Heiðabýlaganga á Jökuldalsheiðinni

Allur hópurinn og Snæfell í baksýn

Allur hópurinn og Snæfell í baksýn

Nú um liðna helgi gengum við Halldór með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs um Jökuldalsheiðina og skoðuðum heiðabýli. Fararstjóri var Páll Pálsson frá Aðalbóli. Veðrið lék við okkur og ferðafélaga okkar sem reyndust góðir og skemmtilegir svo ekki sé minnst á einstakar frásagnir fararstjórans. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í ferðinni og setti saman.

Hvernig nenniru?

Skottið á góðum laugardegi

Skottið á góðum laugardegi í júni

Ég er stundum spurð að því hvernig ég nenni að hlaupa um sveitina og næstum alltaf sömu leiðirnar. Þetta kom upp í huga minn þegar ég hljóp „Skottið“ í gær. En það er leiðin frá Hlíðarbæ og að þjóðveginum út á Dalvík (að Tréstöðum við brúna yfir Hörgá). Sú leið verður oftast fyrir valinu því þar er ekki mikil umferð og hluti hennar er enn malarvegur og ég get hagað hlaupaleiðinni eftir því hvernig vindar blása.

Ég hef ekki leitt hugann að því að hægt sé að láta sér leiðast með því að velja oft sömu hlaupaleiðina. Fyrir mér er leiðin eða æfingin aldrei eins vegna þess:

  • að markmið hlaupsins er misjafnt, endurheimt, hraðaæfing, í miðju æfingaplani eða við lok þess. Stundum ekki einu sinni innan plans.
  • að lokamarkmiðið er sjaldnast það sama. Í sumar er æft fyrir Reykjavíkurmaraþonið í ágúst n.k. Í vetur æfði ég fyrir Edinborgarmaraþonið. Þess á milli af því bara.
  • að hlaupið er mislangt. Á Skottinu get ég farið bæði langa og stutta hringi eða mislangt  fram og til baka.
  • að útsýnið og veðrið er sjaldnast það sama.
  • að færðin er ekki alltaf eins.
  • að fuglalífið er breytilegt. Um þessar mundir fylgja mér áhyggjufullar ungamömmur. Spóinn og sandlóan voru til dæmis áberandi í gær.
  • að gróðurinn er sjaldnast eins. Í gær breiddi fjólan úr sér í vegaköntunum og holurtin er um það bil að klára sitt besta. Í lok hlaups gat ég tínt mér rauðsmára og sóleyjar í vönd á eldhúsborðið.
  • að formið er ekki alltaf það sama, stundum er ég lúin og stundum er ég spræk og til í hvað sem er.
  • að skapið er misjafnt. Að öllu jöfnu bæta hlaupið og útiveran geðið, hvort sem það er gott eða slæmt.

Svo hver æfing eða hlaup geta verið ólík öllum hinum sem áður hafa verið farin. Það er bara að byrja.