Á kvennaþingi I

Um mánaðamótin janúar og febrúar fór ég ásamt fimm forystukonum innan KÍ á þriðja kvennaþing Alþjóðasamtaka kennara (EI) sem Kennarasamband Íslands er aðili að. Konurnar fimm eru Guðbjörg Ragnarsdóttir þáverandi varaformaður FG, Guðríður Arnardóttir formaður FF, Fjóla Þorvaldsdóttir þáverandi varaformaður FL, Hanna Björg Vilhjálmsdóttir forkona jafnréttisnefndar KÍ og Ingibjörg Kristleifsdóttir þáverandi formaður FSL.

Í borginni

Ráðstefnan var haldin í Marrakesh í Marokko og þar sem þangað er meira en dagleið og alls ekki í alfaraleið neinnar okkar ákváðum við að nota ferðina til að skoða okkur um helgina fyrir ráðstefnuna. Fyrri daginn fengum við okkur leiðsögumann sem fór með okkur um nokkra staði í miðborginni, Bahia höllina, þræddi með okkur markaði borgarinnar og í hádeginu kom hann okkur fyrir á veitingastað sem rekinn er í kokkaskóla fyrir konur sem eiga einhverra hluta vegna undir högg að sækja. Það val sýndi okkur að leiðsögumaðurinn okkar kunni sitt fag ásamt því að hann var fróður um sögu, trú og staðhætti Morocco. Honum var líka umhugað um að við kynntumst innlendu handverki og gætti þess að sölumenn varnings sem framleiddur var annars staðar í heiminum næðu ekki til okkar.

Út fyrir borgina

Daginn eftir höfðum við áformað að fara inn í eyðimörkina með leiðsögumanni á lítilli rútu. Hann mætti eldsmenna á hótelið með þær fréttir að snjóað hefði í Atlas fjöllunum um nóttina og vegum hefði verið lokað. Eins og fagmanni sæmir var hann með möppu með sér og  bauð okkur upp á aðra ferð í staðinn. Um margar var að velja og völdum við að aka niður að ströndinni til bæjar sem heitir Essasouria. Bærinn gengur líka undir nafninu Blái bærinn vegna þess að liturinn er mikið notaður á byggingar og fleira í bænum. Á leiðinni til Essasouria var stoppað þrisvar sinnum og „túristinn tekinn alla leið“ eins og sagt er. Fyrsta stoppið var veitingasala við veginn þar sem hægt var að hressa sig á volgu og dísætu myntutei, svo var stoppað þar sem geitahirðar höfðu komið sér fyrir með geitur sínar og kiðlinga. Þeir sátu undir tré á meðan geiturnar þeirra klifruðu í trénu. Þegar bíllinn stoppaði var okkur boðið að knúsa kiðling og taka myndir af geitunum í trjánum. Annað stoppið var á verkstæði kvenna sem búa til olíur og aðrar afurðir úr argan-hnetum. Þar fræddumst við um  hvernig mauk, olíur og snyrtivörur eru unnar úr hnetunum og gátum svo auðvitað líka keypt af þeim afurðir. Þegar við áttum eftir nokkra kílómetra að Essasouria var aftur stoppað í vegarkanti. Að þessu sinni voru þar strákar með úlfalda sem þustu að okkur og um leið og bíllinn stoppaði. Gegn greiðslu buðust þeir til að teyma úlfalda undir okkur á meðan þeir tókum af okkur myndir á meðan á því stóð.

Þegar komið var til Essasouria setti leiðsögumaðurinn okkur úr bílnum við endann á strönd bæjarins og sagði okkur að ganga hana á enda og hitta sig aftur á veitingastað sem hann hafði bent okkur á við hinn enda strandarinnar. Við röltum ströndina á enda og nutum þess að horfa á mannlífið og skoða okkur um í þessum áhugaverða og fallega bæ.

Á heimleiðinni náðum við að stoppa á einum stað þar sem við hittum á ljóskerasmið og með hógværð sinni og fallegu handverki náði hann að selja hverri okkar ljósker sem vandlega voru borin heim í handfarangri.

Þessir tveir dagar voru viðburða- og lærdómsríkir og urðu til þess að mig langar aftur að heimsækja Morocco til að kynnast landinu en betur.

Í næsta pistli skrifa ég svo um ráðstefnuna sjálfa og lærdóminn af henni.

Hérna fyrir neðan er glærukynning sem ég gerði fyrir stjórn Skólastjórafélags Íslands eftir ferðina.

1 thoughts on “Á kvennaþingi I

  1. Bakvísun: Á kvennaþingi II | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.