Stikur á leiðinni

stika

Í vikunni fylgdi ég fjórum nemendum á miðstigi 10 km í Norræna skólahlaupinu. Allir höfðu þeir valið sjálfir að fara lengstu vegalendina í hlaupinu. Þegar hlaupið var tæplega hálfnað voru nokkrir orðnir vonlitlir um að þeir gætu lokið hlaupinu; einum var orðið illt í fótunum, einn hélt að honum væri orðið flökurt, einn var með stein í skónum og einum var alltof heitt. Þegar svo var komið benti ég á að fljótlega myndum við koma á drykkjarstöðina þar sem við værum hálfnuð. Það væri hægt að meta þar hvort þeir ætluðu að ljúka við hlaupið eða hætta.

Þegar við komum að drykkjarstöðinni við 5 kílómetrana og allir höfðu fengið sér bita af banana og vatnssopa voru nemendur sammála um að þeir myndu geta lokið við 10 kílómetra. Það varð samt þannig að þreytan fór aftur að gera vart við sig eftir 200-300 metra og sömu kvartanir og áður létu á sér kræla. Ég stakk þá upp á því að hópurinn hlypi að ákveðnum stað á leiðinni og þegar þangað væri komið myndum við ganga smáspöl. Aftur gerðist það eftir nokkur hundruð metra að þreytan í hópnum sagði til sín. Ég nefndi þá annan stað á leiðinni sem var nær okkur en sá fyrri og aftur samþykkti hópurinn að halda áfram. En ekki leið á löngu þar til þreytan var um það bil að buga hópinn.

Nú voru góð ráð dýr og ég íhugaði hvort ég myndi nokkuð koma hópnum á leiðarenda. Þá datt mér í hug að miða áfangana okkar við stikurnar sem voru rétt fyrir framan nefið á okkur, því ljóst var að staðirnir sem við sáum ekki og ég hafði stungið upp á áður hvöttu nemendur ekki til að halda áfram. Ég stakk upp á því að við hlypum 10 stikur og myndum svo ganga 5 stikur. Á leiðinni þróaðist sá leikur að við skiptumst á að telja stikurnar. Sá sem var lengst til hægri á veginum byrjaði að telja og síðan töldum við koll af kolli þar til allir höfðu sagt töluna upphátt og tíu stikum var náð. Svo fór að allir voru með athyglina á talningu stikanna. Þegar við gengum stikurnar fimm töldum við þær í kór. Eftir hverja 15 stiku lotu las ég upp upplýsingar af hlaupaúrinu mínu um heildarvegalengd, hve mikið væri eftir og hve hratt við hefðum farið. Svona héldum við áfram þar til ég tilkynnti að 900 metrar væru eftir; minna en einn kílómetri og að baki væru meira en níu kílómetrar. Þá var eins og við manninn mælt, hópurinn tók á rás þrátt fyrir að lokaspretturinn væri nokkuð löng brekka. Hópurinn fagnaði mikið og af öllu hjarta þegar í mark var komið. Það mátti greina sigurglampa í augum þessara fjögurra nemenda og hróðug sögðu þeir kennaranum á endastöðinni frá því hvernig þeir hefðu lagt þessa tíu kílómetra að velli: Bara með því að telja stikur!

Eftir hlaupið hef ég velt því fyrir mér hvort hægt væri að yfirfæra gleðina við að sigrast á verkefninu og ná markmiðinu yfir á skólastarf. Í skólanum sjáum við það oftar en ekki að nemendur sjá ekki tilganginn með því sem þeir eru að gera í kennslustofunni og tengsl þess við markmið skólagöngunnar og námsins í heild. Það ætti að vera markmið okkar í skólanum að gera nemendum sýnilegt að hver kennslustund er skemmtileg lota af stikum. Kennslustundirnar eiga að vera lærdómslota þar sem nemendur og kennarar þokast í sameiningu leiðina að heildarmarkmiði skólastarfsins.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.