

100 algengustu orðin á lukkuhjóli

IMG_3088

Lestraræfing með morgunverðinum

Eins og aðrir krakkar á sama aldri og Karen Sif hefur hún gaman að því sem snjalltækin geta boðið upp á. Þess vegna prófaði ég að slá 100 algengustu orðin inn í lukkuhjól á ClassTools. Ég skipti orðalistanum upp í fimm hluta þannig að 20 orð eru á hverju hjóli en það má gera þetta eins og hverjum finnst þægilegast. Class Tools býður svo upp á að hjólunum sé t.d. deilt með QR-kóðum og auðvitað gerði ég það ásamt því að geyma hjá mér slóðirnar að hjólunum.

Leikurinn sem við Karen Sif höfum svo búið til og prófað út frá þessu er:

  1. Karen Sif velur sér QR kóða og skannar hann með Ipadinum.
  2. Hún snýr lukkuhjólinu sem birtist á skjánum og upp kemur orð sem hún les upphátt.
  3. Við ræðum hvað orðið þýðir og búum til setningu með orðinu.
  4. Karen Sif finnur orðið á spjöldum sem hefur verið raðað í kringum hana (þau 20 sem eru á hjólinu) og snýr spaldinu með orðinu sem hún fékk á hjólinu á hvolf. Hérna væri hægt að nýta möguleikann í lukkuhjólinu að henda út úr hjólinu orðinu sem kemur upp þannig að leikurinn verði búinn þegar hjólið hefur verið tæmt. En þá er gott að eiga orðalista hjólanna einhvers staðar á góðum stað í tölvunni svo hægt sé að setja orðin inn í hjólið aftur.
  5. Leikurinn er búinn þegar öll spjöldin á borðinu eru komin á hvolf.

Inni í þessari útfærslu er engin ritun en það mætti alveg hugsa sér að bæta henni við (á marga vegu) til að nýta lukkuhjólin og auka fjölbreytnina í leiknum.

Ég safnaði QR-kóðunum inn á Google Photos svo að ég týndi þeim ekki og ætti þá aðgengilega hvenær sem er. Og til þess að ég týndi ekki slóðunum inn á hjólin setti ég þær og orðin á hverju hjóli í skjal á Google Docs.

Svo er að sjá hvort einhverjar fleiri hugmyndir kvikna hjá okkur langmæðgum á næstu dögum.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.