Ævintýrin eru alls staðar

img_6510

Útsýnið þar sem við lögðum bílnum og teygðum eftir hlaup.

Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna sér ævintýri til að gera vanann skemmtilegri. Í fyrradag fórum við Halldór í okkar venjulega skokktúr. Það var hlýtt í veðri og sólin skein. Í stað þess að fara á Skottið eins og við gerum oftast þá fórum við aðeins lengra og hlupum á einni af uppáhaldsleiðunum okkar, gamla veginn út á Hjalteyri Galmaströndinni. Hann liggur neðan við Ólafsfjarðarveginn. Í þetta skiptið ókum við áleiðis að Hjalteyri og lögðum bílnum skammt frá gamla barnaskólann á Hjalteyri en venjulega leggjum við bílnum við hinn endann á þessum vegspotta. Þessi vegspotti er 6 km aðra leiðina og ég hef notað hann í skokk í meira en 10 ár því þarna er lítil umferð og rólegt og fallegt umhverfi.

Halda áfram að lesa

Stikur á leiðinni

stika

Í vikunni fylgdi ég fjórum nemendum á miðstigi 10 km í Norræna skólahlaupinu. Allir höfðu þeir valið sjálfir að fara lengstu vegalendina í hlaupinu. Þegar hlaupið var tæplega hálfnað voru nokkrir orðnir vonlitlir um að þeir gætu lokið hlaupinu; einum var orðið illt í fótunum, einn hélt að honum væri orðið flökurt, einn var með stein í skónum og einum var alltof heitt. Þegar svo var komið benti ég á að fljótlega myndum við koma á drykkjarstöðina þar sem við værum hálfnuð. Það væri hægt að meta þar hvort þeir ætluðu að ljúka við hlaupið eða hætta.

Þegar við komum að drykkjarstöðinni við 5 kílómetrana og allir höfðu fengið sér bita af banana og vatnssopa voru nemendur sammála um að þeir myndu geta lokið við 10 kílómetra. Það varð samt þannig að þreytan fór aftur að gera vart við sig eftir 200-300 metra og sömu kvartanir og áður létu á sér kræla. Ég stakk þá upp á því að hópurinn hlypi að ákveðnum stað á leiðinni og þegar þangað væri komið myndum við ganga smáspöl. Aftur gerðist það eftir nokkur hundruð metra að þreytan í hópnum sagði til sín. Ég nefndi þá annan stað á leiðinni sem var nær okkur en sá fyrri og aftur samþykkti hópurinn að halda áfram. En ekki leið á löngu þar til þreytan var um það bil að buga hópinn.

Halda áfram að lesa

I am now down to run

Í fyrrasumar fæddist sú hugmynd að fara með vinum okkar í vetrarleyfi til Flórída. Hugmyndin var í vinnslu og undirbúningi  í nokkrar vikur og varð að veruleika um miðjan apríl á þessu ári. Á meðan við vorum að skoða möguleika á fargjöldum og gistingu vaknaði sú hugmynd hjá mér að gaman væri að taka þátt í hlaupi á meðan á dvölinni stæði. Það gæti líka verið ágætis aðhald fyrir mig til að halda mér í hlaupaformi yfir veturinn. Ég leitaði á netinu og fann utanvegahlaup í þjóðgarðinum Jonathan Dickinson Park á vegum fyrirtækis sem heitir Down to run. Í þessu hlaupi var boðið upp á fjórar vegalengdir ásamt skemmtiskokki fyrir börn. Hægt var að velja á milli þess að hlaupa 50 km., hálft maraþon, 10 og 5 km. Ég skráði mig í hálft maraþon og fékk Halldór til að vera með.

Þjóðgarðurinn setur hlaupinu þau skilyrði að þátttakendur séu ekki fleiri en 400-500 og þeir mega ekki skilja örðu eftir sig á brautinni. Drykkjarglös og umbúðir eiga líka að vera í lágmarki og fengum við fyrirmæli um að vera með eigin flöskur í hlaupinu. Það kom svo á daginn að við hverja drykkjarstöð voru lítil glös úr endurvinnanlegum pappa.

Hlaupaleiðin. Það var hvetjandi en ekki letjandi að fara sömu leið til baka. Jók öryggið í lokin.

Þar sem hlaupið byrjaði eldsnemma morguns og íbúðin sem við höfðum leigt okkur í leyfinu var í tveggja tíma akstri frá hlaupinu pöntuðum okkur herbergi í tvær nætur á hóteli skammt frá Jonathan Dickinson Park. Þegar við komum þangað kom í ljós að þar voru aðeins sjö herbergi svo þar var rólegt og þægilegt umhverfi þó það stæði við brautarteina og hringtorg.

Halda áfram að lesa