Verkfæri í kennslustofnuna – Class Tools

classtoolsÍ dag gerðist Þelamerkurskóli áskrifandi að ClassTools (50 pund fyrir 6 mánuði) og ég bjó til tvær þrautir í Ferningnum til að sjá hvernig þetta virkaði. Annar ferningurinn er um fugla og hinn um íslenska bókahöfunda.  Báðir virkuðu vel og var auðvelt að fylgja leiðbeiningunum á skjánum. Mér sýnist þetta geta gengið bæði á venjulegar tölvur og spjaldtölvur. Útilitið er eins og öll síðan, allt í lagi en ekki mjög mikið fyrir augað. Ég er samt ekki viss um að í hita leiksins taki krakkarnir eftir því.

Ég prófaði svo að setja fuglana í Ruslatunnu-þrautina og sá fyrir mér að það væri einfaldari útgáfa fyrir yngstu nemendurna. Svo þegar ég deildi þessu út til kennaranna og ætlaði að prófa hvort hlekkurinn virkaði gerðist ekkert, enda hafði ég skipt af tölvunni og yfir á spjaldtölvuna. Eftir að hafa flett svolítið í vefsíðunni sá ég FAQs og komst að því að ruslatunnuþrautin er ekki spjaldtölvutæk. Ef ætlunin er að nota þrautina á spjaldtölvu er sennilega best að byrja á því að skoða listann yfir þrautirnar sem hafa verið gerðar spjaldtölvuvænar og kanna svo hver þeira hentar verkefninu og þrautinni. Þær sem eru hérna fyrir neðan hafa verið gerðar spjaldtölvuvænar:

Fakebook: Fake Social Profile Generator
Arcade Game Generator
PacMan Quiz Game Generator

QR Code Scavenger Hunt Generator
Connect Fours („Only Connect“) Generator

Hexagons Generator
Roulette Wheel: Random Name Picker
Countdown MultiTimer
Twister: Fake Tweet Generator
Fake SMS Generator
Mission:MapQuest
Telescopic Topic
BrainyBox: Animated Cube
Citation Generator
Keyword Checker
Plagiarism Checker
TweetPics

QwikSlide

Dates for Schools

QuoteRotator

Að lokum skoðaði ég nafnahjólið og spilakassann/ritvélina og prófaði að skipta um nöfn í báðum. Það var enginn vandi. Það má nota þetta á ýmsa vegu, t.d. þegar skipta á í hópa eða skipta nemendum á stöðvar eða velja einhverja til að sinna stökum verkefnum. Það er líka hægt að nota spilakassann/ritvélina í látbragðsleik þar sem þeir eða sá sem á að giska snýr baki í skjáinn/tjaldið þar sem spilakassinn birtist og leikararnir lesa af skjánum og leika fyrir hann. Að leika bæjarnöfn er íþrótt í hópi sem ég þekki. Þetta tromp verður dregið fram við gott tækifæri.

Ég sé að þrautirnar vistast á sameiginlegu svæði þeirra sem eru í áskrift (ekki þaulkannað þó) en ég þarf að passa uppá mínar eigin þrautir með því að eiga lista yfir slóðirnar eða merkja þær sem uppáhalds-þrautirnar og þá geymast þær á lista sem ég kemst inná þegar ég skrái mig inn. Ef maður man heitin á þrautunum fann ég út að hægt er að slá heitið inn í kraft-leit (e. power search) og láta finna þrautina fyrir sig.

Þrautirnar sem ég bjó til hafa þegar farið inn á Facebook hóp kennara skólans og einn þeirra fékk strax hugmynd um að búa til þrautir úr efninu sem dreift var til skólanna vegna 100 ára afmælis kosningaréttar kvenna. Ég hlakka til að fylgjast með því. Svo kom þrautin auðvitað áður en dagurinn var liðinn. Þú getur kannað vitneskju þína um kosningarétt kvenna, lýðræði og mannréttindi með því að smella hérna.

Ég sé fyrir mér að hægt sé að búa til þrauta-banka og verkefni fyrir nemendur með því að setja hlekkina á Padlet eða Tackk og dreifa þá bara einum hlekk, þ.e. Padlet eða Tackk hlekknum. Einnig má dreifa hlekkjunum á þrautunum til nemenda í gegnum Facebook, Twitter, blogg- eða heimasíður námshópanna.

Ég fór svo að gramsa á Twitter, hvað fólk segði um Class Tools og þá rakst ég á eitt sem benti á að stjórnandi Class Tools heldur úti bloggsíðu þar sem hann sýnir hvernig hægt er að nýta þrautagerðina í kennslu. Það er líka bent á hana á forsíðu Class Tools en það hafði farið fram hjá mér.

Mér sýnist að meðal annars þeir sem eru að búa til ratleiki vordaganna geti bara strax nýtt sér þessa síðu stjórnanda Class Tools, Russel Tarr. Svo er um að gera að fylgjast með Class Tools á Twitter og Facebook. Þannig á að vera hægt að fylgjast vel með því sem gerist á þessum vettvangi.

Það er niðurstaða mín að þótt Class Tools sé ekki með fallegasta og liðlegasta viðmótið sem ég hef kynnst þá er það samt skemmtileg viðbót við annað sem er notað í kennslustofunni og getur gefið marga möguleika til náms, gleði og leikja í skólastarfinu.

Takk aftur, Samspil2015 og Útspil á Akureyri.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.