Í morgun var menntaspjall á Twitter um nýjustu tækni og vísindi í skólastarfi og var kveikjan að spjallinu sumarbústaðarferð sjö kvenna sem hafa áhuga á málefninu. Þær fóru í bústaðarferðina til að gefa sér tíma til að fikta og leika sér með tækin sem þær höfðu sankað að sér. Einnig nýttu þær tímann til að ræða um notagildi tækjanna og tækninnar í námi og kennslu.
Það hefur margoft og allvíða verið rætt og ritað um innleiðingu nýjunga í skólastarfi. Upplýsingatækni er ekki alveg splunkuný í skólastarfi en það sem er nýtt er allt dótið sem nú er hægt að verða sér út um og nýta til að gera námið fjölbreyttara og raunverulegra en áður, bæði fyrir nemendur og kennara. Og hvort sem við viljum það eða ekki þá er tæknin og dótið sem henni fylgir komið til að vera og hlutdeild þess í lífi og starfi okkar mun ekki minnka í framtíðinni. Það eitt ætti að duga til þess að skólastarf gæfi tækninni meiri tíma og krafta.
En hvað þarf til?
Eftir að hafa heimsótt spjaldtölvuteymið í Kópavogi og Snælandsskóla í janúar áttaði ég mig á einni leið til að horfa á innleiðingu UT í skólastarfi og gerði mér þá teikninguna hérna fyrir ofan.
Það er ekki nóg að kaupa dótið, það þarf að finna út og gefa aðgang að þeim hugbúnaði sem hentar tækjunum og markmiði starfsins. Svo kemur að því að miðla til kennara því sem búið er að kaupa og græja. Það þarf að kveikja áhuga og skapa skilning á notagildi tækninnar, bæði fyrir nemendur og kennara. Ekki frekar en aðrir, gefa kennarar sér ekki tíma til að skoða nýjungar fyrr en þeir hafa sannfærst um notagildi þeirra. Til þess að það geti gerst þarf bæði peninga og tíma. Og líka nokkuð mikla þolinmæði og útsjónarsemi, því í þessum efnum (eins og öðrum) hentar ekki ein aðferð öllum kennurum. Sumum dugar að fara á eina menntabúð og þá eru þeir komnir í gang. Aðrir þurfa að fá að prófa sjálfir og fá stuðning til þess inni í kennslustundum. Og enn aðrir þurfa að horfa á hjá öðrum til að komast af stað.
Það er reynsla mín að hlutverk skólastjórnenda í þessu ferli, eins og öðru, er að fylgjast vel með bæði innan skólans og utan hans. Það flýtir fyrir þróuninn ef þeir ná að vera fyrirmyndir í notkun tækninnar í eigin starfi. Skólastjórnendur þurfa að styðja við frumkvöðlana í skólanum og síðast en ekki síst að taka fullan þátt í innleiðingu nýjunga í skólastarfinu. Þannig græða allir á innleiðingunni, nemendur, kennarar og stjórnendur sjálfir.