Samskiptamiðlar gefa marga möguleika fyrir skóla til að senda frá sér rauntímafréttir. Í Þelamerkurskóla höfum við notað bæði Facebook síðu skólans og einnig Twitter-svæði hans. Í þessari viku (26.-30. okt.) eru nemendur 6. og 7. bekkjar í skólabúðunum á Reykjum og við höfum nýtt okkur Twitter til að koma rauntímafréttum frá dvölinni til foreldra og annarra til að fylgjast með. Við höfum líka sett nokkrar færslur inn á Facebook síðu skólans. Það sem mér finnst Twitter samt hafa framyfir Facebook er að mér finnst fljótlegra að ná sambandi og Twitter er einfaldari í notkun en Facebook og þar sem netsamband er ekki mjög öflugt hérna í Hrútafirðinum er þessi leið sjálfvalin.
Til að gera tístin aðgengileg öllum sem vilja fylgjast með höfum við sett glugga á forsíðu heimasíðunnar sem sýnir það sem gerist á Twitter-svæði skólans og gefið foreldrum slóðina og umræðuþráðinn í tölvupósti áður en lagt var af stað. Samt þarf fólk ekki að vera Twitter notendur til að geta fylgst með einhverjum þar eða umræðuþræði.
Skammtaranir í dag #Reykir2015 pic.twitter.com/YcYmUHWPPx
— Þelamerkurskóli (@thelamork) October 28, 2015
Við bjuggum til umræðuþráðinn #Reykir2015 og reynum að tísta myndum og skilaboðum reglulega yfir daginn. Einnig höfum við byrjað að safna tístunum saman í sögu á Storify. Þannig verður til heilleg skráning á því sem sagt var frá á meðan á dvölinni stóð. Þeirri sögu er svo hægt að dreifa víða, í tölvupósti, á heimasíðu og Facebook. Það gefur fleirum færi á að kynnast dvölinni og starfinu bæði í Þelamerkurskóla og skólabúðunum á Reykjum.
Við höfum bara fengið jákvæð viðbrögð frá foreldrum við þessum fréttaflutningi og finnst foreldrum næstum eins og þeir séu þátttakendur í ferðinni. Þetta gefur þeim einnig möguleika á því að ræða við börnin sín um ferðina þegar heim er komið. Það er bæði þeim og börnunum dýrmætt þegar til lengri tíma er litið.