Í gær áttu Norðlendingar þess kost að sitja staðbundið námskeið (Útspil) innan UT-átaks Menntamiðju sem kallast Samspil 2015. Námskeiðið var haldið í Brekkuskóla og mátti telja um það bil 30 þátttakendur í salnum.
Frá Þelamerkurskóla mættu fjórir þátttakendur á námskeiðið, tveir kennarar og báðir stjórnendur skólans. Áður en við lögðum í ´ann inn á Akureyri hraus okkur aðstoðarskólastjóranum hugur við því að sitja á námskeiði um upplýsingatækni í fimm klukkustundir. Við lögðum strax á ráðin um að reyna að komast af námskeiðinu um klukkan sex; sögðumst bæði hafa öðrum hnöppum að hneppa svona seinni part dagsins.
Það er skemmst frá því að segja að þeir hnappar voru ekki hnepptir í gær á milli klukkan sex og sjö, því tíminn á námskeiðinu flaug áfram. Námskeiðið reyndist lifandi, áhugavert, skemmtilegt og um fram allt hvetjandi. Skipulag námskeiðsins gerði ráð fyrir virkni, umræðum þátttakenda og fyrirlestrum frá skipuleggjendum.
Ég kynntist:
- nýjum miðlum og verkfærum sem geta nýst í skólastarfi, bæði fyrir nemendur og starfsfólk
- nýjum miðlum og verkfærum sem geta nýst bæði í leik og starfi
- nýju fólki sem deilir áhuga mínum á meiri nýtingu UT í skólastarfi
Nú hálfum degi eftir Útspilið hef ég stofnað TitanPad sem ég ætla að nota á símafundi hjá skólamálanefnd Skólastjórafélags Íslands í dag og búin að leggja drög að því að búa til spurningaleik um farfuglana í ClassTools fyrir yngstu nemendur skólans. Og svo getum við stjórnendur varla beðið eftir því að gera Pub Quiz fyrir vorferð starfsmanna skólans í Kahoot. Við bókstaflega iðum í skinninu.
Þegar ég heyri að eigi að gera átak í einhverju sem varðar skólastarf verð ég venjulega skeptísk en ef Samspil 2015 nær að koma til leiðar bara broti áhuganum og kappseminni sem greina mátti í Brekkuskóla í gær er það meira en átak, það er vitundarvakning.
Hérna er hægt að nálgast glósur hópsins frá því í gær.