Ég veit fátt betra í hádegismatinn en brauðsneið með basil, salami, mozarellu og tómatsneið. Ég hlakka alltaf til þess tíma þegar basilikkan er fullvaxin og ég get klipið af henni (þeim) eins mikið og oft og ég vil.
Þorri Hringsson matgæðingur með meiru deildi einu sinni með lesendum Gestgjafans (í 5. tbl. árið 2003) hvernig hann ræktaði basil. Fyrirsögn þessa innleggs og lýsing hans á ræktuninni eru fengin að láni hjá honum . Hann segir orðrétt:
Nú á dögum rækta ég basil í eins stórum pottum og stofuglugginn minn ber (þeir eru 28 sm í þvermál að ofan og 23 sm háir) og ætti ég stærri glugga myndi ég stækka pottana enn frekar. En þá er ég hræddur um að þær plöntur myndu endanlega fylla út í mína litlu stofu.
Sáning er að öðru leyti hefðbundin. Hún fer yfirleitt fram í fyrstu viku apríl og þá eru plönturnar fullsprottnar í lok maí og byrjun júní. Vissulega er hægt að klippa þær jafnt og þétt niður eftir að þær hafa náð ásættanlegri stærð en vilji menn hafa góða uppskeru allt sumarið er rétt að dreifa sáningu í pottana yfir lengra tímabil.
Þegar ég las þetta í fyrsta skiptið fór ég alveg að ráðum Þorra og hef gert á hverju vori síðan. Ég hef nú samt ekki alltaf náð að sá strax í apríl en oftast þó. Svona gerir Þorri (og ég eftir fyrirmælum hans):
1. Einn fræpoki er nóg í þrjá stóra potta. Mikilvægt er að pottarnir séu mjög stórir þvi endanleg stærð basilplöntunnar er í réttu hlutfalli við hvað rótin fær mikið pláss. Þá má setja þunnt vikurlag í botninn á blómapottinum en það er þó ekki nauðsynlegt.
2. Fyllið pottana að mold og þjappið vel niður.
3. Skiptið fræjunum (í pokanum) í þrjá hluta.
4. Dreifið fræjunum jafnt yfir allan pottinn.
5. Stráið þunnu lagi af mold yfir fræin og þjappið létt.
6. Vökvið vel.
7. Breiðið plastfilmu yfir pottinn. Ef hún festist ekki vel er gott að rjóða smá matarolíu á kantana áður en plastið er lagt yfir. Setjið pottinn í sólríkan glugga.
Kímblöðin eru farin að gægjast uppúr moldinni eftri 5-7 daga. Eftir að kímblöðin eru farin að teygja sig uppí plastið má taka það af og síðan verður að sjá til þess að plöntutnar þorni aldrei.
Þessi aðferð hans Þorra hefur aldrei klikkað svo ég mæli með því að þið prófið þó sé komið fram á sumar. Og svo aftur í apríl á næsta ári.