Sækja salat!

Image

Árni Heiðar ánægður með uppskeruna.

Nýjasta eldhúsiðja Árna Heiðars er að sækja salat út í garð enda er sá tími ársins að uppskeran er þess virði.

Það eru ekki nema kannski 15 ár síðan ég fór að rækta sjálf eitthvert grænmeti á sumrin. Það var þegar við fluttum á Bjarkarbrautina á Dalvík. Þar var gamall kartöflugarður og undir honum lá heitavatnslögn bæjarins. Svo hann var fyrirtaks „varmareitur“. Enda komu þaðan bestu jarðaber sem mér hefur tekist að rækta. Og einnig óx grænmetið þar hratt og vel án þess að ég legði mikið á mig.

Hér á Mörkinni hefur mér ekki tekist að koma mér upp almennilegri jarðaberjaræktun. En það stendur til bóta á hverju sumri. Sumarið er bara svo stutt að það dugar ekki alltaf fyrir allar hugmyndirnar sem fæðast.

grodursetning og sáning

Fyrstu handtökin í vor. Baunir, salat, blóm og kryddjurtir.

Ég hef ekki lært almennilega að forsá plöntum. Þær plöntur (rófur, grænkál og brokkolí) sem þess þurfa sérstaklega kaupi ég í plöntusölu eða þá að vinir mínir sem eru duglegir að forsá gefa mér plöntur á vorin. Í vor fékk ég til dæmis salatplöntur og blóm frá einum vini.

Ég hef fundið út að okkur er nóg að rækta salat í pottum á pallinum sunnan við húsið og að vera með 2-3 kálplöntur í garðinum. Ég sái beint í pottana á pallinum og set forsáðar í garðinn. Í vor var allt frekar seint á ferðinni, bæði vegna veðurs og ýmissa anna. Ég sáði salatinu um mánaðamótin maí og júní og núna í fyrstu viku júlí er hægt að borða uppúr pottunum, blandað salat, spínat, klettasalat og mizuna-salat sem er nýjungin í ár. Ég keypti þann fræpoka óvart af því ég var gleraugnalaus og sýndist þetta vera klettasalat á myndinni því ég sá alls ekki hvað stóð á pokanum. En svo voru þetta ekki klettasalatsfræ. Mizuna-salatið vex vel á pallinum svo hugsanlega verða þessi mistök í innkaupum til þess að fjölgar varanlega í salatflórunni á Mörkinni.

Baunagras

Baunagrasið farið að láta á sér kræla.

Í fyrra var nýjungin baunaræktun í aflöngum blómapotti. Í honum hafði ég áður verið með blóm en fannst það vera of dýrt svo ég setti niður nokkrar baunir. Þær komu upp, blómstruðu og báru mikið af gómsætum baunum. Svo baunir geta verið fyrir augað, munn og maga. Í ár setti ég baunir í tvo aflanga potta og nokkra litla. Og næsta vor er áformað að flýta fyrir baunauppskerunni með því að forrækta þær innandyra fyrst.

Blandað salat, mizuna, klettasalat og spínat

Blandað salat, mizuna, klettasalat og spínat.

Mér finnst bæði spennandi og skemmtilegt að standa í þessari litlu ræktun og vildi gjarnan gefa mér meiri tíma til að sinna þessum áhuga. Dreymir um gróðurhús og lítinn varmareit neðst á lóðinni hér við Mörkina. Og hver veit nema að það verði að veruleika einn daginn.

Basil – fursti kryddjurtanna

basil

Ég veit fátt betra í hádegismatinn en brauðsneið með basil, salami, mozarellu og tómatsneið. Ég hlakka alltaf til þess tíma þegar basilikkan er fullvaxin og ég get klipið af henni (þeim) eins mikið og oft og ég vil.

Þorri Hringsson matgæðingur með meiru deildi einu sinni með lesendum Gestgjafans (í 5. tbl. árið 2003) hvernig hann ræktaði basil. Fyrirsögn þessa innleggs og lýsing hans á ræktuninni eru fengin að láni hjá honum . Hann segir orðrétt:

Nú á dögum rækta ég basil í eins stórum pottum og stofuglugginn minn ber (þeir eru 28 sm í þvermál að ofan og 23 sm háir) og ætti ég stærri glugga myndi ég stækka pottana enn frekar. En þá er ég hræddur um að þær plöntur myndu endanlega fylla út í mína litlu stofu.

Sáning er að öðru leyti hefðbundin. Hún fer yfirleitt fram í fyrstu viku apríl og þá eru plönturnar fullsprottnar í lok maí og byrjun júní. Vissulega er hægt að klippa þær jafnt og þétt niður eftir að þær  hafa náð ásættanlegri stærð en vilji menn hafa góða uppskeru allt sumarið er rétt að dreifa sáningu í pottana yfir lengra tímabil.

Þegar ég las þetta í fyrsta skiptið fór ég alveg að ráðum Þorra og hef gert á hverju vori síðan. Ég hef nú samt ekki alltaf náð að sá strax í apríl en oftast þó. Svona gerir Þorri (og ég eftir fyrirmælum hans):

1. Einn fræpoki er nóg í þrjá stóra potta. Mikilvægt er að pottarnir séu mjög stórir þvi endanleg stærð basilplöntunnar er í réttu hlutfalli við hvað rótin fær mikið pláss. Þá má setja þunnt vikurlag í botninn á blómapottinum en það er þó ekki nauðsynlegt.

2. Fyllið pottana að mold og þjappið vel niður.

3. Skiptið fræjunum (í pokanum) í þrjá hluta.

4. Dreifið fræjunum jafnt yfir allan pottinn.

5. Stráið þunnu lagi af mold yfir fræin og þjappið létt.

6. Vökvið vel.

7. Breiðið plastfilmu yfir pottinn. Ef hún festist ekki vel er gott að rjóða smá matarolíu á kantana áður en plastið er lagt yfir. Setjið pottinn í sólríkan glugga.

Kímblöðin eru farin að gægjast uppúr moldinni eftri 5-7 daga. Eftir að kímblöðin eru farin að teygja sig uppí plastið má taka það af og síðan verður að sjá til þess að plöntutnar þorni aldrei.

Þessi aðferð hans Þorra hefur aldrei klikkað svo ég mæli með því að þið prófið þó sé komið fram á sumar. Og svo aftur í apríl á næsta ári.