Skilvirkir samvinnufundir

Í einni skólaheimsókninni í Kanada (í St. André Bessette Catholic School) fékk ég tækifæri til að sitja fund og fræðslu sem Kurtis Hewson stýrði. Ásamt tveimur öðrum, Lornu Hewson og Jim Parsons hefur hann skrifað bókina Envisionaring A Collaborative Response Model: Beliefs, Structures and Processes to Transfrom how we Respond to the Needs of Students. Í henni er fjallað um og kenndar aðferðir til að gera samvinnufundi starfsmanna skóla skilvirka þannig að þeir bæti námsaðstæður nemenda. Í fundaforminu er einnig gert ráð fyrir að þeir sem taka þátt í fundinum deili þekkingu sinni og reynslu. Litið er svo á að þannig nýtist mannauður hvers skóla betur en ella.

Kaþólsku skólarnir í Elk Island skólaumdæminu höfðu í fyrra tekið sig saman um að innleiða fundaform Hewson. Í St. André Bessette höfðu kennarar hist reglulega til að bera saman bækur sínar varðandi námsaðstæður einstakra nemenda og til að styðja hvern annan við að koma til móts við þarfir nemenda sinna. Skólinn hafði skipulagt fundina þannig að þeir voru haldnir á skólatíma og þá var helmingur kennara á fundi og hinn helmingurinn við kennslu. Stjórnendur höfðu ákveðið að skipta kennarahópnum í fjögur teymi og fékk hvert þeirra samvinnufund einu sinni í mánuði. Í hverju fundateymi voru því 5-7 kennarar. Við nýlegt mat á verklaginu hafði komið í ljós að kennurum fannst tíma sínum ekki vel varið og að teymin ræddu helst einstaka nemendur og þá oftast þá sömu. Einnig nefndu kennarar að þeim fyndust teymin hafa verið sett saman af handahófi. Þeir óskuðu eftir því að í teymunum væru kennarar sem t.d. kenndu sömu fög eða sama árgangi.

Á sýnifundinn voru boðaðir allir kennarar 9. og 10. bekkjanna í skólanum. Fimm sátu fundinn með Kurtis, einn skráði fundargerð og aðrir fylgdust með. Eftir fundinn voru umræður um lærdóminn af sýnisfundinum.
Halda áfram að lesa

Aoife Cahill skólastýra í Sharewood Park

Í fjórða þætti hlaðvarps Bara byrja ræði ég við Aoife Cahill skólastýru St. Luke Catholic School. Hún er félagi minn í verkefninu Skólastjóraskipti sem er samstarfsverkefni Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambandsins í Alberta í Kanada. Áður en við hittumst á flugvellinum í Edmonton fyrir 10 dögum höfðum við verið í sambandi á Twitter, Instagram og í gegnum tölvupóst. Þar skiptumst við á frásögnum af áherslum og áhuga í leik og starfi.

Aoife Cahill skólastýra St. Luke Catholic School

Gæti ekki verið betra

Fyrri helgin hérna í Sherwood Park leið hratt og nýttist vel til að kynnast Aoife og fjölskyldu hennar. Á laugardeginum fórum við og dætur Aoife, Kathleen (5 ára) and Eileen (3 ára) í göngutúr í fyrsta snjó vetrarins í Elk Island Park. Þar náðum við að sjá bjór spóka sig í ísköldu vatninu, bison-uxa næra sig á sinunni og öðru sem bauðst í haustgróðrinum og leika okkur í hálkunni og sprengja örþunna ísskán af pollum. Það er greinilegt að hérna er haustið liðið og veturinn er mættur. Eins og heima talar fólk um að það sé sjaldan viðbúið því að veturinn sé kominn; á hverju ári komi hann of snemma og sé kaldari í ár en í fyrra.

Halda áfram að lesa

Fæ að vera skiptinemi

Hvenær hefði ég trúað því að ég fengi tækifæri til að verða skiptinemi í útlöndum þegar ég væri orðin sex barna amma? En þannig er það núna því á morgun held ég til Edmonton í Alberta fylki í Kanada. Þar mun ég dvelja næstu tíu dagana og búa hjá og fylgja eftir skólastýrunni Aoife Cahill. Hún er skólastýra í St. Luke Catholic School. Ferðin er hluti af samstarfsverkefni Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambands Alberta fylkis. Verkefnið er tveggja ára hér á landi. Í fyrravetur fóru þrjár skólastýrur frá Íslandi til Kanada og hver um sig dvaldi hjá skólastýrum þar. Og á vorönninni komu svo þær kanadísku í heimsókn til Íslands. Í ár erum við fjórar sem tökum þátt í verkefninu. Í fyrra blogguðu þær sem þá tóku þátt. Bloggið þeirra er hægt að lesa með því að smella hérna.

Halda áfram að lesa

Að læra saman og hvert af öðru

Í síðustu viku sat ég málþing verkefnisins Gerum gott betra í Hofi á Akureyri. Á málþinginu sögðu þrír iðjuþjálfar og einn þroskaþjálfi, sem allar starfa við stoðþjónustu í þremur grunnskólum við Eyjafjörð, frá reynslu sinni og þekkingu af því að rýna í eigin starfshætti á síðasta skólaári. Á þær hlustuðu tæplega 90 manns. Þær miðluðu svo glærunum sínum einnig á vefsvæði málþingsins. Þannig deildu þær hugmyndum sínum, þekkingu og reynslu með enn fleirum en þeirra sem hlustuðu á þær í Hofi þennan eftirmiðdag.

Fræðimaðurinn og fyrirlesarinn Andy Hargreaves var aðalfyrirlesarinn á nýafstaðinni námstefnu Skólastjórafélags Íslands. Á vinnustofunni sem hann hélt benti hann gestum hennar á notagildi samfélagsmiðla í starfsþróun og nefndi Twitter sérstaklega. Fyrir námstefnu SÍ sagðist hann hafa sett færslu inn á Twitter reikninginn sinn og lagt spurningu fyrir fygljendur sína og ávarpað sérstaklega þá sem hann vissi að höfðu nokkra vitneskju vegna rannsókna sinna og skrifa um málefnið:

Á aðeins 4 dögum fékk hann meira en 40 svör og úr þeim spann hann svo erindi sitt og umræðuefni sem hann lagði fyrir gesti vinnustofunnar. Með þessu móti safnaði hann og nýtti raungögn úr daglegu lífi skólastjórnenda víðs vegar úr heiminum. Þannig varð auðveldara en ella fyrir gesti vinnustofunnar að taka þátt í umræðum, setja sig í spor kollega, segja frá eigin starfi og læra af reynsu þeirra.

Ég tek undir með Andy Hargreaves að Twitter er öflugur miðill til starfsþróunar. Þar er mjög auðvelt að að læra með öðrum og af öðrum. Ég hef reynt að miða við að Twitter aðganginn minn noti ég aðeins til að fylgjast með og miðla efni sem fjalla um menntamál. Það geri ég með því að fylgja kennurum og öðrum sem láta sig menntamál varða og einnig fylgi ég ákveðnum myllumerkjum sem segja frá einstökum viðburðum eða málefnum. Myllumerkið #menntaspjall er eitt þeirra. Það nota kennarar til að deila efni og reynslu í skólastarfi og einnig til að spjalla um álitamál.

Á áðurnefndri námstefnu Skólastjórafélags Íslands voru námstefnugestir hvattir til að nota myllumerkið #skólastjórnun til að tísta frá námstefnunni. En skólastjórnendur hafa tíst frá námstefnum sínum frá árinu 2013 og með hverju árinu bætast fleiri tístarar í hópinn. Með því er búinn til vettvangur þar sem gestir námstefnanna glósa saman og á rauntíma deila þeir lærdómi sínum einnig með þeim sem ekki eru staðnum. Ég verð seint leið á að benda á þessa mikilvægu kosti Twitter og myllumerkja.

Í gegnum tíðina hafa verið til nokkur verkfæri sem halda utan um myllumerki og annað efni á vefnum. Storify var eitt þeirra en í maí í fyrra var það tekið af markaðnum. Wakelet er nú það verkfæri sem flestir nýta sér m.a. til gera samantektir byggðar á myllumerkjum og öðrum færslum um viðburði og málefni. Ég notaði þetta verkfæri í fyrsta skiptið eftir námstefnu SÍ um daginn og sé ekki betur en að það sé einfalt og þægilegt í notkun.

Einnig sýnist mér að Wakelet hafi fleiri möguleika en Storify hafði. Það er fljótlegt að setja það þannig upp að hægt sé að búa sér til eigin glósubók eða geymslustað fyrir hlekki, myndir og fleira um málefni eða viðburði. Þannig ætti það að geta líka nýst í skólastarfi – enda er í deilingarmöguleikum Wakelet gert ráð fyrir að hægt sé að deila efni þaðan beint á Google Classroom.

Rafræn starfsþróun, hvort sem hún er á samfélagsmiðlum eða annars staðar á netinu, er kærkomin viðbót við aðra möguleika til starfsþróunar. Helstu kostir hennar eru að hana er hægt að stunda hvar sem er, hvenær sem er, einn eða með öðrum og út frá áhuga og þörfum hvers og eins hverju sinni. Og umfram allt stækkar hún tengslanet þeirra sem hana stunda og með þátttöku í henni leggur hver og einn sitt af mörkum bæði til eigin starfsþróunar og annarra. Það er sannarlega starfsþróun sem jöfnum höndum tekur mið af menntun sem nýtist í samtímanum og einnig til framtíðar.

Málþing Gerum gott betra

Miðvikudaginn 9. október var haldið málþing á Akureyri þar sem fjallað var um lærdóm og reynslu þriggja grunnskóla af starfi stoðteymis skólanna í starfsþróunarverkefni sem heitir Gerum gott betra. Verkefnið fékk styrk úr Sprotasjóði og var unnið á síðasta skólaári.

Heiðurinn af því að setja málþingið féll í minn hlut. heiður að setja það og hérna fyrir neðan er ávarpið.

Key note speakers, fyrirlesarar, aðrir þátttakendur í dagskrá og gestir – velkomin á málþing Gerum gott betra. Annemarie and Esther, I am both happy and honored to welcome you to the conference Let´s do good things better.

Það er með stolti og ánægju sem ég set málþing verkefnisins Gerum gott betra hér í dag. Í dag er markmiðið að fleiri en skólarnir þrír, Dalvíkurskóli, Naustaskóli og Þelamerkurskóli kynnist leiðarljósi og starfsháttum DeWijnberg í Venlo í Hollandi ásamt því að heyra hvernig skólarnir þrír hafa unnið úr því sem þeir hafa haft tækifæri til að læra af þeim. 

Eins og ljóst er, þá er verkefnið Gerum gott betra Sprotasjóðsverkefni en hugmyndin að því kviknaði þegar ég fór ásamt nokkrum skólastjórum í skólaheimsókn haustið 2016 í DeWijnberg stofnunina. Þar fengum við kynningu á starfsháttum stofnunarinnar og ég sannfærðist um að við gætum lært af þeim og gert það sem við gerum vel enn betra. Til þess að það gæti orðið sótti Þelamerkurskóli um Erasmus+ styrk til að fara í kynningarheimsókn. Haustið 2017 heimsóttum við aðstoðarskólastjóri og iðjuþjálfi Þelamerkurskóla, skóla DeWijnberg stofnunarinnar. 

Heiti Erasmus+ verkefnisins var Skipulag náms og stöðluð matstæki. Markmið þess var að gera starfsfólk Þelamerkurskóla færara en áður í að nýta markvissar matsaðferðir og að læra að skipuleggja nám og kennslu á niðurstöðum mats. Til viðbótar var markmið verkefnisins að kynnast  fleiri aðferðum en áður í útikennslu og kennslu list- og verkgreina ásamt því að skoða hvernig nemendur í De Wijnberg skólanum nýta hæfileika sína og sterkar hliðar í náminu. Það má með sanni segja að starfsfólk skólans hafi tekið einstaklega vel á móti okkur. Hver mínúta var vel skipulögð í kringum þær spurningar sem við höfðum og áttu að leiða okkur áfram til þess að gera gott starf betra. 

Á heimleiðinni á flugvellinum í Amsterdam gerðum við okkur óskalista yfir það sem við vildum gera með lærdóm ferðarinnar. Náði listinn bæði yfir einstök verkefni og viðburði ásamt því að rýna í eigin starfshætti varðandi nemendur sem þurfa mikla námsaðlögun. Upp úr því varð svo til Sprotasjóðsverkefnið Gerum gott betra. Það verkefni hefur þrjú meginmarkmið:

  1. Að bæta þjónustu við nemendur með sértæka námserfiðleika og námsaðlögun.
  2. Að innleiða formlegt mat á framvindu náms, líðan og hegðunar nemenda sem fá námsaðlögun.
  3. Að auka hlut náms sem byggir á að efla virkni og færni hjá nemendum með sértæka námsörðugleika þar sem áhugi þeirra og styrkleikar eru nýttir til að stýra námsframvindunni.

Til að fleiri en Þelamerkurskóli nyti góðs af lærdómi námsferðarinnar til De Wijnberg og aðverkefnið fengi fleiri sjónarhorn fengum við til liðs við okkur Dalvíkurskóla og Naustaskóla. Verkefni þeirra sem taka þátt í Gerum gott betra var að æfa sig í að nota verkfæri De Wijnberg í daglegu starfi með nemendum. Verkefnið var unnið með aðferðum starfendarannsókna þar sem starfsmenn skólanna þriggja rýndu saman í eigið starf og studdu hvern annan í að greina og jafnvel breyta eigin starfsháttum. Hver þeirra valdi sér námsaðstæður eins skjólstæðings til að vinna með yfir veturinn. Haldnir voru rýnifundir þar sem hver þeirri kynnti málið og fékk leiðbeiningar og stuðning frá öðrum; bæði stoðteymum skólanna þriggja og öðrum sem boðið var til fundanna. Á fundunum fengu þeir sem kynntu endurgjöf. Endurgjöfin var þannig að hver og einn á fundinum gaf eitt hrós/gullkorn, spurði einnar spurningar og gaf heilræði í áframhaldandi vinnu. Ykkur sem hér eruð komin gefst nú kostur á því að taka þátt með þeirri aðferð. Pallborðið mun gera það munnlega en við hin fáum að gera þetta rafrænt. Í dag fáum við því að nota símana okkar og snjalltæki til eigin náms og annarra. 

Það er ómetanlegt fyrir fámenna skóla að fá tækifæri til að búa sér til aðstæður til samstarfs við aðra skóla; bæði erlendis og hérlendis. Þetta litla en jafnframt ígrundaða og kröftuga verkefni ber nokkur merki framtíðarfagmennsku eða hinnar nýju fagmennsku sem þeir Trausti Þorsteinsson og Sigurður Kristinsson ásamt fleiri fræðimönnum hafa rannsakað og rætt um. Í þeirri fagmennsku er gert ráð fyrir að í starfi fagmanna sé réttur skjólstæðinga þeirra til sjálfræðis og upplýsinga virtur. Það er m.a. gert með gagnsæi þar sem fagmennirnir gera grein fyrir starfsemi sinni á opinberan hátt. Í hinni nýju fagmennsku er líka lögð áhersla á starfsþróun, hagnýtar rannsóknir og miðlun þekkingar. Í skrifum sínum árétta Trausti og Sigurður að með virkri þátttöku í eigin starfsþróun og annarra ásamt þátttöku í rannsóknum og mótun umræðu um skólastarf efli fagfólk skólanna sjálfsvirðingu sína og einnig virðingu annarra fyrir fagmennsku sinni.

Á nýafstöðnu skólamálaþingi Kennarasambands Íslands í tilefni af alþjóðlega kennaradeginum 5. október, minntist formaður þess á einkunnarorð nokkurra finnskra skólamanna við innleiðingu þeirra á nýrri aðalnámskrá. Eins og við vitum er það hlutverk skyldunáms hvers samfélags að veita þegnum þess almenna menntun. Menntun sem bæði muni gagnast hverjum og einum og samfélaginu í heild. Finnarnir sem vitnað var til hafa það að viðmiði að almenn menntun eigi að vekja með nemendum vitund um rætur sínar og líka að gefa þeim vængi svo þeir geti látið sig dreyma um framtíðina og séu færir um að sjá bæði hana og samtíma sinn í nýju ljósi. 

Það er von mín að málþingið í dag veki með okkur umhugsun um rætur starfs okkar, m.a. það sem gott er.  Og að málþingið muni jafnframt verða til þess að gefa okkur vængi til að sjá möguleika til nýta það góða til nýsköpunar og gera starf okkar enn betra.

Að þessu sögðu, set ég málþing Gerum gott betra og fel Jóni Svani Jóhannssyni verkefnastjóri skólahluta Erasmus+ stjórnun þess, því án Erasmus+ værum við ekki hér í dag.

Hérna er svo hægt að komast inn á vefsvæði málþingsins. Þar eru glærur þess og önnur gögn.