Utís2021: Virkni og ígrundun

Það hefur eflaust ekki farið fram hjá neinum sem fylgist með á Twitter eða öðrum samfélagsmiðlum þar sem kennarar tjá sig að Utís2021 var um liðna helgi. Utís er tilboð um starfsþróun sem hefur verið í boði frá árinu 2015. Margir halda að á Utís séu þátttakendur allan tímann að hræra í tækjunum sínum og að læra á annað hvort ný tæki eða nýja tækni en það er nú ekki alfarið svo. Vinnustofurnar tvær sem ég fór á, voru báðar tækjalausar. Einnig voru viðburðirnir í dagskránni sem voru fyrir alla þátttakendur nánast tækjalausir. Við tókum bara upp símana okkar til að svara spurningum sem hvöttu til ígrundunar.

Viðburðirnir sem ég sótti á Utís2021 áttu það sameiginlegt að vekja þátttakendur til umhugsunar um áhrif eigin athafna á nám og kennslu og þar með menntun nemenda. Í verkefnunum sem allir þátttakendur unnu veltum við fyrir okkur hvernig menntun til framtíðar gæti litiið út með því að velja okkur hindrun og velta fyrir okkur hvernig framtíð án þessara hindrana gæti mögulega lítið út og hver afraksturinn myndi geta orðið. Í lok þeirrar vinnu vorum við minnt á að framtíðin er ekki svo langt undan, hún er eins nálægt og viljum að hún sé. Okkar er að móta hana.

Á vinnustofunum mátti einnig greina þetta þema. Þar bauðst þátttakendum að kynnast aðferðum og verkfærum sem miða að því að skapa aðstæður fyrir nemendur sem bjóða þeim tækifæri til náms þar sem m.a. sköpun, virkni, samvinna, samtal, val, samþætting námsgreina, ígrundun og meðvituð notkun tækninnar eru viðmið kennslunnar. Fyrir mig sem kenni fullorðunum m.a. um kenningar í starfsþróun var lærdómsríkt að sjá hvernig þátttakendur voru virkjaðir til að reyna sjálf það sem kennt var og að ræða og skrá ígrundun um upplifunina og möguleg áhrif á eigin starfshætti.

Áhugi og eldmóður kennaranna leyna sér ekki!

Virkni þátttakenda er einnig sýnileg á hraðstefnumótinu og menntabúðunum þar sem þeim býðst að kynna vel heppnaða kennslu eða verkfæri sem hafa reynst vel í starfi. Í þeim dagskrárliðum verða gróskan og eldmóðurinn í skólastarfinu nánast áþreifanleg. Kennarar skiptast á hugmyndum og ræða mögulegar útfærslur í heimaskólum.

Alltaf pláss fyrir einn!

Það er ekki hægt að segja frá Utís án þess að minnast á tengslanetið sem þar styrkist og stækkar á hverju ári. Á Utís er reiknað með því að þú komir til að kynnast nýju fólki; hópa- og sætaskipan ásamt skipulagi á verkefnum og vinnustofum taka mið af því að þátttakendur vinna saman og ekki alltaf með sama hópnum. Svo má ekki gleyma Pac-man reglunni sem gildir á Utís og ætti eiginlega að gilda alls staðar þar sem fólk kemur saman.

Sem fyrr tókst Ingva Hrannari og samstarfsfólki hans að setja saman dagskrá þar sem kennarar fengu tækifæri til að auka þekkingu sína og hæfni til að búa nemendum sínum námsumhverfi sem tekur mið af menntun sem ég er ekki í vafa um að muni nýtast þeim til framtíðar. Takk fyrir mig – ég hlakka til að melta og moða úr því sem ég lærði.

Verkfæri í netkennslu

Í janúar 2020 hóf ég störf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Ég mætti í eina staðlotu í janúar, fór heim í Hjallatröð og hef að mestu síðan haldið kennslunni úti þaðan. Netkennsla er áskorun og ég hef haft ánægju af því að finna leiðir til að glæða hana lífi þannig að nemendur geti verið virkir, skapandi og unnið saman.

Margt bendir til þess að kennslan á komandi vikum þurfi í einhverju mæli að fara fram á netinu. Þá fannst mér gott að skoða safn vefverkfæra sem hefur orðið til hjá mér síðan í janúar í fyrra. Þar hef ég sett inn slóðir og einhverjar leiðbeiningar um verkfæri sem hægt er að nýta til að búa til „líflegar“ kynningar og halda utan um umræður og efni frá nemendum.

Ég hef deilt þessari Padlettu með nemendum þegar þau hafa sjálf þurft að vera með kynningar á netinu. Það er tilbreyting fyrir þau að hafa aðgang að einhverju fleiru en hefðbundum glærusýningum. Einnig hef ég sjálf nýtt nokkuð af verkfærunum sem á henni eru.

Í netkennslu sem annarri kennslu eru það ekki endilega rafrænu verkfærin sem skipta öllu máli í skipulagi kennslunnur heldur hvernig verkfærin sem nýtt eru styðja við innihaldsríkt og merkingarbært nám.

Ég tek gjarnan við ábendingum um fleiri verkfæri sem gætu bæði nýst kennurum og nemendum. Sendu mér endilega ábendingu með því að smella hérna.

Vefumræður og umræðutímar

Á flestum námskeiðum sem ég hef komið að við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eru vefumræður og á mörgum þeirra eru líka umræðutímar eða málstofur um lesefni námskeiðsins. Vefumræðunum og umræðutímunum eru misjafnlega mikið stýrt af kennurum og þátttaka og virkni nemenda er einnig mismikil.

Við undirbúning á einu námskeiða næsta hausts datt mér í hug að reyna að tengja þessa tvo þætti námskeiðsins saman og gefa þar með nemendum færi á að nýta valda hluta þess sem þau ræða (skriflega) í netumræðunum í litlum hópi á lokuðu svæði þegar þau mæta í umræðutíma. Ég vildi líka auka möguleika nemenda á því að hafa áhrif á það sem rætt er í umræðutímunum. Námskeiðið er á meistarastigi og fer að mestu leyti fram sem netkennsla.

Halda áfram að lesa