Af kennslufræðilegri forystu

IMG_8043

Monika Törnsén á fundi Ledarforum NLS í Umeå 2015

Dagana 8.-10. september s.l. var ég á fundi sem heitir Ledarforum NLS. Fundinum lauk með fyrirlestri Moniku Törnsén lektors við Háskólann í Umeå. Hún hefur rannsakað og skrifað um skólastjórnun í Svíþjóð. Á You Tube er hægt að hlusta á hana segja frá áherslum sínum í starfi.

Í fyrirlestri sínum sagðist hún leggja áherslu á að þegar rætt væri um skólastarf ætti að hafa í huga að það sé hlutverk þeirra sem starfa við skólann að skapa þar umhverfi og menningu þar sem nemendum finnst þeir vera öruggir og geta lært það sem skiptir máli án þess að annað í nærumhverfi þeirra hafi áhrif. Það er skylda þeirra sem starfa í skólum að taka tillit til aðstæðna barnanna. Nám nemenda og framtíð veltur að stórum hluta á því hvernig þeim vegnar í skólanum og starfsfólk skólanna hefur í hendi sinni hvers konar umhverfi og aðstæður skapast þar.

Hún sýndi líkan sem skýrði nálgun hennar á viðfangsefni dagsins. Það sýndi að kennslufræðileg forysta byggir á kenningum, rannsóknum, stefnu og framkvæmd starfsins. Sýnileiki kennslufræðilegrar forystu í daglegu starfi fari eftir því hvernig stjórnandinn lítur á og rækir þann hluta starfsins. Hún tók dæmi um stjórnanda sem t.d. kemur heimsóknum í kennslustofur fyrir í dagbók sinnni og ekkert annað fær að trufla þá heimsókn. Hún nefndi að Lennart Grosin (2003) hefði komist að því að það væri lítill vandi fyrir skólastjórnendur að setja kennslufræðilega forystu í forgang í daglegu starfi.

Monika hvatti skólastjórnendur til að vera duglegir við að skilgreina og segja frá starfi sínu og að benda á það þegar fleiri rekstrarverkefnum væri komið á þeirra herðar að það geti haft áhrif á gæði starfsins og komið niður á kennslufræðilegri forystu þeirra, eftirfylgni og stuðningi við nám og kennslu, því það sé kjarni starfsins í skólanum. Gæði skólans eru inni í kennslustofunum en ekki í rekstrarskjölum og skýrslum.

Leadership 2

Huges, Ginnet og Cruphy (2009)

Monika fór þvínæst yfir líkan Huges, Ginnet og Cruphy (2009) sem sýnir stjórnun og framkvæmd skólastjórnunar og velti fyrir sér í leiðinni hvað það væri sem stýrði starfinu í hverjum skóla fyrir sig. Hún fór yfir þrenns konar nálgun á stjórnun skólanna og benti á að vert væri að hafa í huga að hæfileg blanda af hverri nálgun væri lykillinn að árangursríku skólastarfi.

Markmiðsstýring (sæ. målstyring): Hvert er markmið og sýn starfsins og hvernig er því komið til skila? Er það til dæmis þannig að öllum finnst þeir vera hluti af starfinu og finnst þeir eiga í henni hlutdeild eða er það þannig að hver og einn kennari sér um sig og sinn hóp og lætur sig annað í starfinu lítið varða? Hún nefndi að m.a. væri hægt að styðjast við eftirtalin atriði:

  1. Setja skýra sýn og markmið og koma þeim á framfæri. Vita nemendur t.d. hvaða markmið eru með því sem þeir fást við í skólanum og hvaða sýn skólastjórinn hefur fyrir skólann?
  2. Stuðla að starfsþróun. Hvetja starfsfólk og styðja það til þróunar í starfi. Búa svo um hnútana að það verði sjálfsagður hlutur að vera sífellt að spyrja sig að því hvernig væri hægt að gera hlutina á annan veg.
  3. Endurskipuleggja starfsemina svo hún fóstri umhyggju fyrir námi og kennslu og löngun til að gera alltaf betur. Það felst í að stjórnandinn kemur fyrir kerfi, menningu og samstarfsvettangi í skólanum þar sem nám og kennsla er umræðuefnið.

Ferlimiðuð stýring (sæ. processtyring). Skólastjórnendur þurfa að vita hvernig kennarinn hugsar um og framkvæmir kennslu sína. Það er varla hægt nema að vera viðstaddur í kjarnastarfsemi skólanna, inni í kennslustofunum. Markvissar heimsóknir skólastjórnenda inn í kennslustofur þykja besta leiðin til þess en þeim þarf að fylgja eftir með samtölum við kennara. Í þessu sambandi fór Monika yfir samtalspunkta Viviane Robinson úr bókinni Student-Centered Leadership (2007, bls. 9). Þar kemur fram að þegar stjórnendur einbeita sér að starfi kennara, gæðum starfsins og stuðningsins sem kennarar fá séu þeir að fást við það máli skiptir í skólastarfi, nám og kennslu.

Árangursmiðuð stýring (sæ. resultatstyring). Að skapa skólamenningu þar sem það er sjálfsagður hluti af starfseminni að skoða niðurstöður kannana og mælinga til að bæta starfið ætti að vera markmið hvers skólastjórnanda. Monika ræddi að það væri hlutverk hvers skólastjórnanda að skapa “mind set” hvers skóla. Þá á hún við að stjórnandinn búi til aðstæður þar sem starfsfólk skólanna þroskar og eflir gagnrýna hugsun um eigið starf. Það sé góður mælikvarði á gæði skólastarfs að skoða hvernig kenararnir og nemendur hugsa og tala um skólann og nám sitt. Finnst þeim að tímanum sé vel varið og að þeir læri það sem skiptir þá máli?

Mér fannst lærdómsríkt og hvetjandi að hlusta á Moniku Törnsén og vera minnt á að eftirfylgni og stuðningur skólastjórnenda við starf kennara væri mikilvægasti hluti starfsins.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.