Það er auðvelt að finna það sem mætti vera betra og það er líka auðvelt að kvarta yfir einhverju sem mætti vera öðruvísi. Það er öllu erfiðara að finna lausnir þar sem maður sjálfur er hluti af lausninni. Á ráðstefnu Alþjóðasamtaka kennara (EI) um menntun og skólagöngu flóttabarna sem ég sótti í síðustu viku var dregin upp mynd af aðstæðum flóttamanna í tölum, máli og myndum. Einnig voru á dagskrá umræðuhópar þar sem þátttakendur ræddu mögulegar lausnir og leiðir til að bæta aðstæður barna og ungmenna á flótta. Í umræðuhópunum var hlustað eftir reynslu þátttakenda og reynt að búa til verkefni sem gætu orðið til bóta.
Á ganginum framan við ráðstefnusalinn höfðu skipuleggjendur ráðstefnunnar einnig komið fyrir myndatökuboxi eins og við þekkjum úr verslunarmiðstöðvum og notum okkur til gamans til að taka af okkur skyndimyndir. Þetta box kölluðu skipuleggjendur „the pledge booth“. Þátttakendur ráðstefnunnar áttu sem sagt að fara inní boxið og segja myndavélinni sem þar var hvað þeir ætluðu að gera við lærdóminn af ráðstefnunni. Fyrst um sinn voru þátttakendur tregir til að stíga inn í boxið og var ég meðal þeirra. Ósjálfrátt þóttist ég ekki sjá boxið. Ég sagði sjálfri mér að ég vissi ekkert um þetta og greip jafnvel til þess að segja sjálfri mér að ég gæti nú ekki mikið gert, þetta væri svo svakalegt verkefni!