Hagnýt og nærandi fræðsla á menntabúðum #Eymennt

Í gær voru menntabúðir #Eymennt haldnar í fimmta sinn í vetur. Að þessu sinni voru þær haldnar í Þelamerkurskóla. Að vanda var dagskráin fjölbreytt. Það var hægt að kynnast:

Ég náði að fara á menntabúð í báðum lotum. Í þeirri fyrri fór ég til Bergmanns Guðmundssonar verkefnisstjóra í Giljaskóla og rifjaði upp og bætti við mig nokkrum Google viðbótum og kynntist tengslakönnunarvefnum Sometics. Einnig sýndi hann okkur vefsíðu sem hann hefur gert í Google Sites og inniheldur öll Orðarúnar prófin. Prófin hefur hann sett upp í Google Forms og bætt svarlykli við þannig að um leið og nemendur hafa svarað könnuninni er búið að vinna úr henni. Þetta framtak Bergmanns sparar kennurum bæði tíma og fyrirhöfn við að leggja prófin fyrir og að vinna úr þeim. Svo ekki sé minnst á pappírssparnaðinn.

Við yfirferð á Google viðbótunum var umræða um hve mikinn tíma þær geta sparað kennurum. Margar af viðbótunum eru þróaðar með kennurum svo að þær taki mið af því hvað kennarar eru að fást við frá degi til dags og hvað tekur mestan tíma frá öðrum undirbúningi. Eins og einn kennarinn á menntabúðinni orðaði það: „ein örlítil viðbót getur sparað mér það sem áður tók mig marga klukkutíma að vinna“. Bergmann hefur einmitt sett saman vef þar sem hann heldur utan um viðbæturnar sem hafa gagnast honum í starfi.

Í seinni lotunni fór ég og lærði á Seesaw hjá Bergþóru Þórhallsdóttur. Hún „mætti“ á menntabúðirnar í gegnum Zoom símafundakerfið af því hún var stödd á skrifstofunni sinni í Kópavogsskóla. Hennar menntabúð sýndi að lærdómur er alls ekki bundinn við að sá eða það sem kennir og nemandinn þurfi endilega að vera í sama rýminu.

Sem fyrr sýndi það sig að menntabúðir geta verið hagnýt starfsþróun þar sem fer fram fræðsla á jafningjagrunni og það sem þátttakendur læra geta þeir að öllu jöfnu prófað og innleitt með nemendum sínum strax morguninn eftir. Að hitta hóp áhugsamra kennara er líka alltaf nærandi, að ógleymdu spjallinu yfir góðum veitingum. Já, áfram #Eymennt!

Myndirnar í færslunni eru fengnar að láni frá Margréti Þóru Einarsdóttur.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.