Í gær tókst að ljúka tilraun sem fólst í að vinna með beina útsendingu og Flipgrid. Það var tilraun númer tvö. Færri komust að en vildu; ekki vegna plássleysis heldur vegna þess að viðburðurinn þurfti að flytja sig á milli svæða og verkfæra. Og ekki allir náðu að rata á réttan stað.
Í fyrradag hafði fyrsta tilraunin heldur betur misteksti eins og rekið var í þessari færslu. Þess vegna æfði ég mig vel í fyrrakvöld fyrir viðburð gærdagsins og heimilsfólk, nær og fjær, fékk þá að taka þátt. Ég prófaði beina útsendingu á You Tube bæði með streymishugbúnaði og án hans. Allt gekk vel þetta kvöld. Svo þegar ég mætti á rúllukragapeysunni fyrir framan skjáinn í gær virtist ekkert virka. En ég komst aftur inn en það vildi ekki betur til en svo að mér var aftur hent út! Núna fyrir hljóð sem ekki væri leyfi til að streyma á You Tube. Ég, sem var ekkert farin að syngja eða herma eftir fólki. Bara rétt að byrja upplesturinn.
Við sem eftir vorum í þessari tilraun fluttum okkur yfir á Facebook-hópinn Spurt og svarað um Flipgrid og lukum beinu útsendingunni þar. Á eftir náðum við að hittast á Zoom, eins og til stóð. Þá ræddum við markmið og notagildi beinnar útsendingar og Flipgrid. Þær sem höfðu tíma og þolinmæði alla leið voru þær Guðný Ólafsdóttir kennari í Dalvíkurskóla og Fjóla Þorvaldsdóttir leikskólakennari og verkefnisstjóri sérkennslu hjá Skóla- og frístundasviði Reykjavíkur. Eftir fundinn hringdi Sólveig Zophaníusdóttir aðjúnkt við HA svo í mig og við ræddum tilraunina og mögulegar útfærslur á hugmyndinni.

Í þessari ímynduðu kennslustund hlustuðu „nemendur“ á sögubrot og spáðu fyrir um framhald sögunnar. Kennslustundin var hugsuð sem hluti af æfingu í gagnvirkum lestri og reiknað var með því að nemendur þekktu hlutverkin fimm í gagnvirkum lestri; kúrekann, listamanninn, spæjarann, fréttamanninn og spákonuna. Í þessari kennslustund voru nemendur í hlutverki spákonunnar og skiluðu hugmyndum sínum á myndböndum á Flipgrid.
Á fundinum ræddum við hvað væri eiginlega verið að þjálfa eða æfa í beinni útsendingu? Hvað fengist með því að kennarinn setti kennslustundina í beina útsendingu án þess að vera í gagnvirkum samskiptum við nemendur sína á meðan á kennslustundinni stóð. Í umræðum kom eftirfarandi fram:
- Umfram upplestur eða leiðbeiningar á myndbandi er bein útsending hlustunar- og athyglis-æfing þar sem nemendur sitja og hlusta og geta ekki farið fram og til baka eins og þeir geta gert þegar þeir eru með upplestur eða leiðbeiningar á myndbandi eða hljóðskrá. Bein útsending er hér og nú!
- Fyrir þau börn sem þurfa að æfa hlustun og athygli sérstaklega ráðlagði Fjóla að þau börn eða foreldrar þeirra fengju annað hvort upplestur í hljóðskrá eða á pappír til að undirbúa sig fyrir beinu útsendinguna.
- Fundarkonur voru sammála um að þær mæltu með því að kennslustund af þessu tagi yrði fylgt eftir í kennslustofu; annað hvort í skólanum eða á netinu. Og svo auðvitað með endurgjöf kennara á Flipgrid.
- Einnig var rætt að nemendur gætu hlustað á tillögur hvers annars og rætt tillögurnar á Flipgrid; annað hvort í hópum eða pörum sem þau eru vön að vinna í eða að kennari skipi þeim í hópa. Það verður auðvitað að meta út frá aldri og aðstæðum í nemendahópum.
- Í símtalinu við Sólveigu ræddum við að í beinni útsendinu þyrfti kennarinn að gera upplesturinn lifandi, eiginlega „að lesa með öllum líkamanum“ og með tilþrifum í röddinni. Það er svo auðvelt að missa athygli við eintóna upplestur sem er t.d. án myndefnis.
- Við Sólveig ræddum líka aðra útfærslu á þessu verkefni. Hún gæti farið fram á Zoom og þar myndi kennari virkja „herbergin“ (e. breakout rooms) þar sem nemendur gætu rætt saman um verkefnalausnina og skilað henni svo saman eða hver fyrir sig inn á Flipgrid. Þannig væri hægt að bæta samvinnu og samtali inn í verkefnið. Kennarinn getur farið á milli herbergja. Eftir samtölin inni í herbergjunum „lokar“ kennarinn herbergjunum og þá færast nemendur aftur þangað sem þau hittust fyrst. Þar er hægt að ræða lausnir og jafnvel að leggja fyrir önnur verkefni til að vinna áfram með inni í herbergjunum. Verkefnin gætu verið að hlusta á og gera framhald við lausnir annarra hópa.
Af þessari tilraun lærði ég nokkuð margt. Það var m.a:
- Beinar útsendingar á You Tube eru ekki einfaldar. Það fékk ég að reyna og fékk staðfest hjá frumburðinum sem er alvanur beinum útsendingum. Hann sagði: „Æ, þurftir þú nú að lenda í þessu mamma, You Tube er svooo erfitt. Finndu þér annað stað ef þú ætlar að stunda þetta“.
- Nettengingin í Hjallatröðinni dugar varla fyrir beinar útsendingar. Jafnvel ekki á Facebook. En það stendur til bóta með hækkandi sól.
- Ég á þolinmóða og lærdómsþyrsta vini sem eru tilbúnir að vasast í svona tilraunum með mér. Takk öll sem sýnduð þessu áhuga og þolinmæði. Án ykkar hefði þetta ekki orðið að veruleika.
- Það er þess virði prófa það sem ég rekst á og finnst á einhvern hátt athyglisvert og að gefast ekki upp – bara finna sér staðinn eða verkfærið þar sem hægt er að klára.
- Flipgrid er alltaf fyrirtak! Það hefur mjög marga möguleika sem má nýta í námi. Það er bara að byrja og að prófa sig áfram.
Ef þú vilt prófa þig áfram þá er ekkert annað að gera en að byrja bara. Fyrsta skrefið gæti verið að:
- horfa á þessa hraðkynningu sem var á fjarmenntabúðum HÍ, HA og fleiri í síðustu viku
- vera með í hópnum á Facebook sem heitir Spurt og svarað um Flipgrid eða fljölþjóðlegum Facebookhópi kennara sem nota Flipgrid. Hann er mjög virkur.
- skoða skjáupptökur af fyrstu skrefnunum sem eru aðgengilegar hérna og inni í Facebook hópnum Spurt og svarað um Flipgrid.
- Fylgt Flipgrid á Twitter eða Facebook og þar með fengið „nýjustu fréttir“ um þróun og hugmyndir að notkun.
- Skoðað hugamyndabanka Flipgrid (Disco Library) um notkun þess. Þar eru hugmyndir sem hefur verið safnað saman frá kennurum. Til að komast inn á diskóið þarftu að vera búin/n að stofna þér aðgang.
- Kíkt á splunkunýjan fídus sem kynntur er hérna fyrir neðan – skjáupptöku í Flipgrid!