Gengið um Strandir

IMG_1912.JPG

Dagana 1.-5. júlí gengum við Halldór með góðum hópi um Strandir. Við hófum gönguna með því að sigla frá Ísafirði í Hrafnfjörð. Þaðan gengum við til Reykjarfjarðar um Skorarheiði í Furufjörð og þaðan um Svartaskarð til Reykjarfjarðar. Við gistum tvær nætur í Reykjarfirði og gengum svo í Ófeigsfjörð með tveimur gistingum á leiðinni. Aðra nóttina tjölduðum við í Meyjarseli í Bjarnarfirði og hina nóttina í Engjanesi við Eyvindarfjörð.

Það er fátt sem að mínu mati hleður batteríin jafn hratt og gönguferð á Ströndum.

Hérna er hlekkur á myndirnar sem við tókum í ferðinni.

 

Gengið í Fossdal

Laugardaginn 9. júní 2018 gengum við Halldór í Fossdal með Ferðafélagi Akureyrar. Fararstjóri var Helga Guðnadóttir. Það voru um 30 manns í ferðinni. Ekið var að Kleifum í Ólafsfirði og gengið eftir kindastíg að vitanum og þar áð í dálitla stund. Sá spotti tók klukkustund. Síðan var gengið inn í Fossdalinn þar sem við fundum laut þar sem hópurinn snæddi nestið sitt. Því næst var gengið áleiðis að brú sem er yfir ána því hinum megin við ána er gestabók þar sem allir rituðu nöfn sín. Eftir það var gengið aðeins lengra inn í dalinn og svo haldið heim.

Alls tók gönguferðin rúmlega þrjá tíma. Enda var veðrið til þess fallið að njóta þess sem leiðin hefur upp á að bjóða.

Svo að við gætum safnað á einn stað myndunum úr ferðinni gerði ég auðvitað albúm í Google Photos sem ég deildi með Halldóri.  Myndirnar er hægt að skoða hérna.

Heiðabýlaganga á Jökuldalsheiðinni

Allur hópurinn og Snæfell í baksýn

Allur hópurinn og Snæfell í baksýn

Nú um liðna helgi gengum við Halldór með Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs um Jökuldalsheiðina og skoðuðum heiðabýli. Fararstjóri var Páll Pálsson frá Aðalbóli. Veðrið lék við okkur og ferðafélaga okkar sem reyndust góðir og skemmtilegir svo ekki sé minnst á einstakar frásagnir fararstjórans. Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í ferðinni og setti saman.