Af kennslufræðilegri forystu

IMG_8043

Monika Törnsén á fundi Ledarforum NLS í Umeå 2015

Dagana 8.-10. september s.l. var ég á fundi sem heitir Ledarforum NLS. Fundinum lauk með fyrirlestri Moniku Törnsén lektors við Háskólann í Umeå. Hún hefur rannsakað og skrifað um skólastjórnun í Svíþjóð. Á You Tube er hægt að hlusta á hana segja frá áherslum sínum í starfi.

Í fyrirlestri sínum sagðist hún leggja áherslu á að þegar rætt væri um skólastarf ætti að hafa í huga að það sé hlutverk þeirra sem starfa við skólann að skapa þar umhverfi og menningu þar sem nemendum finnst þeir vera öruggir og geta lært það sem skiptir máli án þess að annað í nærumhverfi þeirra hafi áhrif. Það er skylda þeirra sem starfa í skólum að taka tillit til aðstæðna barnanna. Nám nemenda og framtíð veltur að stórum hluta á því hvernig þeim vegnar í skólanum og starfsfólk skólanna hefur í hendi sinni hvers konar umhverfi og aðstæður skapast þar.

Hún sýndi líkan sem skýrði nálgun hennar á viðfangsefni dagsins. Það sýndi að kennslufræðileg forysta byggir á kenningum, rannsóknum, stefnu og framkvæmd starfsins. Sýnileiki kennslufræðilegrar forystu í daglegu starfi fari eftir því hvernig stjórnandinn lítur á og rækir þann hluta starfsins. Hún tók dæmi um stjórnanda sem t.d. kemur heimsóknum í kennslustofur fyrir í dagbók sinnni og ekkert annað fær að trufla þá heimsókn. Hún nefndi að Lennart Grosin (2003) hefði komist að því að það væri lítill vandi fyrir skólastjórnendur að setja kennslufræðilega forystu í forgang í daglegu starfi.

Halda áfram að lesa

Ledarforum NLS 2015

Þessa dagana hittast formenn og varaformenn allra félaga skólastjórnenda á Norðurlöndunum í Umeå í Svíþjóð. Á fundinum er rætt um kennslufræðilega forystu og hvert land og félag kynna áherslur og verkefni síðasta árs. Það er áhugavert að hlusta á að í hverju landi virðast fagfélögin glíma við það sama, þ.e. aukin afskipti stjórnvalda og einstakra stjórnmálamanna af skólastarfi og oft á tíðum án samráðs við starfsmenn skólanna.

Í gær fóru þátttakendur í skólaheimsóknir og eftir hádegið voru kynningar félaganna á ársskýrslum sínum og umræður um þær. Hér fyrir neðan er kynning á ársskýrslu Skólastjórafélags Íslands.