Ungur temur, gamall nemur?

ImageFyrir nokkru fylgdi ég hópi nemenda úr 7.-10. bekk Þelamerkurskóla inn á öldrunarheimilið Hlíð á Akureyri. Úr valfögum skólans höfðu þessir nemendur valið sér að kenna íbúum Hlíðar að nota Ipad spjaldtölvur.

Það er einfalt að láta sér detta í hug að senda grunnskólanemendur inn á öldrunarheimili í Ipadkennslu og það er enn einfaldara að búa til lýsingu á því sem þar á að gera. En að segja frá því sem þar fer fram og að setja upp matsviðmið og verkefnaskil fyrir fagið þykir mér flókið.

Ég monta mig oft af því sem gert er í Þelamerkurskóla og enn oftar er ég stolt af nemendum skólans. Stundin sem ég fylgdist með þessum nemendum dró ekki úr monti mínu og stolti. Eins og þaulæfðir miðlarar þekkingar mættu krakkarnir nemendum sínum fullir sjálfstrausts og vissu um að nemendur þeirra myndu geta lært á spjaldtölvuna og nýtt sér hana í dagsins önn.

Í þessu verkefni er ekki nóg að kunna á græjuna til að geta miðlað færni sinni og þekkingu. Í heimsókninni sem ég fylgdi nemendum sá ég krakkana nota innsæi sitt, samskiptafærni og útsjónarsemi til að miðla þekkingu sinni. Íbúar Hlíðar sem tóku á móti nemendum tóku þeim af áhuga og þakklæti. Þakklæti sitt sýndu þeir með nammiskálum sem stóðu tilbúnar á göngugrind eða náttborði eða kennurunum var klappað vinalega á handarbak eða öxl.

Eins og aðrir nemendur eru nemendurnir á Hlíð á öllum aldri og hafa mismunandi bakgrunn og forsendur til að tileinka sér spjaldtölvuna. En allir hafa þeir áhuga á viðfangsefni kennslustundarinnar og kennurum sínum. Í þessari heimsókn sá ég að krakkarnir úr Þelamerkurskóla voru fullvissir um að nemendur þeirra gætu lært á spjaldtölvuna. Og það sem mikilvægara er, ég sá hvernig það hafði áhrif á hvernig kennararnir nálguðust verkefni sitt og nemendur. Öruggir í fasi kynntu þeir tækið og spurðu um áhugamál og hugsanleg tengsl nemenda sinna við heiminn utan kennslunnar, bæði fyrr og nú. Saman flökkuðu svo þeir ungu og gömlu um heiminn. Með hjálp Google Maps var farið um sveitir og götur bæja og borga, með bílaáhugamanninum voru skoðaðar heimasíður bílasala, allir lásu saman fréttavefi og skoðuðu myndbönd og könnuðu einnig möguleikana á að nýta spjaldtölvuna til að spila og leika sér. Samhliða þessu sögðu krakkarnir og nemendur þeirra frá sjálfum sér, fjölskyldum og vinum og úr urðu samræður um áhugamál, fyrri störf og daglegt líf.

Eftir þessa kennslustund var ég ekki viss um hver hefði lært mest, þeir ungu, þeir elstu eða ég sjálf.

1 thought on “Ungur temur, gamall nemur?

  1. Bakvísun: „Við skoðum allt sem beðið er um …“ – Gróska í framboði á valnámskeiðum í grunnskólum – Skólaþræðir

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.