Undanfarna tvo daga hef ég ásamt Ingibjörgu Kristleifsdóttur formanni FSL og Aðalheiði Steingrímsdóttur varaformanni KÍ verið í Stokkhólmi á ráðstefnu Education International um menntun flóttabarna. Við fórum sem fulltrúar KÍ á ráðstefnuna og markmiðið með þátttöku KÍ í ráðstefnunni var að afla þekkingar svo KÍ geti gert sig gildandi í stuðningi við menntun barna í hópi flóttamanna og hælisleitenda hér á landi.
Ráðstefnuna sóttu meðal annars kennarar, fólk frá kennarasamtökum víða um heim, kennaranemar og stjórnmálamenn. Dagskrá ráðstefnunnar var fjölbreytt þar sem mörgum hliðum á málefninu var velt upp, allt frá því að kennarar sögðu frá starfi sínu við kennslu í flóttamannabúðum og kennslustundum í móttökulöndum til þess að sýndar voru tölur úr PISA um frammistöðu flóttabarna í skólum víðs vegar um heiminn. Einnig fengum við að heyra stjórnmálamenn segja frá stefnu stjórnvalda í málefnum flóttabarna. Drjúgur tími fór í umræðuhópa og vinnustofur þar sem ráðstefnugestir ræddu málefnið frá ýmsum hliðum og fundu mögulegar lausnir og verkefni til að vinna að.
Áhrifamest þótti mér

Hanan Al Hroub segir frá starfi sínu
- Að hlusta á Hanan Al Hroub segja frá starfi sínu sem kennari í Palestínu. Hún kennir börnum sem búa við ofbeldi af völdum stríðs. Í starfi sínu leggur hún áherslu á leikinn í námi barnanna og að börnin upplifi öryggi, samkennd og hlýju í skólastofunni. Hanan Al Hroub var bæði aðalfyrirlesari og tók þátt í pallborði kennara sem kenna flóttabörnum. Aðstæður hennar og viðbrögð hennar við þeim eru gjörólíkar þeim sem ég á að venjast í skólastarfi. Eins og aðrir nemendur bera nemendur hennar reynslu sína inn í skólastofuna; reynsluheimur nemenda Hanan er stríð, hatur og ofbeldi. Hún nálgast börnin með umhyggju og auðmýkt og leggur sig fram um að skapa öruggt umhverfi fyrir nemendur sína þar sem þeir læra að takast á við veruleikann utan skólans með því að velja ekki ofbeldið. Það er ekki annað hægt en að fyllast aðdáun yfir því hvernig hún tekst á við aðstæður og helgar sig málefninu.

Það eru ekki allar skólalóðir grasi grónar
- Að hlusta á Natalie Scott sem hefur kennt í ólöglegum flóttamannabúðum í Frakklandi. Aðstæður þar eru ömurlegar á allan hátt svo ekki sé fastar að orði kveðið. Natalie er öflugur bloggari þar sem hún segir frá starfi sínu sem kennari. Það má sannarlega margt af henni læra.
- Að hlusta á Haldísi Holst lesa upp ljóð eftir Warsan Shire um aðstæður flóttamanna.
Lærdómsríkast fyrir mig var
- Að heyra hve aðstæður flóttabarna eru mismunandi víða um heim.
- Að læra ný hugtök og skilgreiningar um fólk sem þarf af alls kyns ástæðum að yfirgefa heimili sín.
- Að heyra Melissu Cropper varaformann kennarasamtakanna í USA segja frá því hvaða verkefni bættust við hjá samtökunum eftir kjör Trump. Áróður hans og fylgismanna hans einkennast af hatursáróðri og með áróðri þeirra hefur hatur verið „normaliserað“. Samtökin hafa hrint af stað vitundarvakningu meðal kennara og almennings undir slagorðinu Tell Trump to #StopTheHate. Hægt er að lesa frétt um vitundarvakninguna með því að smella hérna.
Samráð og hlustun á rödd kennara og flóttamanna er lykillinn að gæðamenntun flóttabarna. Valdefling stéttar og nemenda #ed4refugees https://t.co/GChcaG7IUr
— Ingileif Ástvalds (@ingileif) November 21, 2016
- Að sjá greiningar Andreas Schleicher sérfræðings OECD á því hvernig aðstæður flóttamanna í móttökulöndum víða um heim hafa áhrif á það hvernig þeir ná að byggja upp líf á nýjum stað. Þar virðist viðurkenning á móðurmáli þeirra, aðstæðum og valdefling þeirra hafa mest áhrif.

Kennararnir sem starfa með börnum og ungmennum á flótta
- Að fá viðurkenningu á því enn og aftur að þegar kennslustundin er miðuð við þarfir og aðstæður hópsins hverju sinni næst árangur. Þar skiptir máli að kennarar finni að þeir hafi traust til að meta hvaða efni og aðferðir henta hópnum bæði í nútíð og til framtíðar. Um þetta voru kennararnir sem starfa með flóttamönnum sammála. Þá var ekki endilega verið að fylgja námskrá eða öðrum utanaðkomandi þörfum.
- Í máli þessara kennara kom líka fram að tómstundastarf og óhefðbundið skólastarf var nauðsynlegt svo nemendum líði vel í skólanum og næðu árangri í námi og starfi.
Erfiðast þótti mér
Enginn heldur á sjóinn ótilneyddur nema hann meti að sjórinn sé öruggari en eigið heimaland #ed4refugees
— Ingileif Ástvalds (@ingileif) November 21, 2016
- Að sjá hve verkefnin eru mörg og aðstæður margra barna erfiðar.
- Að kennaraskortur er stór hindrun í að börn á flótta fái þá menntun sem þau eiga rétt á.
- Að finna smæð mína í þessum aðstæðum.
- Að finna að það er svo lítið sem ég get gert annað en að vanda mig við það sem ég geri nú þegar og reyna eins og ég get að vekja aðra líka til umhugsunar og aðgerða.
- Að finna út hvað það væri sem ég gæti lagt af mörkum og greina frá því fyrir framan myndavél til hvaða aðgerða ég ætlaði að grípa þegar ég kæmi aftur heim.
- Að taka þátt í umræðuhópum á ensku þar sem fæstir þeirra sem þar voru höfðu ensku sem móðurmál. Það var mjög krefjandi en lærdómsríkt.
Skemmtilegast þótti mér

Starfaði með þessum kennslukonum í umræðuhópi um starfsþróun kennara
- Að kynnast fólki frá öllum heimsálfum og heyra um störf þeirra að málefnum flóttabarna.
- Að finna að það er fjöldi fólks um allan heim sem er tilbúið til að leggja sitt af mörkum svo börn á flótta geti fengið þá menntun sem þau eiga rétt á.
- Læra á appið þar sem öllu því sem tilheyrði ráðstefnunni var safnað saman.
- Að takast á við að finna mögulegar lausnir á viðfangsefni ráðstefnunnar.
Að lokum
Í flóttamannabúðum á menntun að vera í forgangi eins og aðrar grunnþarfir #ed4refugees
— Ingileif Ástvalds (@ingileif) November 21, 2016
Við berum öll ábyrgð á því að takast á við að finna lausnir og „nýja“ framtíð fyrir fólk sem þarf af einhverjum ástæðum að yfirgefa heimaland sitt. Menntamálaráðherra Svíþjóðar, Gustav Fridolin orðaði það svo í lok ráðstefnunnar:
Vandinn er ekki flóttamannavandi heldur vandi vegna þeirra sem ekki taka ábyrgð á þeim sem þurfa að flýja heimaland sitt #ed4refugees
— Ingileif Ástvalds (@ingileif) November 22, 2016
Þess vegna er ábyrgð allra mikil við að finna lausnir svo auðveldara verði að leysa verkefnin sem blasa við svo flóttafólk geti átt uppbyggilega framtíð á nýjum slóðum.
Aðrar samantektir eftir ráðstefnuna
Á Storify safnaði ég saman tístum ráðstefnugesta:
Á Google Photos safnaði ég saman myndunum sem ég tók:
Á heimasíðu EI er frétt um ráðstefnuna og þar er líka hægt að skoða upptökur frá henni.
Skráð á Arlanda flugvelli í Stokkhólmi miðvikudaginn 23. nóv. 2016