Hvað ætlar þú að gera?

Það er auðvelt að finna það sem mætti vera betra og það er líka auðvelt að kvarta yfir einhverju sem mætti vera öðruvísi. Það er öllu erfiðara að finna lausnir þar sem maður sjálfur er hluti af lausninni. Á ráðstefnu Alþjóðasamtaka kennara (EI) um menntun og skólagöngu flóttabarna sem ég sótti í síðustu viku var dregin upp mynd af aðstæðum flóttamanna í tölum, máli og myndum. Einnig voru á dagskrá umræðuhópar þar sem þátttakendur ræddu mögulegar lausnir og leiðir til að bæta aðstæður barna og ungmenna á flótta. Í umræðuhópunum var hlustað eftir reynslu þátttakenda og reynt að búa til verkefni sem gætu orðið til bóta.

Á ganginum framan við ráðstefnusalinn höfðu skipuleggjendur ráðstefnunnar einnig komið fyrir myndatökuboxi eins og við þekkjum úr verslunarmiðstöðvum og notum okkur  til gamans til að taka af okkur skyndimyndir. Þetta box kölluðu skipuleggjendur „the pledge booth“. Þátttakendur ráðstefnunnar áttu sem sagt að fara inní boxið og segja myndavélinni sem þar var hvað þeir ætluðu að gera við lærdóminn af ráðstefnunni. Fyrst um sinn voru þátttakendur tregir til að stíga inn í boxið og var ég meðal þeirra. Ósjálfrátt þóttist ég ekki sjá boxið. Ég sagði sjálfri mér að ég vissi ekkert um þetta og greip jafnvel til þess að segja sjálfri mér að ég gæti nú ekki mikið gert, þetta væri svo svakalegt verkefni!

Þegar leið á seinni dag ráðstefnunnar sá ég að fyrir framan boxið var komin biðröð og flestir sem þar stóðu voru með miða í hendinni. Á miðunum voru loforðin sem þeir lásu upp inni í boxinu. Enn lét ég sem ekkert væri og taldi sjálfri mér trú um að þessi liður ráðstefnunnar væri valkvæður og hefði ekkert með mig að gera. Aðrir ættu að sjá um þetta!

Hópurinn sem ég starfaði með rétt fyrir ráðstefnuslitin var fljótur að vinna og fyrir vikið fengum við lengra kaffihlé. Í hópnum voru Íri og Skoti sem fóru að kíta um það hvort þeirra yrði með betri lesningu inni í boxinu. Írinn lét Skotann æfa sig fyrir framan okkur hin og svo spurðu þau bæði: Og hvað ætlar Ísland að gera? Ég gat auðvitað ekki sagt: Ekkert! Heldur sagði ég að ég ætlaði að nota aukatímann okkar til að undirbúa mig. Ég kom mér fyrir í sófahorni og skráði á símann minn það sem mér datt í hug að ég gæti mögulega gert við lærdóm þessara daga. Ég fór þvínæst í röðina og inn í boxið. Þar stóð ég fyrir framan IPad á upptöku og taldi upp það sem mér hafði dottið í hug.

Þegar frá líður finn ég að í þessari litlu yfirlýsingu sem ég þuldi upp fólst skuldbinding þar sem ég hef tekið ábyrgð á því að leggja mitt af mörkum fyrir málefni ráðstefnunnar. Með þessu litla verkefni tókst skipuleggjendum ekki bara að vekja þátttakendur til umhugsunar heldur líka að ýta okkur til aðgerða. Það er til eftirbreytni vegna þess að það er mjög auðvelt og afar einfalt að mæta á ráðstefnu til útlanda, safna saman á glósum og láta svo bara þar við sitja.

Ef boxið á ganginum hefur haft sömu áhrif á aðra ráðstefnugesti eins og það hafi á mig er ég viss um að við þokumst nær lausnum en við höfum hingað til gert. Við berum nefnilega öll ábyrgð á þessu verkefni eins og öðrum sem gera heiminn betri.

Leave a Reply

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.