
Mynd fengin af heimasíðu http://big-change.org/growth-mindset/
Það er ekki langt síðan ég kynntist hugmyndum Carol Dweck um festuhugarfar og hugarfar vaxtar. En þær fjalla í stuttu máli um hvernig við hugsum um möguleika okkar til að bæta við okkur færni og hæfni í því sem tökum okkur fyrir hendur. Skólafólk sem tekur mið af kenningum hennar setur sig í þær stellingar að allir geti bætt við sig þekkingu og færni; það sé bara spurning um hvernig námsumhverfið hvetur til þess, bæði nemendur og kennara.
Ég fæ seint leið á því að prísa þann hluta í kjarasamningum grunn- og framhaldskólakennara sem gerir ráð fyrir því að tekinn sé frá tími í vinnutíma þeirra til að bæta við sig þekkingu og vaxa í starfi. Í daglegu tali meðal fólks í grunnskólanum ganga þessir tímar undir nafninu „150 tímarnir“. Bara það eitt og sér að gert sé ráð fyrir tíma í vinnutímaskilgreinu kennara til vaxtar er viðurkenning á því að eðli starfsins krefst þess að kennarar séu stöðugt að bæta við sig þekkingu og færni; bæði í daglegu starfi og utan þess.