ESHA 2012 Mark van Vugt

Þar sem ESHA ráðstefnan er í komandi viku rifjaðist upp fyrir mér að einn af aðalfyrirlesurum ESHA ráðstefnunnar 2012 var Hollendingurinn Mark van Vugt og hann mun einnig tala á ráðstefnunni í Maasticht. Hérna fyrir neðan er pistill sem ég skrifaði upp úr fyrirlestri hans eftir heimkomuna 2012 og birtist hún þá á heimasíðu Skólastjórafélags Íslands:

Mark Van Vugt er professor í sálfræði við VU Háskólann í Amsterdam. Rannsóknir hans og skrif hafa birst í mörgum virtum tímaritum og einnig þeim sem teljast “poppvísindatímarit”, sjá: http://www.psychologytoday.com/blog/naturally-selected

Sérsvið Van Vugt er á sviði stjórnunar-/leiðtogafræða innan félagssálfræðinnar. Síðustu skrif hans (2012) og rannsóknir beinast að hegðun og samspili leiðtoga og fylgjenda þeirra. Þeir sem vilja kynna sér betur verk hans er bent á heimasíðuna www.professormarkvanvugt.com.

Hvers konar leiðtoga viltu fylgja?

Í upphafi fyrirlestrarins sýndi Van Vugt myndir af tveimur stjórnendum. Annan þeirra nefndi hann Larry og hinn John og sagðist gjarnan spyrja áheyrendur sína hvor þessara manna þeir vildu frekar vera. Báðir stjórnendurnir þykja hafa náð góðum árangri í störfum sínum. Larry á sportbíla, skútu og önnur eftirsóknarverð farartæki. Og í fréttum kemur fram að hann er nýlega kvæntur í þriðja sinn.

Á heimasíðu fyrirtækisins hjá John kemur í ljós að á síðasta ári fékk hann greiddan 1 dollara í arð af fyrirtækinu. Það var ekki vegna þess að fyrirtækið gekk illa heldur vegna þess að John segist ekki hafa þörf fyrir meiri peninga; hann eigi og hafi allt sem hann þurfi. Arður fyrirtækisins muni framvegis verða notaður starfsmönnum og viðskiptavinum til hagsbóta.

Van Vugt fullyrti að oftast vildu fleiri áheyrenda hans vera Larry. Van Vugt sagðist svo næst spyrja spurningar sem væri mikilvægari en sú fyrri: hvort myndir þú vilja vinna hjá Larry eða John? Hann sagði að þá snérist dæmið oftast við. Flestir vilja vinna hjá John.

Forysta skiptir máli

Forysta skiptir máli á öllum sviðum samfélagsins því bæði er til góð og slæm forysta. Það skiptir máli hver og hvernig er stjórnað, t.d. í menntun samfélagsins og hvort leiðtogar velja að leysa vanda með friði eða ófriði.

Van Vugt varar samt við ofmati á stjórnendum því þeim getur orðið á eins og öðrum og eru ekki allir starfi sínu vaxnir þó þeir hafi verið valdir til forystu og eigi sér marga fylgjendur.

Kenningin

Erindi sitt byggði Van Vugt á rannsóknum sínum sem hann hefur skrifað um í bókinni Naturally selected Hann bendir á að fljótlega (25 sekúndur) eftir að hópur hefur myndast hefur hann, án umræðu, valið sér hver sé sá sem hlustað verður meira á og muni leiða hópinn í verkefninu.

Maðurinn er í eðli sínu hópvera sem hefur umfram aðrar verur þróað með sér færni til að vera hluti af hóp. Hann getur bæði leitt hóp og verið fylgjandi í hópi. Samkvæmt Van Vugt er þetta hæfileiki sem maðurinn hefur þróað með sér frá örófi alda.

 1. Hann segir að heilabúið geymi tengsl um það hvers konar leiðtogum maðurinn fylgir miðað við í hvaða aðstæðum hann er þau verkefni hópurinn þarf að leysa.
 1. Einstaklingar innan hvers hóps hafa mismunandi markmið og ágóða af samvinnu hópsins. Árangur hópsins er undir því kominn hvernig einstaklingarnir innan hans koma sér saman um sameiginlegt markmið. Hvað ertu tilbúinn að láta mikið af hendi?
 1. Manneskjunni er eðlislægt að vera fylgjandi; að fylgja leiðtoga og að fylgja hópnum. Þá er mikilvægt að spyrja sig að því af hverju þú fylgir ákveðnum leiðtoga? Viltu sjálfur einhvern tímann leiða hóp? Viltu fá ákveðna vitneskju eða læra meira? Vera hluti af hópnum?Og síðan þarf að velta fyrir sér á hvaða hátt leiðtogi fær fylgjendur. Leiðtogar verða ekki til nema þeir afli sér fylgjenda. Samkvæmt Van Vugt skiptir það höfuðmáli fyrir framhaldið hvernig leiðtogar koma fram við sína fyrstu fylgjendur (að styðja þá og styrkja). Því það eru þeir sem munu afla hugmyndum leiðtogans fleiri fylgjenda svo úr því geti orðið fjöldahreyfing sem mun breyta einhverju fyrir hópinn.
 1. Frá örófi er lýðræði hópum eðlilegt; þ.e. að komast að sameiginlegri niðurstöðu svo hópurinn geti komist af. Innan hópa eru samskiptamynstur sem verða til þess að hópurinn velur sér leiðtoga og/eða stoppar þá af sem ekki geta orðið hópnum til heilla til framtíðar.Í frumstæðum hópum veljast einstaklingar til forystu út frá því hvað þeir geta og kunna svo þekking þeirra og færni geti orðið hópnum til framfara. Þar þekkist ekki að einn úr hópnum hafi alræðisvald yfir lengri tíma yfir hópnum.
 1. Vald yfir hópum á sér líka dökka hlið. Þ.e. þegar einstaklingi tekst að ná yfirhöndinni með valdi eða á kostnað annarra í hópnum eða annarra hópa. Það gerist oftast þegar hópurinn á í deilum innbyrðis eða á í útistöðum við annan hóp. Þ.e.a.s. aðstæður sem koma í veg fyrir að hópnum finnst hann komast sæmilega af. Þá getur misjöfnum foringjum tekist að afla sér fylgjenda vegna þess að aðstæðurnar kalla á foringja sem þykir hafa lausnir fyrir hópinn. Þetta gerist þrátt fyrir að hópurinn eigi að hafa innbyggt kerfi sem á að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst (dæmi: ýmsir einræðisherrar).
 1. Rannsóknir Van Vugt og félaga benda til þess að fólk velji sér leiðtoga út frá útliti þeirra og aðstæðunum sem þeir eiga að starfa í: á ófriðartímum virðist fólk velja sér karllæga leiðtoga en kvenlæga á friðartímum. Niðurstöðurnar benda til þess að staðalímyndirnar ráði meiru en við viljum trúa.
 2. Útgeislun (karisma) leiðtoganna verður m.a. til vegna orðsnilldar leiðtoganna. Þeir hafa hæfileika til að nema sameiginlegar þarfir hópsins og koma þeim í orð á þann veg að hópurinn finnur til samkenndar innbyrðis og við leiðtogann. Van Vugt benti á að í skólaumhverfinu (inni í kennslustofunni) væri þetta mikilvægur hæfileika.
 3. Staðalímyndir (byggðar á reynslu kynslóðanna) okkar um leiðtoga rugla okkur í ríminu. Niðurstöður rannsókna Van Vugt og félaga benda til þess að við tengjum saman hæfni leiðtoga og útlit þeirra, t.d. hæð. Það skipti kannski máli fyrr á öldum þegar afkoma hópsins byggðist á því hvort foringi hans var stór og sterkur. Það skiptir síður máli í samfélagi nútímans.

Hvað er hægt að nýta af rannsóknum Van Vugt í skólastarfi:

 1. Van Vugt sagði að rannsóknir hans bendi til þess að manneskjan ráði ekki enn við mjög stórar heildir. Og til að hópar nái sem bestum árangri þurfi að miða við að þeir séu ekki óviðráðanlega stórir fyrir þá sem í þeim starfa. Huga þarf að því að hóparinir séu ekki stærri en svo að þeir sem í þeim starfa nái að rækta félagstengsl innan hópsins. Á þann hátt tekst m.a. að þekkja og styrkja leiðtogana innan hópsins og að virkja þá þegar við á.
 1. Hlúa vel að fylgjendunum. Gefa rými fyrir það óformlega, samveru og skemmtanir.
 1. Láta ekki staðalímyndir ráða við val á leiðtogum. Rækta fjölbreytileikann.

1 thought on “ESHA 2012 Mark van Vugt

 1. Bakvísun: Fyrirlestrar Utís2019 – lærdómur og áform | Bara byrja

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.