Í dag heimsótti ég lítið þorp í Króatíu sem heitir Hum. Það hefur verið markaðssett sem minnsti bær (takið eftir, ekki þorp) í heimi. Sagt er að þar eigi að öllu jöfnu 23 lögheimili. Þegar við höfðum fikrað okkur upp hæðina sem þorpið stendur á komum við að skilti með bæjarnafninu og litlu snyrtilegu skýli. Út úr skýlinu stökk ung stúlka sem rukkaði okkur um 10 kn (50 kr) í bílastæðisgjald. Hún afhenti okkur kort sem bæði var bílastæðismiði og póstkort. Á því stóð að hver eyrir sem kæmi inn vegna þessa gjalds yrði notaður til að byggja upp og viðhalda því sem þykir eftirsóknarvert í Hum. Á bílastæðinu voru tvö klósett frá króatísku Gámaþjónustunni og vorum við bæði þakklát fyrir þau. Síðan tók við að skoða þorpið; kirkju, klukkuturn, þröngar götur og vinalega íbúa. Svo heimsóttum við auðvitað kaffihúsið og galleríið þar sem hægt var að smakka Grappa. Við fréttum að eftir rúma viku myndu aðdáendur Gröppunnar safnast þarna saman til að gleðjast yfir tilurð hennar. Þeir ku geta orðið um 4000.
Markaðssetning Hum (og svo sem fleiri þorpa á Istriaskaganum) og ramminn um hana eru gott dæmi um hvernig „heimamenn“ geta selt það sem þeir hafa og fást við frá degi til dags og gefið öðrum ánægju af að kynnast því. Mér fannst sjálfsagt að borga mig inní þorpið og var þakklát fyrir salernisaðstöðuna þó að hún væri frumstæð og svo fannst mér ég sannarlega hafa lagt í púkkið á viðhaldi staðarins þegar ég sá bæjarkallana snyrta umhverfið. Ætli erlendum túristum á Íslandi myndi finnast það sama ef þeir þyrftu að borga sig inní Hrísey, Dalvík eða Grímsey. Eða bara Dettifoss, Gullfoss og Geysi?