Stikur á leiðinni

stika

Í vikunni fylgdi ég fjórum nemendum á miðstigi 10 km í Norræna skólahlaupinu. Allir höfðu þeir valið sjálfir að fara lengstu vegalendina í hlaupinu. Þegar hlaupið var tæplega hálfnað voru nokkrir orðnir vonlitlir um að þeir gætu lokið hlaupinu; einum var orðið illt í fótunum, einn hélt að honum væri orðið flökurt, einn var með stein í skónum og einum var alltof heitt. Þegar svo var komið benti ég á að fljótlega myndum við koma á drykkjarstöðina þar sem við værum hálfnuð. Það væri hægt að meta þar hvort þeir ætluðu að ljúka við hlaupið eða hætta.

Þegar við komum að drykkjarstöðinni við 5 kílómetrana og allir höfðu fengið sér bita af banana og vatnssopa voru nemendur sammála um að þeir myndu geta lokið við 10 kílómetra. Það varð samt þannig að þreytan fór aftur að gera vart við sig eftir 200-300 metra og sömu kvartanir og áður létu á sér kræla. Ég stakk þá upp á því að hópurinn hlypi að ákveðnum stað á leiðinni og þegar þangað væri komið myndum við ganga smáspöl. Aftur gerðist það eftir nokkur hundruð metra að þreytan í hópnum sagði til sín. Ég nefndi þá annan stað á leiðinni sem var nær okkur en sá fyrri og aftur samþykkti hópurinn að halda áfram. En ekki leið á löngu þar til þreytan var um það bil að buga hópinn.

Halda áfram að lesa