Í Þelamerkurskóla hefur í vetur verið reynt að koma fleiri fréttum af skólastarfinu til foreldra og annarra velunnara en áður hefur tíðkast. Í því skyni hefur verið skilgreint hvaða hlutverki hver fréttamiðill sem skólinn hefur komið sér upp gegnir.
Litið er svo á að heimasíða skólans sé brunnurinn þar sem flestar upplýsingar um skólastarfið er að finna ásamt ítarlegum fréttum. Þar er einnig myndasafn skólans. Síðan hefur stefnan verið að nýta samfélagsmiðlana, rafrænt fréttabréf og tölvupósta til að leiða fólk inn á heimasíðuna.
Samfélagsmiðlana, Twitter og Facebook höfum við einnig notað til að segja rauntímafréttir af starfinu í skólanum. Það eru stuttar fréttir og myndir sem eru send út á miðlana jafnóðum og atburðirnir eiga sér stað. Það gefur foreldrum og öðrum velunnurum meiri möguleika en áður til að fylgjast með því sem um er að vera í skólanum. Fyrsta tilraun skólans í þessu og gott dæmi um það var þegar nemendur fóru í Skólabúðirnar að Reykjum í hitteðfyrra. Þá gat kennarinn sem fylgdi nemendum sent út á Twitter-síðu skólans örfréttir af dvölinni undir umræðuþræðinum (e. hashtag #) #reykir2013. Sjaldan hafa skólanum borist fleiri þakkir fyrir fréttaflutning af starfinu. Þetta er handhæg leið fyrir skólann að gefa foreldrum upplýsingar um atburði og augnablik úr starfinu. Foreldrar þurfa ekki sjálfir að vera á Twitter, aðeins að komast á twitter.com og geta sett umræðuþráðinn í leitargluggann.
Í dag fóru nemendur 9. og 10. bekkjar í skólaferðalag og þá kom upp spurningin hvernig ætti að fylgjast með rauntímafréttum af ferðinni og að þessu sinni ekki aðeins því sem kennarar senda frá sér heldur líka því sem nemendur senda út. Þá komum við kennarinn okkur saman um að nota bara Instagram, því það væri krökkunum tamara en Twitter. Svo gekk þetta svona fyrir sig í dag:
- Iconosquare: http://iconosquare.com/viewer.php#/tag/skolaferdalagid2015/
- Til að kennarinn fyllti ekki Instagram aðganginn sinn af myndum af nemendum á skólaferðalagi var stofnaður aðgangur skólans að Instagram. En mesti galli Instagram er að í gegnum appið er aðeins hægt að hafa einn notanda skráðan inn í einu. En kennararnir láta það ekki á sig fá; þeir henda sjálfum sér út af appinu og skrá skólann inn á meðan þeir senda inn myndir.
- Svo var að koma þessu í beina útsendingu til foreldra. Eftir leit á netinu fann ég https://www.sharypic.com/ og stofnaði aðgang sem kostaði ekki neitt. Hann varði í sex tíma svo ég keypti aðgang sem safnar myndunum saman í fimm daga. Ókeypis aðgang sé ég fyrir mér að hægt sé að nota í stutt verkefni og viðburði.
- Í þann mund sem ég var að borga aðganginn fékk ég leiðbeiningar frá félögum mínum á Samspili um ódýrari kosti eins og:
- https://instagram.com/explore/tags/hashtag/ þar sem umræðumerkið sem þú vilt skoða kemur í stað orðsins „hashtag“ í slóðinni.
- http://instansive.com/
- http://www.intagme.com/
- https://storify.com/ en það er varla hægt að nota sem rauntímafréttamiðil.
Niðurstaðan varð sú að útsending af myndunum er í frétt á heimasíðunni í gegnum Sharypic og svo þegar allt er um garð gengið verður því ef til vill safnað saman á Storify.