Kjúklingasalat frá Maggý

Ég á margar vinkonur sem hafa gaman að því að elda góðan mat og meðal þeirra er Maggý á Dalvík. Maður getur verið nokkuð viss um það að maturinn sem hún ber á borð er bæði ljúffengur og fallegur. Ég fékk þetta kjúklingasalat hjá henni fyrir all nokkru og hef gert hann nokkrum sinnum.

Séð yfir sveitina frá Galmaströndinni

Séð yfir sveitina frá Galmaströndinni

Nú um verslunarmannahelgina bjó ég hann til fyrir okkur litlu hjónin á Mörkinni eftir góða hlaupaæfingu. Halldór fór vegalengdina sem hann ætlar sér í Reykjavíkurmaraþoninu og ég fór 2/3 af minni vegalengd (30 km). Hitastigið rétt náði í tveggja stafa tölu, það var súld og blés að norðan. Ég reyndi að velja mér leið þar sem ég þurfti ekki berjast lengi á móti norðanáttinni. Ég fór það sem ég kalla öfugan Guðmund. Það þýðir að ég  byrjaði þar sem ég endaði í vor þegar ég hljóp og safnaði í gjöf fyrir Guðmund sveitarstjóra. Þessi leið inniheldur báðar uppáhaldsleiðirnar mínar í Hörgársveit, Skottið og Galmaströndina. En til að hún verði nógu löng og að tengja þessar leiðir saman verð ég að hætta mér á þjóðveginn, bæði þann sem liggur út á Dalvík og þjóðveg 1. Vegna umferðarþungans í gær hætti ég mér ekki upp á þjóðveg 1 og hljóp þess í stað fram og til baka á Skottinu þar til vegalengdinni var náð.

Eins og svo oft áður þá var veðrið betra þegar út var komið en á meðan horft er á það út um gluggann og býsnast er yfir hitastigi og skýjafari.

Svo var ljúft að fara í Jónasarlaug á eftir og dunda sér síðan við salatgerð. Ekki skemmdi fyrir að í garðinum er núna mikið af góðu salati.

Uppskriftin hér miðar við 5 kjúklingabringur en í gær gerði ég hana úr 3:

5 kjúklingabringur eru skornar í hæfilega bita og marineraðar í sweet chilisósu í um það bil 2 klst. Síðan er þær steiktar á pönnu og kældar. Það má líka hafa þær volgar í þessu salati.

Núðlur sem eru soðnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Gott að miða við að hafa helminginn af því sem gefið er upp á pakkanum sem skammtur fyrir einn.

Svo er búin til dressing á salatið með því að sjóða 1/2 bolla af ólífuolíu, 1/2 bolla balsamik ediki og 2 msk af sojasósu. Þetta er svo kælt.

Svo hefst salatgerðin. Þá raðar maður innihaldinu á fat í þessari röð:

Klettasalat (í gær bætti ég öðru salati við en til að halda „rétta“ bragðinu passaði ég að klettasalat væri í meirihluta. Það spillti ekki bragðinu að ég setti nokkur blöð af kóriander saman við)

Tómatsneiðar

2-3 mangó

núðlur

ristaðar furuhnetur og graskersfræ

kjúklingabitarnir

Hella svo dressingsósunni yfir í lokin.

Kjúklingasalat Maggýar

Kjúklingasalat Maggýar

Borið fram eins og það kemur fyrir og þeir drykkir sem hver velur sér. Gott og vel kælt hvítvín passar vel í kvennahópi en í gær fékk ég mér ljósan Kalda og Halldór kókið sitt.

Hvernig nenniru?

Skottið á góðum laugardegi

Skottið á góðum laugardegi í júni

Ég er stundum spurð að því hvernig ég nenni að hlaupa um sveitina og næstum alltaf sömu leiðirnar. Þetta kom upp í huga minn þegar ég hljóp „Skottið“ í gær. En það er leiðin frá Hlíðarbæ og að þjóðveginum út á Dalvík (að Tréstöðum við brúna yfir Hörgá). Sú leið verður oftast fyrir valinu því þar er ekki mikil umferð og hluti hennar er enn malarvegur og ég get hagað hlaupaleiðinni eftir því hvernig vindar blása.

Ég hef ekki leitt hugann að því að hægt sé að láta sér leiðast með því að velja oft sömu hlaupaleiðina. Fyrir mér er leiðin eða æfingin aldrei eins vegna þess:

  • að markmið hlaupsins er misjafnt, endurheimt, hraðaæfing, í miðju æfingaplani eða við lok þess. Stundum ekki einu sinni innan plans.
  • að lokamarkmiðið er sjaldnast það sama. Í sumar er æft fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst n.k. Í vetur æfði ég fyrir Edinborgarmaraþonið. Þess á milli af því bara.
  • að hlaupið er mislangt. Á Skottinu get ég farið bæði langa og stutta hringi eða mislangt  fram og til baka.
  • að útsýnið og veðrið er sjaldnast það sama.
  • að færðin er ekki alltaf eins.
  • að fuglalífið er breytilegt. Um þessar mundir fylgja mér áhyggjufullar ungamömmur. Spóinn og sandlóan voru til dæmis áberandi í gær.
  • að gróðurinn er sjaldnast eins. Í gær breiddi fjólan úr sér í vegaköntunum og holurtin er um það bil að klára sitt besta. Í lok hlaups gat ég tínt mér rauðsmára og sóleyjar í vönd á eldhúsborðið.
  • að formið er ekki alltaf það sama, stundum er ég lúin og stundum er ég spræk og til í hvað sem er.
  • að skapið er misjafnt. Að öllu jöfnu bæta hlaupið og útiveran geðið, hvort sem það er gott eða slæmt.

Svo hver æfing eða hlaup geta verið ólík öllum hinum sem áður hafa verið farin. Það er bara að byrja.