Veisla í boði Google I

img_1966

Um síðustu helgi sótti ég ásamt fjórum öðrum úr Þelamerkurskóla námstefnu sem Google Ed Tech Team bauð til í Verslunarskóla Íslands í Reykjavík og í samstarfi við Advania á Íslandi. Eiginlega var um að ræða tveggja daga veislu þar sem boðið var upp á hagnýtar vinnustofur og fyrirlestra sem bæði voru hvetjandi og lærdómsrík. Í þessari færslu rek ég það sem mér þótti merkilegast fyrri dag námstefnunnar.

Laugardagurinn 14. janúar

Dagurinn byrjaði eldsnemma svo ekki sé meira sagt. Skránig hófst kl. 7:30 og boðið var uppá morgunverð svo þátttakendur gætu fengið sér bita og hitt kunningja og spjallað saman.

Chris Bell opnaði námstefnuna og fór yfir dagskrána. Hann benti gestum á að umgangast hana eins og hún væri hlaðborð og að þeir gættu þess ætla sér ekki að komast yfir allt sem væri í boði. Þá gæti það orðið eins og þegar maður ætlar að borða allt sem býðst á hlaðborði; manni verður ómótt af ofáti.

Á eftir Chris talaði Jaime Casap. Umfjöllunarefni hans var að vekja námstefnugesti til umhugsunar um að samfélag nútímans og ekki síst samfélag framtíðarinnar kallar á annars konar nálgun á námi og kennslu en áður var viðmiðið.

Hann minnti okkur líka á að vinnumarkaðurinn kallar ekki á sömu hæfni og iðnaðarsamfélagið gerði áður fyrr.

Það þýðir að afstaða skólafólks til verkefnanna sem nemendur vinna að í skólunum skiptir máli. Jamie Casap áréttaði að ef skólastarf á að taka tillit til bæði þarfa nemenda og samfélagsins er nauðsynlegt að virkja nemendur og áhuga þeirra og byggja undir samstarf af öllu tagi.

spyrjumbc3b6rninac3b0c3bevc3adhvac3b0a0avandac3beauviljaleysac3adstac3b00ac3beessac3b0spyrjahvac3b0a-default

Jamie Casap heldur úti bloggíðunni Education Evangelist sem er vel þess virði að grúska í til að átta sig á boðskap hans.

Að loknu aðalerindi dagsins

Þegar Jamie Casap hafði lokið máli sínu stóðu níu vinnustofur námstefnugestum til boða í tveimur lotum fram að hádegi. Ég valdi mér að læra á nýja Google Sites hjá Álfhildi Leifsdóttur og Ingva Hrannari Ómarssyni og að kynnast góðum dæmum sem sýndu notkun Google Classroom hjá Jennie Magiera.

  1. Blogg til að hvetja nemendur í ritun

Ingvi Hrannar og Álfhildur kynntu fyrir okkur glóðvolgt verkefni sem þau höfðu unnið með nemendum 8. bekkjar í Árskóla og fengum við sjálf að prófa að vinna eftir því. Það sem mér fannst áhugavert var hvernig verkefnið var lagt inn hjá nemendum, hvernig þeim var leiðbeint við undirbúninginn og hvernig kennararnir fylgdust með framvindunni á verkefninu:

  • Verkefninu var dreift á Google Classroom svæði námshópsins
  • Áður en hafist var handa fór kennararnir í Bad idea factory með nemendum. Þá safnar hópurinn saman slæmum hugmyndum að bloggsíðum á töflun áður en hafist er handa. Á þennan hátt eiga nemendur að geta séð hvaða hugmynd gæti virkað sem góð hugmynd að bloggi.
  • Áður en nemendur stofnuðu bloggið þurftu þeir að skila inn hugtakakorti að blogginu sínu. Þeir höfðu frjálst val um það hvernig hugtakakortið þeirra liti út eða hvernig þeir unnu það. Aðalatriðið var að nemendur hugsuðu sig í gegnum uppbyggingu og innihald bloggsins.
  • Kennararnir sendu nemendum könnun í Google Forms þar sem þeir spurðu nemendur um framvindu verkefnisins. Með þessu móti gágu kennararnir fylgst með og séð hvernig gekk hjá nemendum og stigið inn og aðstoðað nemendur við það sem þurfti.
    • Hvað ertu búinn að gera?
    • Um hvað er bloggið þitt?
    • Hver er slóðin á bloggið?
    • Hvað þarftu hjálp við?

Mér fannst auðvelt að setja mig í spor nemenda og fann hve hvetjandi það er að byrja á því að byggja upp bloggsvæði og til þess að koma ritun minni þar fyrir. Þó vinnustofunni væri lokið langaði mig til að halda áfram og ljúka við verkefnið.

Til að vera okkur fyrirmynd hafði Ingvi Hrannar sett verkefni sín, kynningar og glærur þessarar námstefnu upp í Google Sites. Efnið sem hann fór yfir í þessari vinnustofu er hægt að skoða hérna.

2. Kynning og brot af því besta á Google Classroom 

Í þessari málstofu sýndi Jennie Magiera helstu kosti Google Classroom. Hún fór skref fyrir skref yfir möguleikana og það var auðvelt að fylgja henni vegna þess að hún þekkir vel hvað kennarar geta rekist á og hvað gæti auðveldað þeim lífið. Glærunum sínum deildi hún gjarnan með okkur.

Það var einstaklega gaman að heyra hana lýsa því hvernig hún í fyrstu yfirfærði sín gömlu vinnubrögð við yfirferð vinnubóka yfir á Ipadana. Svo var líka gaman að heyra hana segja frá því hvernig henni tókst að láta tæknina vinna með sér og fyrir nemendur.

Eftir hádegið

Hádegismaturinn var vel úti látinn og góður tími var gefinn til þess að borða og blanda geði við aðra námstefnugesti. Eftir hádegið gátu námstefnugestir valið á milli tíu vinnustofa. Ég valdi mér að prófa að myndaglósa og að læra meira um viðbætur og smáforrit.

3. Sketchnoting 101

img_1979

Sylvia áritar eintakið mitt

Í þessari vinnustofu sýndi Sylvia Duckworth okkur hvernig hægt er að myndaglósa á Ipadana. Hún hefur nýlega gefið út bók um þessa iðju og hafði ég verið í sambandi við hana á heimasíðu hennar og spurt hvort hún myndi ekki hafa bókina með sér á námstefnuna því ég vildi gjarnan eignast einstak. Myndir Sylviu eru skýrar og innihaldsríkar og vekja alltaf athygli mína ef ég rekst einhvers staðar á þær. Ég keypti mér auðvitað eintak og fékk það áritað.

Ég hlóð niður smáforriti sem heitir Procreate og byrjaði að æfa mig. Sylvia sagði okkur að þetta væri það forrit sem að hennar mati kæmi að bestum notum. Það er auðvelt að vinna í því og leiðbeiningar Sylviu voru gagnlegar. En á glærunum hennar voru tillögur að öðrum leiðum til að myndaglósa. Á vinnustofunni var auðvelt að sjá að myndaglósun er ein leið fyrir nemendur til að skrá og miðla þekkingu sinni.

Þessi vinnustofa sannfærði mig um að ég þarf æfingu í myndaglósun og nú þegar er ég komin með hugmynd að minni fyrstu myndaglósu og hlakka til þeirrar stundar þegar ég gef mér tíma til þess.

4. Apps, Extensions and Add-Ones, Oh, My!

Það var ótrúleg upplifun að fylgjast með Michelle Armstrong fara yfir Crome Web Store og segja frá því sem hún þekkir þar og vildi deila með okkur og í glærunum sínum minnti hún okkur líka á að við gætum bætt við listann og deilt því sem við viljum að aðrir kynnist betur og geti notað í vinnu sinni.

Ég er henni sammála um að Lucidpress er frábært app/viðbót fyrir alla þá sem þurfa að búa til blöðunga til að kynna efni sitt. Eitt af því besta við það er að ef þú hefur G-Suite aðgang fyrir skólann fæst svokallaður premium aðgangur. Þó aðeins hægt að deila innan skólans (lénsins). Það virkar þá vel í verkefnaskilum nemenda og öðrum kynningum innan skólans.

Demo Slam 

Í þessum hluta kepptu nokkrir af þeim sem höfðu verið með vinnustofur yfir daginn um hylli námstefnugesta með því að kynna þeim (selja) fídusa, smáforrit eða viðbætur á þremur mínútum. Námstefnugestir notuðu svo app námstefnunnar til að velja þann sem þeim fannst bestur í að koma á framfæri boðskap sínum. Þar var einnig yfirlit yfir það sem kynnt var. Það er ótrúlegt hvað svona stutt stund getur kveikt margar hugmyndir.

Morguninn eftir var svo tilkynnt hver hefði orðið hlutskarpastur í valinu og fær hann að skreyta sig með þeim titli í framhaldinu.

Þessi dagur einkenndist af eldmóði og vinnugleði EdTechTeam og tókst þeim að smita honum til mín og fleiri sem ég hitti. Eftir fyrstu vinnustofuna fannst mér t.d. að ég þyrfti (og gæti) ekki lært meira þann daginn. Það varð svo öðru nær. Hellingur bættist við og þannig varð það líka daginn eftir.

Við frá Þelamerkurskóla söfunum myndum ferðar okkar saman á Google Photos. Þar má sjá fleiri sjónarhorn en mín.

1 thought on “Veisla í boði Google I

  1. Bakvísun: Veisla í boði Google II | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.