Unginn í kassanum

Unginn í kassanum

Amma Gerða í Mýrartungu á að öllu jöfnu nokkrar alíendur sem verpa og unga út á hverju sumri. Í vor lágu sex endur á eggjum sínum. Allar voru með nokkuð mörg egg og þegar við Karen Sif komum í heimsókn voru fimm þeirra komnar samtals með nítján unga á litlu tjörnina sem er á milli íbúðarhússins og fjárhússins og hlöðunnar.

Þegar Karen Sif og amma Ingileif komu inn til ömmu í Mýró var hún með lítinn unga í skókassa inni í stofu hjá sér. Unginn tísti hátt og snjallt en þegar hann heyrði röddina hennar ömmu varð hann rólegur og kúrði sig niður í dúninn sinn eða upp við tásurnar hennar ömmu. Kannski hélt hann að hún væri mamma hans vegna þess að hún var það fyrsta sem hann sá þegar hann kom út úr egginu sínu. Amma sagði að það væri allt í lagi því hún hafði þurft að bjarga þessum litla unga vegna þess að mamma hans hafði barasta gleymt honum.

Halda áfram að lesa

Amma dúleg

Image

Karen Sif með kringlu úr Gamla bakaríinu eftir sund á Suðureyri

Ég fæ tíu þumalfingur þegar ég þarf að fella saman og taka í sundur kerrur barnabarnanna. Ég fæ líka snert af þessu þegar ég þarf að festa bílstólana þeirra í bílinn og koma þeim sjálfum svo þar fyrir. Ég held að ekkert þeirra eigi sams konar kerru, bílstól eða vagn og að í hvert sinn sem ég fæ eitthvert þeirra og kerruna, vagn þess eða bílstól er ég viss um að það sé ekki sá sami og síðast fylgdi þeim.

Nú þegar við Karen Sif erum á Ísafirði fengum við kerruna hennar með okkur vestur. Ég er viss um að þetta er ný kerra. Ég hafði aldrei séð hana fyrr en Helgi Hrafn sýndi mér á hraða ljóssins hvernig ætti að fella hana saman og setja hana í eðlilega stellingu aftur.

Í dag eftir sundferðina á Suðureyri vildi Karen Sif hvíla sig. Hún vildi alls ekki kúra í rúminu og sagði: Nei, kerruna. Við fórum þá út í bíl og sóttum kerruna og í drykklanga stund bisaði ég við að ýta á allt sem ég sá á henni til að koma henni aftur í upprétta stöðu. Ég mundi að Helgi Hrafn hafði sagt, mamma það er bara einn takki. En allt kom fyrir ekki, kerran haggaðist ekki.

Við Karen Sif drógum hana inn í forstofu í Miðtúninu og áfram hélt glíman við kerruna en ekkert gerðist og kerran stóð eins og kolsvart skrímsli, samanþjöppuð á einu hjóli á miðju gólfi. Ég gafst upp og bauð Karen Sif gull og græna skóga niðri í rúmi. Nei kerruna, sagði hún. Þar sem ég veit að Karen Sif haggast sjaldan en mögulega væri hægt að koma kerrunni í eðlilegt horf með því að hringja í vin, dró ég símann uppúr vasanum og ætlaði að hringja í Guðbjörgu og biðja um ráðleggingar. Þá mundi ég eftir því að kannski væri einfaldara að biðja google eða you tube um hjálp. Um leið og ég sló inn leitarorðin „how to unfold …“ birtist heitið á kerrunni fyrir aftan. Greinilega höfðu fleiri lent í þessu eða framleiðendur kerrunnar reikna með að kaupendur hennar séu nettengdir á meðan þeir nota hana.

Á youtube fann ég myndband með elskulegri konu sem útskýrði fyrir mér alla kosti kerrunnar og hún endaði svo kennslustundina á að sýna mér hvernig kerrunni er komið í nothæfa stellingu eftir að búið væri að pakka henni saman og rífa allt af henni: Einn takki á annarri hliðinni, ýta á hann og kerran orðin eins og áður.

Þegar ég var búin að finna takkann á kerrunni hennar Karenar og koma kerrunni í upprétta stellingu, rétti Karen Sif báðar hendur upp fyrir höfuð og hrópaði glöð og fegin: Amma dúleg! Hún skreið svo uppí kerruna, með snudduna og Bellurnar og sofnaði með það sama.

Það er ekki bara amma sem er dúleg, það eru líka google og youtube.

Stingum af!

Image

Í gærkvöldi kom Karen Sif í heimsókn og bauð kisu með sér í siglingu. Þær voru vel búnar því með í för voru  risasápukúlur sem hægt var að róa með og líka skylmast.

Í dag stingum við Karen Sif af í spegilsléttan fjörð á meðan mamma hennar og pabbi stinga sér til NYC. Afi verður í vinnunni sinni á Akureyri og kisa þarf að vera heima á Mörk að passa húsið, fuglana, blómin og grænmetið.

Risasápukúlurnar fara með okkur Karen Sif í dag, því þá er öruggt að við getum skemmt okkur, komist áfram og líka varið okkur.