Stikur á leiðinni

stika

Í vikunni fylgdi ég fjórum nemendum á miðstigi 10 km í Norræna skólahlaupinu. Allir höfðu þeir valið sjálfir að fara lengstu vegalendina í hlaupinu. Þegar hlaupið var tæplega hálfnað voru nokkrir orðnir vonlitlir um að þeir gætu lokið hlaupinu; einum var orðið illt í fótunum, einn hélt að honum væri orðið flökurt, einn var með stein í skónum og einum var alltof heitt. Þegar svo var komið benti ég á að fljótlega myndum við koma á drykkjarstöðina þar sem við værum hálfnuð. Það væri hægt að meta þar hvort þeir ætluðu að ljúka við hlaupið eða hætta.

Þegar við komum að drykkjarstöðinni við 5 kílómetrana og allir höfðu fengið sér bita af banana og vatnssopa voru nemendur sammála um að þeir myndu geta lokið við 10 kílómetra. Það varð samt þannig að þreytan fór aftur að gera vart við sig eftir 200-300 metra og sömu kvartanir og áður létu á sér kræla. Ég stakk þá upp á því að hópurinn hlypi að ákveðnum stað á leiðinni og þegar þangað væri komið myndum við ganga smáspöl. Aftur gerðist það eftir nokkur hundruð metra að þreytan í hópnum sagði til sín. Ég nefndi þá annan stað á leiðinni sem var nær okkur en sá fyrri og aftur samþykkti hópurinn að halda áfram. En ekki leið á löngu þar til þreytan var um það bil að buga hópinn.

Halda áfram að lesa

I am now down to run

Í fyrrasumar fæddist sú hugmynd að fara með vinum okkar í vetrarleyfi til Flórída. Hugmyndin var í vinnslu og undirbúningi  í nokkrar vikur og varð að veruleika um miðjan apríl á þessu ári. Á meðan við vorum að skoða möguleika á fargjöldum og gistingu vaknaði sú hugmynd hjá mér að gaman væri að taka þátt í hlaupi á meðan á dvölinni stæði. Það gæti líka verið ágætis aðhald fyrir mig til að halda mér í hlaupaformi yfir veturinn. Ég leitaði á netinu og fann utanvegahlaup í þjóðgarðinum Jonathan Dickinson Park á vegum fyrirtækis sem heitir Down to run. Í þessu hlaupi var boðið upp á fjórar vegalengdir ásamt skemmtiskokki fyrir börn. Hægt var að velja á milli þess að hlaupa 50 km., hálft maraþon, 10 og 5 km. Ég skráði mig í hálft maraþon og fékk Halldór til að vera með.

Þjóðgarðurinn setur hlaupinu þau skilyrði að þátttakendur séu ekki fleiri en 400-500 og þeir mega ekki skilja örðu eftir sig á brautinni. Drykkjarglös og umbúðir eiga líka að vera í lágmarki og fengum við fyrirmæli um að vera með eigin flöskur í hlaupinu. Það kom svo á daginn að við hverja drykkjarstöð voru lítil glös úr endurvinnanlegum pappa.

Hlaupaleiðin. Það var hvetjandi en ekki letjandi að fara sömu leið til baka. Jók öryggið í lokin.

Þar sem hlaupið byrjaði eldsnemma morguns og íbúðin sem við höfðum leigt okkur í leyfinu var í tveggja tíma akstri frá hlaupinu pöntuðum okkur herbergi í tvær nætur á hóteli skammt frá Jonathan Dickinson Park. Þegar við komum þangað kom í ljós að þar voru aðeins sjö herbergi svo þar var rólegt og þægilegt umhverfi þó það stæði við brautarteina og hringtorg.

Halda áfram að lesa

Kjúklingasalat frá Maggý

Ég á margar vinkonur sem hafa gaman að því að elda góðan mat og meðal þeirra er Maggý á Dalvík. Maður getur verið nokkuð viss um það að maturinn sem hún ber á borð er bæði ljúffengur og fallegur. Ég fékk þetta kjúklingasalat hjá henni fyrir all nokkru og hef gert hann nokkrum sinnum.

Séð yfir sveitina frá Galmaströndinni

Séð yfir sveitina frá Galmaströndinni

Nú um verslunarmannahelgina bjó ég hann til fyrir okkur litlu hjónin á Mörkinni eftir góða hlaupaæfingu. Halldór fór vegalengdina sem hann ætlar sér í Reykjavíkurmaraþoninu og ég fór 2/3 af minni vegalengd (30 km). Hitastigið rétt náði í tveggja stafa tölu, það var súld og blés að norðan. Ég reyndi að velja mér leið þar sem ég þurfti ekki berjast lengi á móti norðanáttinni. Ég fór það sem ég kalla öfugan Guðmund. Það þýðir að ég  byrjaði þar sem ég endaði í vor þegar ég hljóp og safnaði í gjöf fyrir Guðmund sveitarstjóra. Þessi leið inniheldur báðar uppáhaldsleiðirnar mínar í Hörgársveit, Skottið og Galmaströndina. En til að hún verði nógu löng og að tengja þessar leiðir saman verð ég að hætta mér á þjóðveginn, bæði þann sem liggur út á Dalvík og þjóðveg 1. Vegna umferðarþungans í gær hætti ég mér ekki upp á þjóðveg 1 og hljóp þess í stað fram og til baka á Skottinu þar til vegalengdinni var náð.

Eins og svo oft áður þá var veðrið betra þegar út var komið en á meðan horft er á það út um gluggann og býsnast er yfir hitastigi og skýjafari.

Svo var ljúft að fara í Jónasarlaug á eftir og dunda sér síðan við salatgerð. Ekki skemmdi fyrir að í garðinum er núna mikið af góðu salati.

Uppskriftin hér miðar við 5 kjúklingabringur en í gær gerði ég hana úr 3:

5 kjúklingabringur eru skornar í hæfilega bita og marineraðar í sweet chilisósu í um það bil 2 klst. Síðan er þær steiktar á pönnu og kældar. Það má líka hafa þær volgar í þessu salati.

Núðlur sem eru soðnar eftir leiðbeiningum á pakkanum. Gott að miða við að hafa helminginn af því sem gefið er upp á pakkanum sem skammtur fyrir einn.

Svo er búin til dressing á salatið með því að sjóða 1/2 bolla af ólífuolíu, 1/2 bolla balsamik ediki og 2 msk af sojasósu. Þetta er svo kælt.

Svo hefst salatgerðin. Þá raðar maður innihaldinu á fat í þessari röð:

Klettasalat (í gær bætti ég öðru salati við en til að halda „rétta“ bragðinu passaði ég að klettasalat væri í meirihluta. Það spillti ekki bragðinu að ég setti nokkur blöð af kóriander saman við)

Tómatsneiðar

2-3 mangó

núðlur

ristaðar furuhnetur og graskersfræ

kjúklingabitarnir

Hella svo dressingsósunni yfir í lokin.

Kjúklingasalat Maggýar

Kjúklingasalat Maggýar

Borið fram eins og það kemur fyrir og þeir drykkir sem hver velur sér. Gott og vel kælt hvítvín passar vel í kvennahópi en í gær fékk ég mér ljósan Kalda og Halldór kókið sitt.