#12dagaTwitter, miðlun og söfnun hugmynda

Um þessar mundir stendur Sif Sindradóttir fyrir viðburðinum #12dagaTwitter á mikróblogginu og samfélagsmiðlinum Twitter. Með framtakinu hvetur hún þau sem starfa við menntastofnanir og sem vilja að deila með öðrum ákveðnu efni, pælingum, áformum og fleiru úr skólastarfi. Um er að ræða eitt tíst á dag í tólf daga og er þetta í þriðja sinn sem hún stendur fyrir þessu framtaki. Mér sýnist á öllu að í ár ætli óvenju margir að vera með.

Þó að framtak af þessu tagi láti lítið yfir sér þá gætir áhrifa þess víða og er hvatning til skólafólks til að skoða hvað það er í starfi sínu sem það vill deila með öðrum. Ég held líka að það séu ekki bara þeir sem tísta sem séu að fylgjast með samtalinu á #12dagaTwitter heldur eigi framtakið sér marga „þögla“ þátttakendur sem lesa og vonandi nýta sér eitthvað af því sem þarna er deilt.

Halda áfram að lesa

Gleði, söngur og samstarf

María Gunnarsdóttir
María Gunnarsdóttir tónmenntakennari

Í febrúar 2019 hitti ég Maríu Gunnarsdóttur tónmenntakennara sem þá starfaði í Hrafnagilsskóla. Hún hefur 20 ára reynslu sem tónmenntakennari. Um þessar mundir starfar María í Setbergsskóla í Hafnarfirði. Ég fylgdist með henni í tíma með nemendum þar sem María og börnin sungu fyrir mig Drekalagið. En þau höfðu einmitt verið að ljúka við þemaverkefni um dreka þegar ég heimsótti skólann. María hafði verið í samstarfi við bekkjarkennarana vegna þess þemaverkefnis.

Myndverk sem nemendur unnu í þemaverkefninu um Dreka.

Eftir kennslustundina settumst við María niður á kaffistofunni og ræddum saman um starf tónmenntakennara og hvað það er sem drífur hana áfram í að vera sífellt skapandi og drífandi í starfi kennara sem hitta og miðla til barna í sex skólum við Eyjafjörð. Þar kemur fram að gleðin og endurgjöf nemenda, aðstandenda og skólastjórnenda drífa Maríu áfram ásamt því að hafa möguleikana á því að vera í samstarfi við aðra kennara; jafnt umsjónarkennara og aðra tónmenntakennara. Og svo finnst Maríu líka óendanlega gaman að vera barnakennari.

Mennska á netráðstefnu

Mynd Tim Marshall fengin af Unsplash Photos

Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með umræðu um menntamál á samfélagsmiðlum að í gær og fyrradag fór fram netráðstefnan UtísOnline og að þátttakendur hennar voru himinlifiandi með skipulag hennar og innihald. Svo viðbrögð þeirra séu sett í eitt orð.

Mér fannst magnað að vera þátttakandi í þessari netráðstefnu um innihaldsríka menntun; ráðstefnu þar sem vel var gætt að hverju smáatriði sem þó gera heildina og upplifunina af henni einstaka. Að setja ráðstefnu eða aðra viðburði um menntun á netið og að takast að halda í bjartsýni, jákvæðni og glaðværa samveru er afrek út af fyrir sig. Til að geta það þarf bæði tæknilega færni og ekki síst meðvitaða og skýra sýn á meginmarkmið skólastarfs; framfarir og velferð.

Halda áfram að lesa