Unginn í kassanum

Unginn í kassanum

Amma Gerða í Mýrartungu á að öllu jöfnu nokkrar alíendur sem verpa og unga út á hverju sumri. Í vor lágu sex endur á eggjum sínum. Allar voru með nokkuð mörg egg og þegar við Karen Sif komum í heimsókn voru fimm þeirra komnar samtals með nítján unga á litlu tjörnina sem er á milli íbúðarhússins og fjárhússins og hlöðunnar.

Þegar Karen Sif og amma Ingileif komu inn til ömmu í Mýró var hún með lítinn unga í skókassa inni í stofu hjá sér. Unginn tísti hátt og snjallt en þegar hann heyrði röddina hennar ömmu varð hann rólegur og kúrði sig niður í dúninn sinn eða upp við tásurnar hennar ömmu. Kannski hélt hann að hún væri mamma hans vegna þess að hún var það fyrsta sem hann sá þegar hann kom út úr egginu sínu. Amma sagði að það væri allt í lagi því hún hafði þurft að bjarga þessum litla unga vegna þess að mamma hans hafði barasta gleymt honum.

Í síðasta mánudagskvöld þegar amma leit út um gluggann sá hún að fimmta öndin var á leiðinni út að tjörn með ungana sína. Amma vissi að öndin hafði legið á átta eggjum en hún sá að það voru bara sex ungar með henni. Amma fór í gúmmískóna sína og úlpuna, fór út og kíkti ofan í hreiður andarinnar. Þar lágu ennþá tvö egg. Amma sá strax að annað þeirra var ónýtt en á hitt þeirra var komið lítið gat. Amma hugsaði að þar gæti verið lifandi ungi. Hún fann að eggið var orðið kalt eftir að öndin var hætt að liggja á því svo hún varð að flýta sér með það heim. Hún setti það varlega ofan í vasann sinn og gekk hratt heim í Mýró. Til að hita egginu aftur setti hún eggið ofan í gamla húfu og undir sterka ljósaperu. Svo hugsaði amma að kannski væri unganum orðið svo kalt inni í egginu að hann gæti ekki brotið eggið aleinn og sjálfur svo hún hjálpaði honum með því að brjóta pínulítið meira af egginu fyrir hann.

Þegar eggið var farið að volgna heyrði amma tíst inni í egginu og vissi þá að unginn var farinn að hressast. Hann varð svo hress að hann gat sjálfur klárað að brjóta eggið. Hann var svolítið blautur svo amma leyfði honum að vera örlítið lengur undir perunni. Á meðan fann hún fyrir hann lítinn skókassa og setti ofan í hann dúnhnoðra, ungamat, pínulítið af mold og vatn í eggjabikar. Svo þegar unginn var orðinn þurr færði amma hann og húfuna ofan í kassann.

Unginn var svolítið þreyttur eftir að hafa brotið alla skurnina af egginu svo hann hvíldi sig á húfunni. Amma setti hann ofan í húfunu og setti svo kassann undir ofninn í eldhúsinu. Þannig hélt amma að honum yrði ekki kalt um nóttina. Þegar amma var orðin viss um að unginn var orðinn rólegur fór hún sjálf að sofa.

Morguninn eftir þegar hún vaknaði flýtti hún sér niður í eldhús til að kíkja á ungann sinn. Um nóttina hafði hann skriðið út úr húfunni og var nú aftur orðið kalt og orðinn slappur. Amma varð smeyk um að hann væri kannski orðinn of kaldur til að lifa þetta af. Hún hugsaði sig um og ákvað svo að kveikja á bakaraofninum og setja hann á lágan hita og hita þannig litla unganum.

Amma horfði á ungann inni í ofninum og fljótlega fór hann að hreyfa höfuðið og opnaði augun. Hann horfði á ömmu og fór að tísta. Þá vissi amma að hann var að hressast. Hún tók hann út úr ofninum og klappaði honum varlega á bakinu. Ömmu fannst við hæfi að kalla hann Dána því hann hafði næstum því dáið tvisvar sinnum.

Þennan dag var mikið sólskin og hlýtt í veðri í Mýró svo unginn fékk að vera úti á palli með ömmu. Hann kunni vel við sig í hlýjunni og birtunni en varð alltaf að heyra röddina í ömmu, annars varð hann órólegur.

Þegar amma gerði kvöldmatinn þennan dag hafði hún kassann inni í eldhúsi og þegar hún horfði á fréttirnar í sjónvarpinu tók hún kassann með sér inn í stofu. Þannig sá hún að unganum leið best. Hún sá líka að unginn var orðinn svo hress að hann var farinn að reyna að komast upp úr kassanum. Þá vissi amma að hún þyrfti að finna hærri kassa svo hann færi ekki að hlaupa um allt í húsinu og skíta á gólfin hjá henni. Það vildi hún ekki. Hún fór líka að velta fyrir sér hvernig væri best að koma honum í ungahópinn þannig að hinir ungarnir og ungmömmurnar vildu leyfa honum að vera með þeim.

Amma leyfði Karen Sif að klappa unganum og líka að halda á honum. Karen Sif lærði ekki strax að halda á honum en amma hjálpaði henni. Um kvöldið þegar allir voru farnir að sofa setti amma peysu yfir kassann svo hann tísti ekki alla nóttina. Þegar peysan var komin yfir kassann kúrði unginn sig niður í húfuna og dúnhnoðrann og lokaði augunum.

Morguninn eftir var það Karen Sif sem flýtti sér niður til að skoða ungann. Hún setti Belluna sína á gólfið og bauð unganum að leggjast í hana og “kúra lengur”. Unginn kúrði í Bellu og Karen Sif setti hann í hálsakot.

Þegar Karen Sif og amma voru að borða hafragrautinn sinn hoppaði unginn uppúr kassanum og amma sagði að nú yrði hún að finna nýjan kassa. Best væri kannski að hafa hann í litlum bala, hann væri hærri en kassinn og barmarnir sleipir svo hann kæmist ekki uppúr kassanum.

Þegar amma Ingileif og Karen Sif fóru á Ísafjörð var unginn kominn í lítinn bala og byrjaður að reyna að komast uppúr honum líka. Amma í Mýró var farinn að hugsa um það hvernig best væri að koma honum til hinna ungann.

Í bakaleiðinni frá Ísafirði og aftur í Mýró verður gaman að sjá hve mikið unginn hefur stækkað og hvort hann er kominn í ungahópinn. Og líka hvort sjötta öndin er komin með alla ungana sína ellefu á tjörnina.

Smelltu hér ef þú vilt skoða myndband af unganum.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.