Ævintýrin eru alls staðar

img_6510

Útsýnið þar sem við lögðum bílnum og teygðum eftir hlaup.

Það þarf ekki að leita langt yfir skammt til að finna sér ævintýri til að gera vanann skemmtilegri. Í fyrradag fórum við Halldór í okkar venjulega skokktúr. Það var hlýtt í veðri og sólin skein. Í stað þess að fara á Skottið eins og við gerum oftast þá fórum við aðeins lengra og hlupum á einni af uppáhaldsleiðunum okkar, gamla veginn út á Hjalteyri Galmaströndinni. Hann liggur neðan við Ólafsfjarðarveginn. Í þetta skiptið ókum við áleiðis að Hjalteyri og lögðum bílnum skammt frá gamla barnaskólann á Hjalteyri en venjulega leggjum við bílnum við hinn endann á þessum vegspotta. Þessi vegspotti er 6 km aðra leiðina og ég hef notað hann í skokk í meira en 10 ár því þarna er lítil umferð og rólegt og fallegt umhverfi.

Í heita pottinum á Hjalteyri.

Þegar við höfðum skokkað okkar venjubundnu kílómetra fórum við niður að gömlu síldarverksmiðjunum á Hjalteyri og prófuðum heita pottinn sem þar er búið að koma fyrir við verksmiðjurnar. Inni í verksmiðjunum er búið að gera frumstæða baðaðstöðu með einni sturtu. Pottinum er haganlega fyrirkomið þannig að auðvelt er fyrir þá sem vilja að fara niður í fjöruna og út í sjó.

Auglýsing við veitingastaðinn Eyri.

Á leiðinni að pottinum datt okkur í hug að gaman væri að prófa veitingastaðinn sem er á Hjalteyri og heitir Eyri. Þar er hægt að fá nokkra rétti, þar á meðal fisk dagsins. Við létum verða af því og fengum ljúffengan og mátulega eldaðan þorsk í piparsósu.

Það er óhætt að segja að með heimsókninni á Hjalteyri hafi hinn venjubundni skokktúr okkar hjóna orðið að ævintýralegri ferð í miðbæ Hörgársveitar. Við mælum bæði með heita pottinum og veitingastaðnum.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.