Eitt af því sem ég setti sjálfri mér fyrir að gera eftir námstefnu Ed Tech Team í Reykjavík í janúar var að ljúka við vefsíðu sem ég byrjaði á þegar ég var á námstefnunni. Á vinnustofunni um Google Sites datt mér ekkert frumlegra í hug en að nota vefumhverfi Google til að geyma glósur námstefnunnar. En þar sem umhverfið á vefsíðunni var nýtt fyrir mér þá réð ég ekki við að glósa og fikra mig áfram í nýju umhverfi svo ég safnaði saman glósum uppá gamla mátann og tísti á meðan á ráðstefnunni stóð. Nú þegar heim er komið og ég hef lokið við að gera samantektir námstefnunnar þá var hægðarleikur að ljúka við vefsíðuna; ég gat bara flutt textann á milli síðnanna og birt svo síðuna.
Ég sé að Google Sites hefur marga kosti í skólastarfi eins og annars staðar. Helsti kosturinn er hve einfalt og notendavænt umhverfið er. Ég sé fyrir mér að nemendur allt niður á yngsta stig geti nýtt sér umhverfið. Það er vegna þess að:
- það er einfalt og fljótlegt að læra á það
- það er einfalt að læra á táknin fyrir aðgerðirnar og þau eru aðgengileg og notendavæn
- það er einfalt að ná yfirsýn yfir verkfæri umhverfisins
- það er einfalt að efla samvinnu í þessu umhvefi með því að deila síðunni með öðrum innan skólans svo fleiri geti unnið að henni í einu
- það er einfalt að bæta við síðum og undirsíðum
- það er einfalt að flytja gögn frá öðrum google verkfærum yfir á síðuna
- það er einfalt að setja inn texta og hausa
- það er einfalt að skipta um myndir og textagerðir í hausum síðunnar
- það er einfalt að setja inn bæði myndir og myndbönd
- það er einfalt að gera síðuna fallega
- það er einfalt að birta síðuna, annað hvort innan skólans eða birta hana fleirum
Ég hlakka til að nýta möguleika Google Sites í leik og starfi og líka að sýna öðrum möguleikana, til dæmis á næstu menntabúðum Eymenntar.