Starfsmannafundir

Eins og aðrir fundir þá geta starfsmannafundir verið misjafnir og margs konar; tilkynningafundir, vinnufundir, matsfundir, lærdómsfundir, skemmtilegir, orkumiklir eða leiðinlegir, allt eftir eðli aðstæðna og markmiðs þeirra.

Nú þegar skólaárinu lýkur eru sjálfsagt margir að líta yfir farinn veg og setja sér markmið og áherslur næsta vetrar. Það er alla vega meiningin í Þelamerkurskóla.

sUm helgina datt mér í hug hvort orðaský gæti ekki verið niðurstöðublað úr hópumræðum starfsmannahópsins. Það er tölvuert langt síðan ég skoðaði síðast leiðir til að búa til orðaský. Ég hef í gegnum tíðina mest notað Word It Out af því mér finnst það aðgengilegt, smart og auðvelt. Eftir því sem ég kemst næst þá breytir það ekki stærð orðanna eftir því hve oft þau koma fyrir í textanum sem búa til skýið og í þessu samhengi fannst mér það skipta máli.

Til að skoða fleiri möguleika fann ég þessa grein sem segir frá átta möguleikum sem kennarar geta notað til að búa til orðaský.

  • TagCrowd býr til orðasúpu og sýnir bæði með tölum og stærð orðanna hve oft þau koma fyrir.
  • Wordclouds virðist taka tillit til þess hve oft orðin koma fyrir en mér sýnist að ef þau koma of oft fyrir þá sleppi forritið því að birta þau.
  • Tagul virðist vera einfalt í notkun og einnig er hægt að stilla sjálfur stærð orðanna í skýinu og það virðist stækka orðin eftir því hve oft þau koma fram í orðalistanum.

Cloud 2Fleiri prófaði ég ekki af listanum því ég var komin með það sem ég þurfti. En hugmyndin er að á síðasta starfsmannafundi vetrarins muni hóparnir að koma sér saman um fimm orð sem lýsa vetrinum. Í lok fundar segja hóparnir frá niðurstöðum sínum og á meðan skráum við aðstoðarskólastjórinn orðin jafnóðum niður í orðaský. Mér sýnist að mesta skemmtanagildið á fundinum verði með því að nota Tagul. Það gefur einnig möguleika á að sýna með litum, stærð orðanna og lögun þeirra hvað hópurinn var að hugsa í lok skólaársins. Myndin af því mun síðan verða leiðarljós starfsmanna Þelamerkurskóla næsta vetur.

Það má eflaust útfæra þetta á fleiri vegu, sérstaklega eftir að hópurinn hefur vanið sig á að nýta sér orðaský til að segja hvað fór fram í umræðum. Það má hugsa sér að hver hópur búi til eigið orðaský og geri svo grein fyrir því. En núna í fyrstu umferð held ég mig við að við búum til eitt ský úr öllum umræðunum.

 

 

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.