Um síðustu helgi sótti ég ásamt fjórum öðrum úr Þelamerkurskóla námstefnu sem Google Ed Tech Team bauð til í Verslunarskóla Íslands í Reykjavík og í samstarfi við Advania á Íslandi. Eiginlega var um að ræða tveggja daga veislu þar sem boðið var upp á hagnýtar vinnustofur og fyrirlestra sem bæði voru hvetjandi og lærdómsrík. Í þessari færslu rek ég það sem mér þótti merkilegast fyrri dag námstefnunnar.
Laugardagurinn 14. janúar
Dagurinn byrjaði eldsnemma svo ekki sé meira sagt. Skránig hófst kl. 7:30 og boðið var uppá morgunverð svo þátttakendur gætu fengið sér bita og hitt kunningja og spjallað saman.
Chris Bell opnaði námstefnuna og fór yfir dagskrána. Hann benti gestum á að umgangast hana eins og hún væri hlaðborð og að þeir gættu þess ætla sér ekki að komast yfir allt sem væri í boði. Þá gæti það orðið eins og þegar maður ætlar að borða allt sem býðst á hlaðborði; manni verður ómótt af ofáti.
Á eftir Chris talaði Jaime Casap. Umfjöllunarefni hans var að vekja námstefnugesti til umhugsunar um að samfélag nútímans og ekki síst samfélag framtíðarinnar kallar á annars konar nálgun á námi og kennslu en áður var viðmiðið.
Mikilvægt að hafa þetta í huga og *nýta* í skólastarfi #edtechteam #menntaspjall pic.twitter.com/wqaCkcMspd
— Þorbjörg Þorsteinsdó (@tobbastebba) January 14, 2017