Veisla í boði Google II

img_2330

Veislan var líka fyrir munn og maga. Alltaf var séð fyrir því að okkur skorti ekki mat.

Ed Tech Team og Advania á Íslandi stóðu fyrir námstefnu helgina 14.-15. janúar um notkun Google verkfæra í skólastarfi. Ég var svo heppin að vera einn af námstefnugestum ásamt tæplega 100 öðrum gestum þar af fjórum öðrum úr Þelamerkurskóla. Í þessari samantekt fer ég yfir það sem ég gerði og lærði á seinni degi námstefnunnar. Í annarri færslu sagði ég frá fyrri deginum.

Sunnudagurinn 15. janúar

Sunnudagurinn byrjaði jafn snemma og laugardagurinn, kl. 7:30 opnaði húsið með morgunverði. Að honum loknum var safnast saman í fyrirlestrarsalnum og þar var tilkynnt að Sylvia Duckworth hefði unnið Demo Slam-ið daginn áður. Það kom mér að vísu ekki á óvart þar sem hún trompaði hina með því að rappa við undirleik teiknimyndagæjanna í Incredibox. Síðan tók við aðalfyrirlestur dagsins og þar á eftir vinnustofur. Deginum lauk með samantekt á allri námstefnunni.

img_2017

Aðalfyrirlesari sunnudagsins var Jennie Magiera. Það er óhætt að segja að henni tókst að hrífa salinn með sér í lifandi og einlægum fyrirlestri þar sem hún fléttaði inn reynslu frá eigin skólagöngu og vinnu sem kennari og ráðgjafi. Hún hefur gefið út bókina Courageous Edventures þar sem hún greinir frá hugmyndum sínum og reynslu í innleiðingu upplýsingatækni í skólastarfi. Hún heldur líka úti blogginu Teaching like it´s 2999.

Meginefni fyrirlestrar hennar var að blása námsstefnugestum hugrekki í brjóst svo þeir þori að taka áhættu og breyta til í kennslu sinni með því að taka upplýsingatæknina í sína þjónustu.

Jennie lagði áherslu á að áhættunni geta fylgt mistök. Það sem skiptir máli í ferlinu við að prófa sig áfram er hvað við veljum að gera við reynslu okkar af mistökunum; veljum við að læra af þeim eða eða veljum við að gefast upp? 

Ráðin sem hún gaf námstefnugestum voru eftirfarandi:

 1. Slakið á og skemmtið ykkur í kennslunni. Hún tók sem dæmi stærðfræðikennara sem hafði áhuga á hárgreiðslunni „sítt að aftan“. Hann lagði fyrir nemendur sína alls kyns opin verkefni sem tengdust þessari hárgreiðslu. Í sameiningu fundu kennarinn og nemendur niðurstöður og lausnir að verkefnunum sem engin kennslubók hefði getað tekið á. Jennie sagði, að lykillinn að þessu væri að líta á hvern skóladag sem ævintýri og bjóða nemendum til ævintýris.
 2. Hættið að kenna efni og rembast við að komast yfir sem mest, beinið sjónum ykkar að nemendunum. Jennie benti réttilega á að það eru áhugi og geta nemenda sem eiga að stýra því hvað er tekið fyrir og hvernig það er gert. Þegar nemenedur eru efldir til að hafa áhrif á eigið nám er auðveldara en ella fyrir þá að taka ábyrgð á eigin framförum. Þannig læra þeir að þeir geta gert gagn með því að hafa áhrif á eigið umhverfi og annarra.
 3. Prófið eitthvað sem hræðir ykkur. Um leið og kennarar hafa ákveðið það eru þeir auðvitað að stíga útfyrir eigin vana og þægindaramma og þurfa að finna á eigin skinni hvernig er að læra af eigin mistökum.
 4. Búið til aðstæður og andrúmsloft áhættu. Með þessari ráðleggingu átti Jennie við að fullorðna fólkið í skólanum sýndu frumkvæði og væru fyrirmyndir í að taka áhættu og læra af mistökum sínum.
 5. Ekki bíða með að taka áhættuna! Taktu áhættuna núna, það kemur enginn „betri“ tími.

Eins og heiti bókarinnar (Courageous Edventure) hennar Jennie vísar til þá notar hún siglingar sem líkingu til að koma boðskap sínum á framfæri. Hún bað námstefnugesti um að taka mynd af þeim sem þeir vildu vinna með í ævintýrinu sem væri framundan við að koma á upplýsingatækni og breyttum kennsluháttum í skólanum. Þessi hópur væri svo áhöfnin á skipinu sem myndi eftir námstefnuna halda úr höfn og hjálpast að við að taka áhættu og læra af mistökunum.

Að loknu aðalerindi dagsins

Eins og daginn áður var boðið uppá tvær lotur af vinnustofum og samtals voru átta vinnustofur í boði fyrir hádegi. Ég valdi mér að fara á vinnustofu þar sem kynntir voru möguleikar á fræðslu í notkun Google verkfæra í kennslu og hvernig kennarar bera sig að við að taka próf og fá viðurkenningu á færni sinni. Einnig valdi ég að hlusta aftur á Jennie Magiera og í þetta skiptið að tala um hvernig hægt er að valdefla nemendur til þátttöku í innleiðingu nýrra kennsluhátta.

 1. Fyrir hverju brennur þú? (e. What´s your spark!)

Í þessari vinnustofu lærði ég hjá Wendy Gorton hvernig ég get æft mig betur í að nota verkfæri Google og hvar á netinu ég get tekið próf til að kanna færni mína og fá hana viðurkennda til að styðja betur við innleiðingu á verkfærum Google í skólanum mínum.

Wendy var mjög sannfærandi í að koma því á framfæri að allir sem legðu sig fram um að kynnast möguleikum Google gætu komist svo langt að þeir gætu að lokum búið til verkefni við innleiðingu verkfæra Google og fengið aðstoð við að koma því verkefni í kring. Hún hvatti þátttakendur til að huga að þess konar verkefnum þrátt fyrir að þeir væru á fyrstu stigum æfinga sinna.

2. Inneiðingarteymi nemenda (Let the Students Lead the Way: Building a Student Innovation Team)

Í þessari málstofu sýndi Jennie Magiera hvernig hún og fleiri hafa staðið að því að efla nemendur til að verða leiðtogar í innleiðingu á notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Mér fannst aðdáunarvert að heyra hve mikið kennararnir eru tilbúnir að leggja á sig við að finna tíma til að leiðbeina nemendum til að byggja upp starfsemina. Hluti þessarar vinnu fer fram utan skólatíma, í frímínútum eða í matarhléum viðkomandi barna og kennara.

Sem dæmi nefndi hún að ef kennari ætlaði að fara að nota nýtt app eða annað verkfæri, þá hittir hann innleiðingarhópinn sinn í hádegishléinu og fer yfir afmarkaða hluta appsins eða vefsvæðisins svo hver og einn geti sérhæft sig í þeim hluta. Síðan er töflu komið fyrir í stofunni og á henni kemur fram hverjir eru sérfræðingar í hverju svo aðrir nemendur geti auðveldlega fundið út hjá hverjum þeir geti leitað aðstoðar.

Nemendum í innleiðingarteymunum er ætlað að vera, talsmenn, frumkvöðlar, sendiherrar og leiðbeinendur. Innan hvers hlutverks eru svo nokkur verkefni sem skólarnir standa fyrir.

 • Talsmenn (Advocates)
  • Talsmenn skólans og markmiðið er að nemendur finni að þeirra framlag skiptir máli bæði fyrir nærumhverfi og jafnvel veröldina alla.
 • Frumkvöðlar (Authors)
  • Innan þessa hluta hafa verkefni nemenda það markmið að búa eitthvað til sem leysir vanda og hefur góð áhrif á umhverfi þeirra og annarra.
 • Sendiherrar (Ambassadors)
  • Í þessum hluta er nemendum ætlað að segja öðrum frá því sem þeir eru að gera ásamt því að taka á móti tækjum og koma þeim í gang og segja öðrum til í umgengni við tækin.
  • Nemendur halda námstefnur fyrir aðra nemendur og líka fyrir kennara (app-speed date).
 • Leiðbeinendur (Advisors)
  • Nemendur leiðbeina samnemendum í notkun einstakra smáforrita, vefsvæða eða tækja. Viðmið þeirra eru eftirfarandi:
   • Ekki snerta tækin hjá þeim sem þú leiðbeinir. Hafðu hendur fyrir aftan bak.
   • Sýndu hlýlega framkomu.
   • Farðu hægt yfir leiðbeiningarnar. Teldu upp að 3 áður en þú gefur næstu leiðbeiningar.

Ef nemendur vilja komast í innleiðingarteymin þurfa þeir að sækja sérstaklega um það og færa rök fyrir umsókn sinni og fá undirskrift foreldara og meðmæli frá kennurum og samnemendum.

Eftir hádegið 

Eftir hádegisverðinn voru níu vinnustofur í boði í tveimur lotum. Ég valdi að læra betur á Google Calendar og byrja á grunninum og að kynnast fleiri verkfærum Google.

3. Google dagatalið 101 

Í þessari vinnustofu setti Chris Bell okkur fyrir verkefni til að kynna okkur fyrir möguleikum Google dagatalsins. Svo fengu þeir sem luku við verkefnin „aukaverkefni“ sem hann kallaði Svarta beltið. Leiðbeiningar sínar gerði hann okkur aðgengilegar.

Ég sá að auðvelt verður að nýta dagatalið til að halda yfirsýn og að dagatalið hefur fleiri möguleika en ég kunni og grunaði að væru til.

4. Spennið beltin! 

fullsizerender

Í þessari málstofu kynnti Michelle Armstrong á mjög líflegan máta uppáhalds smáforritin sín og vefsvæði. Listinn hennar var í stafrófsröð og eitt verkfæri í hverjum bókstaf. Vegna þess að bæði rafmagnið og netsambandið voru ekki sem skyldi tókst henni að ekki að fara yfir allt en bauð okkur að skoða listann sinn og að bæta við glósur þeirra (samglósun = Crowd Sourced Notes) sem áður hafa verið á sams konar fyrirlestri hjá henni.

Michelle var svo fengið það hlutverk að ljúka námstefnunni með því að draga hana saman. Hún hvatti námstefnugesti til að vera hugrakkir í að prófa nýja hluti og að hvetja aðra til að gera það sama. Hún sagði að það hugrekki hefðum við eins og stúlkan á myndbandinu sem hún sýndi okkur.

Þegar ég skráði mig á námstefnuna vonaði ég að ég myndi læra meira á verkfæri Google í skólastarfi. Á námstefnunni lærði ég margt nýtt en komst jafnframt að því að möguleikarnir eru óþrjótandi og eiginlega eru okkur lítil takmörk sett, það fer allt eftir því hvert hugmyndaflugið leiðir okkur. Þessi námstefna er bara byrjunin á kynnum mínum á möguleikum Google og ég vona að mér gefist aftur tækifæri til að vera þátttakandi í jafn lærdómsríkri og hvetjandi námstefnu og þessi námstefna var.

Eftir veisluna

Á meðan ég beið eftir að fært yrði norður með fluginu á sunnudagskvöldinu setti ég sjálfri mér fyrir nokkur verkefni sem ég vildi prófa af því sem ég hafði lært á námstefnunni. Nú þegar rúm vika er liðin hef ég þegar nýtt mér ráðleggingar Jennie við að virkja nemendur og viðmið leiðbeinenda hennar. Fleira á svo eftir að líta dagsins ljós.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.