Finna eigin leið og samvinna

Um þessar mundir vinnur Reykjavíkurborg að því að gera sér menntastefnu til ársins 2030. Til þessa verks hefur borgin fengið til sín m.a. Pasi Sahlberg. Á dögunum komu hann og Andy Hargreaves til landsins og þeir voru meðal annars með fyrirlestra í Hörpunni. Viðburðinum var streymt á netinu og einnig er upptakan öllum aðgengileg.

Morgunsárið í dag notaði ég til að hlusta á þá félaga segja frá rannsóknum sínum og setja niðurstöður þeirra í samhengi við aðstæður víða í heiminum og það sem skiptir máli í skólastarfi.

Sem fyrr benti Pashi Sahlberg á að þrátt fyrir að útkoma okkar á Pisa sé ekki eins og við vildum hafa hana besta er margt sem vert er að efla enn frekar. Hann hvatti fundarmenn til að finna íslensku leiðina í menntakerfinu en ekki að apa upp leiðir annarra þjóða.

IMG_2602.png

Að mati Pasi Sahlberg ættu þetta að vera áherslur menntunar nú á dögum.

Andy Hargreaves sagði frá rannsóknum sínum og annarra á því hvað skilar árangri þegar bæta á árangur í skólastarfi og jafnvel í heilu menntakerfunum. Hann lagði áherslu á að fundnar séu skýrar leiðir til samvinnu og samstarfs í skólastarfi og að hugsað væri uppá nýtt hvernig litið er á samstarf til þess að læra hver af öðrum. Með öðrum orðum, breytingar geta ekki orðið nema lögð sé áhersla á að byggja upp lærdómssamfélag fagmanna.

IMG_2603.png

Að byggja upp lærdómssamfélag fagmanna er flókið ferli en áskorun sem borgar sig í betri menntun nemenda. Það sýna rannsóknir Andy Hargreaves og fleiri.

Það er reynsla mín að lærdómssamfélag verður ekki til af sjálfu sér. Til þess þarf viljann til að koma því á fót og drifkraft þátttakenda svo það skili árangri og það gerist sannarlega ekki á einu skólaári. Það þarf að gefa sér tíma til að koma því á fót og gefa rými til þess að ræða faglegan ávinning af því og einnig að skoða með þátttakendum hvernig til hefur tekist; bæði afrakstur þess og aðferðir við að koma því á fót. Í því ferli er nauðsynlegt að þátttakendur hafi á færi sínu aðferðir til að skoða vinnu sína og ræða hana við samstarfsfólk og stuðningskerfi. Til þess að það megi verða þarf að hreyfa verulega við þægindaramma allra sem að vinnunni koma og ég velti fyrir mér miðað við umræðuna undanfarna daga hvort umhverfið og traustið séu til staðar svo hægt verði að leggja upp í ferðalagið sem ný menntastefna verður.

IMG_2604.png

Lokaorð Andy Hargreaves eru góð hvatning fyrir næstu skref.

Upptökuna frá viðburðinum má skoða á vef Skóla- og frístundsviðs Reykjavíkurborgar.

2 thoughts on “Finna eigin leið og samvinna

  1. Takk Ingileif. Gæti vanist því að hafa þig sem sendiherra (eða sækjaherra) (eða sækjafrú)sem sækir þekkingu og skilar áfram áfram þvi sem skiptir máli og gagn er í.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.