Leiðsagnarnám og lifandi netkennslustundir

Halldór Björgvin Ívarsson í viðtali við blaðamann Kjarnans. Myndin er fengin að láni úr viðtalinu sem birtist í Kjarnanum í maí 2020.

Í lok nóvember sl. hlustaði ég á kynningu hjá Halldóri Björgvin Ívarssyni kennara við Framhaldsskólann í Mosfellsbæ. Þar sagði hann frá því hvernig hann nálgast leiðsagnarnám og hvernig honum tókst að færa það skipulag og áherslur yfir í netkennslu.

Af kynningu Halldórs Björgvins var ljóst að hann hafði ástríðu fyrir því að kennslan vekti áhuga nemenda og hann lagði sig fram um að finna leiðir til að virkja nemendur þannig að þeir hafi áhrif á eigið nám ásamt því að gefa þeim tækifæri til þess að eiga hlutdeild í því hvernig verkefni þeirra eru metin. Eftir kynninguna hafði ég samband við Halldór Björgvin til að fá hann í viðtal í Hlaðvarp Bara byrja. Hann varð við bóninni og hérna fyrir neðan getur þú hlustað á viðtalið við hann og kennslu-kisuna Töru. Þar segir hann frá verkfærunum sem hann notar og skipulaginu sem hann styðst við; m.a. skammtaaðferðinni og nálgun hans á leiðsagnarnámið.

Hlusta á Spotify eða Apple Podcasts.

Gleði, söngur og samstarf

María Gunnarsdóttir
María Gunnarsdóttir tónmenntakennari

Í febrúar 2019 hitti ég Maríu Gunnarsdóttur tónmenntakennara sem þá starfaði í Hrafnagilsskóla. Hún hefur 20 ára reynslu sem tónmenntakennari. Um þessar mundir starfar María í Setbergsskóla í Hafnarfirði. Ég fylgdist með henni í tíma með nemendum þar sem María og börnin sungu fyrir mig Drekalagið. En þau höfðu einmitt verið að ljúka við þemaverkefni um dreka þegar ég heimsótti skólann. María hafði verið í samstarfi við bekkjarkennarana vegna þess þemaverkefnis.

Myndverk sem nemendur unnu í þemaverkefninu um Dreka.

Eftir kennslustundina settumst við María niður á kaffistofunni og ræddum saman um starf tónmenntakennara og hvað það er sem drífur hana áfram í að vera sífellt skapandi og drífandi í starfi kennara sem hitta og miðla til barna í sex skólum við Eyjafjörð. Þar kemur fram að gleðin og endurgjöf nemenda, aðstandenda og skólastjórnenda drífa Maríu áfram ásamt því að hafa möguleikana á því að vera í samstarfi við aðra kennara; jafnt umsjónarkennara og aðra tónmenntakennara. Og svo finnst Maríu líka óendanlega gaman að vera barnakennari.

Hlusta á Spotify eða Apple Podcasts

Aoife Cahill skólastýra í Sharewood Park

Í fjórða þætti hlaðvarps Bara byrja ræði ég við Aoife Cahill skólastýru St. Luke Catholic School. Hún er félagi minn í verkefninu Skólastjóraskipti sem er samstarfsverkefni Skólastjórafélags Íslands og Kennarasambandsins í Alberta í Kanada. Áður en við hittumst á flugvellinum í Edmonton fyrir 10 dögum höfðum við verið í sambandi á Twitter, Instagram og í gegnum tölvupóst. Þar skiptumst við á frásögnum af áherslum og áhuga í leik og starfi.

Aoife Cahill skólastýra St. Luke Catholic School

Hlusta á Spotify eða Apple Podcasts.