Sumargjafir

Á fimmtudaginn er sumardagurinn fyrsti og allt útlit fyrir að veðrið muni minna á vorið og sumarið.

Enn fagna skátarnir sumrinu með skátamessu í Hallgrímskirkju en ekki veit ég hvort það er líka ennþá gert á Ísafirði. Ég man eftir því að sem yrðlingur og skáti hafi ég ásamt öðrum krökkum á Ísafirði mætt í skrúðgöngu sem þrammaði í hvaða veðri sem var frá Skátaheimilinu að kirkjunni til að fagna komu sumarsins.

Þennan dag fengum við líka sumargjafir. Það var venjulega eitthvað sem minnti á sumarið; bolti, sippuband eða ný sumarföt.

Sumargjafir smælkisinsÉg ákvað fyrir páskana að gefa smælkinu ekki páskaegg, heldur að halda mig við að gefa þeim sumargjafir. Í ár voru þær flestar heimagerðar. Kallavettlingar sem mamma prjónaði fyrir Freyju Ösp og hún heklaði líka Hello Kitty tösku fyrir Karen Sif. Á meðan heklaði ég smekki fyrir litla Hjörvar Húna sem er þriggja mánaða í dag. Árni Heiðar fær almennileg sundgleraugu fyrir börn svo hann geti kafað án þess að gleraugun fyllist af vatni.

Sjálf fékk ég mér nýjan hlaupajakka.

Gleðilegt sumar.

Áskorun á aðra heklara

Múrsteinninn

Múrsteinninn

Í gær sagðist ég hafa lokið við að hekla stuðningskrukkurnar. Þó að svo sé, er ekki þar með sagt að verkefninu geti verið lokið.

Til að verkefnið geti átt sér framhaldslíf þá set ég hérna inn á bloggið eina uppskrift að  stuðningskrukku. Þessa uppskrift skráði ég fyrr í vetur til að geta sagt konum (enginn karl beðið um það ennþá) til við krukkuhekl.

Þeir sem vilja spreyta sig á krukkuheklinu geta því smellt hérna og fengið sér uppskrift að krukkuhekli. Þeir sem nýta sér uppskriftina geta valið um:

  1. að hekla stuðningskrukku og komið henni svo til einhvers sem greiðir fyrir hana inn á styrktarreikning Elsu
  2. eða að þeir greiða sjálfir inn á styrktarreikninginn um leið og þeir ná sér í uppskriftina.

Gangi ykkur vel og góða skemmtun.

Styrktarreikningur Elsu er:  556-14-402989 kt. 171066-2989

Verkefninu er lokið svo öllum er heimilt að nýta sér uppskriftina.

Hetjan

20140321-094840.jpg

Í ljósi nýjasta viðtals BB við Elsu er við hæfi að síðasta krukkan í þessu verkefni sé kölluð Hetjan.

Þetta verkefni hefur verið skemmtilegt og það er skrýtið að segja að því sé lokið. Margir hafa haft samband við mig og það hefur verið auðvelt finna krukkunum eigendur. Einnig hefur fólk gaukað að mér bæði garni og krukkum. Það segir meira um Elsu, viðmót hennar og tengslanet en sjálft verkefnið.

Ég mun áfram fylgjast með hetjunni Elsu og hvernig hún af undraverðu æðruleysi og bjartsýni tekst á við veikindi sín og bata.

Hetjan hefur þegar fengið eiganda.

Hérna fyrir neðan eru myndir af öllum krukkum verkefnisins,

This slideshow requires JavaScript.