Mat á starfsþróun

Einn af kennurum mínum í háskóla minnti mig einu sinni á siðferðilega skyldu sem ég þá hafði ekki leitt hugann að í nokkurn tíma. Hún benti á að þegar háskólamenntað fólk fengi menntun sína fylgdi sú siðferðilega skylda með í kaupbæti að viðhalda og bæta við þekkingu sína og færni.

Þekkingin sem við í upphafi tileinkum okkur í háskólanum er þekking sem oftast hefur orðið til á löngum tíma, með vinnu og rannsóknum þeirra sem þar starfa. Við, sem getum nýtt okkur þetta eigum að deila þekkingunni með samstarfsfólki okkar, skjólstæðingum og öðru samferðafólki. Og til þess að þekkingin sé í takti við þann veruleika sem við störfum við hverju sinni ber okkur að auka við hana og viðhalda. Undan þessu verður ekki vikist. Enda hljóðar 9. grein siðareglna KÍ svo: Kennari viðheldur starfshæfni sinni og eykur hana.

Þegar þessi skylda er sett í samhengi við störf kennara má velta því fyrir sér hvort hún eigi ekki að skipa stærri sess en hún gerir í umræðum okkar um eigið starf, kaup og kjör. Daglega, erum við að fást við miðlun þekkingar sem miðar að því að undirbúa nemendur okkar fyrir framtíð sem hvorki við né þeir vita almennilega hvernig lítur út. Ekki minnkar vægi þessarar skyldu þegar við skoðum hana í því ljósi að velferð nemenda okkar í framtíðinni byggir að stórum hluta á því hvernig skólagöngu þeirra er háttað. Bara það eitt ætti að nægja til að hvetja okkur til að vera sífellt með hugann við það sem raunverulega ber mestan árangur í námi og kennslu barna og ungmenna.

Vinnutímaskilgreiningu grunnskólakennara er ekki alltaf hrósað. En það má hrósa henni fyrir að taka frá tíma utan starfstíma skóla til að sinna þessari siðferðilegu skyldu (í daglegu tali skólafólks kallað 150 tímarnir). Til viðbótar er í kjarasamningnum ákvæði um að vinnuveitendur okkar leggja hlutfall af launum okkar í sameiginlegan endurmenntunarsjóð okkar, Vonarsjóð. Þar fyrir utan finnast fleiri leiðir sem hægt er að nýta til að sinna þessari skyldu. Má þar nefna lestur greina, skoðunarferðir, kynningar, miðlun eigin reynslu og samtöl við kollega. Hverjum og einum er treyst fyrir því að nýta þær bjargir sem gefast til að rækja þessa skyldu.

En er nóg að treysta því að kennurum og skólastjórnendum fari fram í starfi sínu með því einu að rækja skyldu sína? Við vitum að án uppbyggilegrar endurgjafar og umræðu getur nám virst án samhengis og tilgangs. Í síðustu niðurstöðum TALIS kom fram að endurgjöf til kennara er verulega miklu minni hér á landi en í TALIS-löndunum að meðaltali og að skólastjórar á Íslandi veita miklu minni endurgjöf til kennara en kollegar þeirra í TALIS-löndunum gera að meðaltali. Það leiðir hugann að því hvort og hvernig skólastjórnendur geta og kunna að koma mati á starfsþróun fyrir í daglegu starfi.

John Hattie og Helen Timperley hafa skrifað grein þar sem þau birta niðurstöður á rannsóknum á endurgjöf kennara á nám nemenda (Review of educational reasearch 2007, 77:81). Í greininni birta þau meðal annars töflu sem sýnir hvernig virk endurgjöf getur litið út. Samkvæmt henni þurfa markmið og tilgangur námsins að vera nemendum og kennurum ljós og endurgjöfin þarf að fela í sér skoðun á fjórum þáttum með því að spyrja þriggja spurninga:

Spurningarnar þrjár

Spurningarnar þrjár

Spurningarnar eru notaðar til að skoða verkefnin sem valin voru til að ná markmiðinu, framvinduna við vinnslu verkefnisins, hvernig nemandinn heldur sig við efnið og tekst á við verkefnið og vinnslu þess og hvernig hann metur sjálfan sig sem námsmann og hvort hann þekkir eigin námsstíl.

Þættirnir sem metnir eru

Þættirnir sem metnir eru

Kennarar sem tóku þátt í TALIS könnuninni sögðu að mestu jákvæðu áhrif endurgjafar væru á sjálfstraust við kennslu, starfsánægju og áhugahvöt. Þegar sú niðurstaða er höfð í huga má velta því fyrir sér hvort hægt sé með einhverju móti að yfirfæra töflu Hattie og Timperley í heild sinni á mat á starfsþróun í skólum?

Mætti yfirfæra tölfuna á endurmat til kennara?

Tafla Hattie og Timperley í heild sinni


Samstarfsráð um starfsþróun kennara og skólastjórnenda hélt fræðslufund um starfsþróun kennara og skólastjórnenda 20. nóvember 2014. Þar var ofangreint líkan rætt og með því að smella hérna er hægt að horfa á upptöku af fundinum og skilum úr hópasatarfinu.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.