Myndbanda-fréttabréf nemenda

Lilja Bára segir frá í Brekkuskóla

Í gær, mánudaginn 3. febrúar, hélt samstarfsnetið #Eymennt þriðju menntabúðir skólaársins. Þær voru haldnar í Brekkuskóla. Að venju voru margar áhugaverðar menntabúðir í boði. Á einni þeirra kynnti Lilja Bára Kristjánsdóttir umsjónarkennari í Dalvikurskóla hvernig hún vinnur myndbanda-fréttabréf til foreldra. Hún sagði að kveikjan að þessu verkefni hefði verið að hún hefði orðið vör við að ekki allir foreldrar læsu ftéttabréfin sem hún sendi þeim vikulega í tölvupósti.

Lilja Bára og bekkurinn hennar hafa gert myndbandsfréttabréf þrisvar sinnum í vetur; í nóvember, desember og janúar. Í samtali eftir kynninguna þá kom fram að sennilega væri líka hægt að þreytast á því að horfa á 5-7 mínútna myndbönd eins og að lesa vikulega tölvupósta.

Lilja Bára sagði frá því að hún og nemendur byrja á því að gera lista yfir fréttir sem þau vilja flytja af bekkjarstarfinu. Síðan velja nemendur sér fréttir til að vinna að. Áður en farið er í upptökur gera hóparnir handrit að fréttinni. Þegar upptökum er lokið er allar fréttirnar settar saman í eitt myndband með Clips. Myndbandið er síðan vistað á YouTube rás skólans. Geymsla myndbandsins er stillt þannig að aðeins þeir sem hafa hlekkinn geta skoðað myndbandið og ekki er hægt að finna það með leitarvélum. Þannig er farið eftir persónuverndarlöggjöfinni.

Lilja Bára sýndi brotu úr öllum fréttabréfinum og benti á að nemendum hefði mikið farið fram í að vera skýrmælt og búa til hnitmiðaðar „senur“ ásamt því að nýta sér meira texta og annað sem Clips býður uppá.

Aðspurð sagði Lilja Bára að hún hefði sent tölvupóst til foreldra þar sem hún hefð ibeðið um viðbrögð við fréttabréfunum. Hún sagðist bara hafa fengið jákvæð og hvetjandi viðbrögð.

Þetta dæmi sýnir hvernig tæknin bætir við leiðum fyrir skólastarfið til að þjálfa nemendur í að miðla þekkingu sinni og einnig hvernig tæknin aðstoðar við að miðla fréttum af jákvæðu skólastarfi.

Takk aftur #Eymennt.

Næstu menntabúðir Eymenntar verða haldnar 14. mars og þá sjá Dalvíkurskóli og Grunnskóli Fjallabyggðar um að setja dagskrána saman, halda utan um skráningu og græja veitingarnar.

Bara byrja færir út kvíarnar

Bara byrja færir út kvíarnar og áformar að bjóða tvö námskeið í mars. Námskeiðin fara fram við eldhúsborðið að Hjallatröð 1 í Eyjafjarðarsveit. Reiknað er með því að aðeins fimm manns verði á hvoru námskeiði.

Annað þeirra fjallar um notkun Google verkfæranna í leik og starfi. Það námskeið er tvö skipti; 90 mínútur í senn. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur þekki helstu verkfæri Google og geti nýtt sér þau í leik og starfi. Google námskeiðið fer fram 5. og 12. mars.

Hitt námskeiðið er um notkun verkfæranna Canva og Spark Posts. Með þeim er hægt að búa til alls kyns boðskort, matseðla, forsíður og innlegg á samfélagsmiðla. Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur læri á möguleika þessara verkfæra og geti búið til t.d. boðskort, annað hvort með eigin myndum eða myndum forritanna og dreift á samfélagsmiðlum eða með öðrum hætti.

Hægt er að skoða lýsingu á námskeiðiunum betur í viðburðum á Facebook síðu Bara byrja með því að smella á hnappana hérna fyrir neðan.

Bekkjarfundir

utileikirapril 006 copy
Mynd úr starfi Húsabakkaskóla í Svarfaðardal þar sem bekkjarfundir voru fastur liður í starfi skólans.

Þegar ég byrjaði að kenna í grunnskóla lærði ég fljótlega að starf umsjónarkennarans var meira en að miðla efni bókarinnar til nemenda. Eitt af bjargráðum mínum þá var að draga fram lítið hefti á norsku sem ég hafði fengið í vettvangsnámi þegar ég var í kennaranáminu í Noregi. Þann vetur sem ég prófaði hvort og þá hvernig ráðin í heftinu virkuðu með nemendahópnum skráði ég hjá mér hvernig ég hagaði fundunum og hvað ég myndi gera á annan veg.

Seinna setti ég svo saman hefti sem ég gaf út og lét prenta í Víkurprenti á Dalvík. Það var árið 2005. Heftið hefur síðan verið prentað nokkrum sinnum og í flutningunum um daginn „fann“ ég bunka af heftunum. Það er nokkuð síðan ég hef sent einhverjum heftið útprentað svo ég ákvað að nú væri sennilega kominn tími til þess að það yrði aðgengilegt öllum hérna á Bara byrja.

Hérna fyrir neðan getur þú nálgast heftið og prentað það út eða hlaðið því niður á tækið þitt. Gangi þér sem allra best á bekkjarfundunum. Af reynslunni veit ég að þeir eru algjört fyrirtak.