Gagn og gaman á UTís2015

Á síðasta föstudag og laugardag (6. og 7. nóv. 2015) var ég svo heppin að fá að taka þátt í UTís2015 á Sauðárkróki. UTís2015 voru vinnu- og menntabúðir um notkun upplýsingatækni í skólastarfi. Þar komu saman kennarar og aðrir sem hafa áhuga á upplýsingatækni í skólastarfi. Snemma í haust barst boð um þátttöku og mér skilst að tvisvar sinnum hafi verið hægt að fylla þau pláss sem voru í boði. Eðlilega stýra laus gistirými og önnur aðsta á staðnum þeim fjölda sem getur sótt vinnu- og menntabúðirnar en 63 sóttu hana.

ingileif og LinaSvo heppilega vildi til að við Lína vinkona sóttum báðar um að koma á UTís og fengum báðar pláss og auðvitað byrjaði föstudagurinn á því að taka af okkur sjálfu og segja öllum frá því á samfélagsmiðlum að við værum núna loksins aftur saman á skólabekk. En það gerðist síðast þegar við vorum í Gagnfræðaskólanum á Ísafirði. Við mættum auðvitað á fimmtudagskvöldinu og náðum gæðastund á hótelherberginu með rauðvíni, vinkonuspjalli og hekldótinu.

Í þessari færslu skrái ég það gagn og það gaman sem ég hafði af vinnu- og menntabúðunum UTís2015:

Föstudagurinn 6. nóvember

10.10-10.30 Móttaka í Árskóla á Sauðárkróki
10.30-12.00 Heimsókn í Árskóla

Í fyrri hluta þessa dags lærði ég, gerði og datt mér í hug:

  • Sá hvernig hægt er að ganga snyrtilega frá spjaldtölvum.
  • Ræddi við kennara á yngsta stigi um notkun spjaldtölva og smáforrita í íslensku og ensku.
  • Fékk hugmynd að heimsókn kennara úr Þelamerkurskóla til þessa kennara til að fylgjast með og ræða við um spjaldtölvur og smáforrit á yngsta stigi.

12.00-12.45 Hádegismatur í Húsi frítímans (Sushi/Mexíkósk vefja)
12.45-13.45 Vinnustofa um markmið og tækni (Ingvi Hrannar) – Hús frítímans

Í þessum hluta dagsins:

  • Lærði ég fjögurra skrefa aðferð í hópastarfi sem hægt er að nýta til þess að skipuleggja t.d. þemadaga.
  • Vann ég með mörgum sem ég hafði ekki unnið með áður því okkur var róterað á milli borða í hverju skrefi vinnuaðferðarinnar.
  • Kynntist ég fólki sem ég hafði bara séð á t.d. Twitter áður.
  • Fékk ég hugmynd sem ég gæti útfært næst þegar kennarhópurinn í Þelamerkurskóla þarf að skipuleggja sameiginlega þemadaga.

14.00-16.30 Vinnustofur – fyrri hluti

-iBooks Author (Guðný Sigríður og Bergmann)
-Nearpod (Ingvi Hrannar)
-GAFE – Google Apps For Education (Hans Rúnar og Álfhildur)
FabLab (Valur Valsson, verkefnastjóri hjá NMÍ)

Í þessum hluta valdi ég að kynnast GAFE, Google Apps For Education:

  • Ég nota Google Drive og því sem fylgir nokkuð mikið en er aldrei viss um að ég viti hvað það hafi upp á að bjóða sem gæti nýst mér betur í skólastarfi og þess vegna valdi ég mér þessa vinnustofu. Ég sá fram á að þarna hefði ég tækifæri til að sökkva mér í viðfangsefnið með leiðsögn þeirra sem vita meira um það.
  • Ég hafði áður skráð Þelamerkurskóla inn á Google Classroom og kennarar höfðu skráð þangað inn niðurstöður leshópa en meira hafði ég ekki gert við þann aðgang.
  • Vinnustofan fór hægt af stað og þröng var á þingi því margir höfðu greinilega áhuga á þessu vef- og gagnaumhverfi.
  • Ég komst inn á nemendaaðgang og skoðaði umhverfið aðeins.
  • Nokkrar spurningar um áframhaldið hjá Þelamerkurskóla í Google Classroom vöknuðu sem ég vonaði að ég fengi svör við daginn eftir.

16.30-19.30 Frjáls tími (Sund á Hofsósi fyrir þá sem vilja)

  • Við Lína nenntum ekki að aka á Hofsós til að fara í sund heldur fórum í Skagfó og keyptum okkur jólakjólana. Nú mega jólapeysurnar fara að vara sig!

jolakjolar

19.30-20.00 Fordrykkur í Árskóla
20.00-21.30 Hátíðarkvöldverður á Drangey restaurant
21.30-23.30 Hittingur þátttakenda á MicroBar

  • Ég sat hjá fólki sem ég hafði ekki kynnst áður og ræddi ýmislegt bæði gagnlegt og skemmtilegt. Það var samt ekki allt um tölvur og tækni í skólastarfi!
  • Ég gekk frá því að tveir kennarar kæmu með kynningu á þriðju menntabúðir Eymennt í Þelamerkurskóla eftir tíu daga.
  • Á MicroBar voru miðar á víð og dreif með QR kóðum. Bak við kóðana voru textar um fólkið sem stóð að UTís2015. Þá var sáð fræi sem ég gat nýtt mér á sunnudeginum.

Laugardagurinn 7.nóvember

10.00-12.00 Menntabúðir frá þátttakendum (2×50 mín.)

20151107_100235

Eins og sjá má var erfitt að velja sér menntabúð því margt áhugavert var í boði.

20151107_100130

Myndir fengnar að láni frá Svövu Pétursdóttur

  • Ég valdi að hlusta á Guðjón Hauk segja frá því hvernig Menntaskólinn á Akureyri hefur innleitt og nýtt sér Offiice365. Þar eru greinilega margir fídusar sem minna nokkuð mikið á Google Classromm og því sem fylgir Google Drive.
  • Mér datt í hug hvort væri möguleiki að halda sams konar kynningu á menntabúðum Eymennt í Þelamerkurskóla eftir tíu daga.
  • Í seinni hlutanum hlustaði ég á Maríu Valberg skólastjóra Grunnskóla Önundarfjarðar á Flateyri segja frá Mystery Skype. En það er námsleikur sem nemendahópar leika í gegnum Skype við aðra nemendahópa einhvers staðar annars staðar í heiminum.
  • Handsalaði ég Mystery Skype bekki við tvo kennara og ætlum við að prófa þetta eftir áramót.
  • Gekk ég í hóp á Facebook þar sem er fólk sem var á UTís2015 og hefur áhuga á Mystery Skype.
  • Kom pakka til mömmu á Ísfirðing sem var á UTís2015.
  • Ég missti af „dótadegi“ hjá tækninördum vinnu- og menntabúðanna. Þar sýndu menn alls kyns dót sem gerir kennsluna líflega og opnar fyrir fleiri víddir en bók og skjár. Vona að mér gefist aftur tækifæri í framtíðinni til að kíkja á menntabúð af þessu tagi.

12.00-13.00 Hádegisverður á Drangey restaurant (Súpa og brauð)

  • Borðaði með Árna Heiðari ömmustrák í Bakaríinu á Sauðárkróki því hann var á Sauðárkróki með mömmu sinni og pabba.
  • Frétti hjá ömmu og afa Árna Heiðars sem búa á Sauðárkróki og eru líka hlauparar að hringurinn sem ég hafði hlaupið um morguninn gengur undir nafninu Vegagerðarhringurinn.
  • Gekk frá því við þriðja kennarann að hann yrði með kynningu á menntabúð Eymennt eftir tíu daga.

13.00-15.00 Vinnustofur- seinni hluti (áframhald frá föstudeginum)

  • Þá var það GAFE aftur og í þessari lotu gafst tækifæri til að prófa sig áfram með verkfærin.
  • Ég æfðist betur í að setja inn verkefni, setja viðbætur á Sheets og Google Chrome (Doctopus og Gobrics) svo hægt sé að fara yfir verkefni á vefnum. Það er snilld að sjá hvernig hægt er að koma bæði leiðsögn og mati fyrir á einu og sama skjalinu og deila því samstundis með nemendum sínum.
  • Ég lærði hvernig ég get skoðað breytinga-skýrslu skjals og séð hvernig og hvenær nemendur hafa verið að vinna í skjalinu.
  • Ég sá hvernig viðmót Google Classroom er hjá nemendum þegar þeir fá verkefnin, vinna í þeim, skila þeim og hafa fengið umsögn kennara.
  • Ég fann á eigin skinni hvernig það hjálpar við lærdóminn að leiðbeina öðrum strax eftir að ég hafði sjálf fengið nákvæma leiðsögn.
  • Var staðráðin í að fá kynningu á Google Classromm fyrir kennarana í Þelamerkurskóla og að hvetja einhvern þeirra til að prófa Google Classroom.

15.00-16.00 Kynning á afurðum, samantekt og slit

  • Tók í fyrsta skiptið þátt í tíst-session þar sem allir þátttakendur tístu í nokkrar mínútur um UTís2015.
  • Gerði helgarinnkaupin í Skagfó eftir sms frá Halldóri.

Sunnudagurinn 8.nóvember

qr kodar

  • Byrjaði daginn á að búa til QR-kóða með skilaboðum vegna baráttudags gegn einelti. Skilaboðin eru um vináttu, Vinaliðaverkefnið og eineltishring Olweusar. Ætla að hengja það upp í skólanum á morgun. Ég notaði þetta svæði til að búa til kóðana, einfalt og þægilegt en bara hægt að gera fimm sinnum kóða án þess að borga. Ég gaf mér ekki tíma til að leita að einhverju öðru þar sem ég gæti gert fleiri án þess að borga. Nú hef ég borgað 5 sterlingspund fyrir 100 kóða. Það kemur örugglega einhvern tímann að góðum notum.
  • Eftir birtingu þessa pistils lærði ég af konu á Twitter að það er einfalt og ókeypis að nota þetta til að búa til QR kóða.
  • Í hlaupatúr dagsins fékk ég hugmynd að  menntabúð um notkun QR kóða í námi og kennslu sem væri hægt að halda í menntabúðum Eymennt eftir tíu daga. Ef enginn gefur sig fram til að stýra slíkri menntabúð væri hægt að láta fólk sem mætir á þá menntabúð skipta með sér að plægja sig í gegnum pistil Salvarar Gissurardóttur um notkun QR kóða í námi og kennslu og síðan að miðla sín á milli að hverju þeir komust.
  • Skráði þennan pistil og gat ekki komist að því hvort hefði verið meira af gamni eða gagni á UTís2015. Alla vega er ljóst að ég mun reyna að láta UTís2016 ekki fram hjá mér fara, verði það að veruleika.

7 thoughts on “Gagn og gaman á UTís2015

  1. Flott samantekt hjá þér – til fyrirmyndar. Takk fyrir samveruna á Utís2015

    • Takk sömuleiðis fyrir samveruna. Það er nú ekki annað hægt en að skirfa fyrirmyndarpistil um daga eins og þessa.

  2. Mikið er áhugavert og skemmtilegt að lesa þennan pistil Ingileif. Þetta hefur verið mögnuð helgi! Frábært framtak.

  3. Bakvísun: Enn er gagn og gaman á UTís2016 | Bara byrja

Leave a Reply to ingileifCancel reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.